20.11.1945
Sameinað þing: 9. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í D-deild Alþingistíðinda. (5164)

74. mál, kauplækkun og afurðaverð

Flm. (Jónas Jónsson) :

Þetta mál hefur nú beðið nokkra stund eftir því að verða tekið hér til umr. og meðferðar. Býst ég ekki við, að það saki, því að dýrtíðin hefur ekki heldur farið burt frá okkur. Er því sama tækifæri og þörf til að sinna þessu máli eins og þegar till. var borin fram. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál, því að öllum hv. þm. er það jafnkunnugt, að dýrtíðin er komin á það stig, að það getur ekki dregizt mjög lengi, að hér verði margháttuð atvinnustöðvun. Það er öllum kunnugt, sem ganga niður að höfn, að nú liggja næstum öll gufuskip landsins bundin við festar. Stafar það af því, að nokkrir starfsmenn skipanna, um 50 menn, þessi litli hópur, hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að það henti ekki fyrir sig að lækka kaupiðs þó að friður sé kominn á, og óska að halda um það bil jafnmiklu kaupi og meðan stríðið var, vegna þess að aðrar stéttir hafa ekki gefið eftir af kaupi sínu. Nú ætla ég ekki að fara út í það, hvort þessi hugsunarháttur er réttur, en það er staðreynd, að um 2 mánaða skeið hafa sum skipin legið bundin, af því að sjómenn vilja ekki lækka kaupið á undan öðrum. Búið er við, að þetta svar þeirra sé allsherjarsvar allra launamanna. Þess vegna er ekki um það að deila, að það, sem þarf með, er hlutfallsleg lækkun á öllum þessum 3 liðum, sem hér er rætt um.

Ég get nefnt annað dæmi, sem ekki er eins kunnugt öllum hv. þm., en sýnir aðstöðu okkar. Það er við gróðurhús hér. Húsin eru flest á Suðurlandi. Þar er kaup verkakonu 1400 kr. á mánuði og allt frítt. En í Danmörku hefur kona, sem vinnur sömu vinnu, 250 kr. kaup á mánuði. Það leiðir af sjálfu sér, þegar sá munur er á dýrtíð okkar og næstu þjóða, að það getur ekki liðið á löngu þangað til að vörur okkar verða ekki seljanlegar erlendis, með þeim erfiðleikum, sem því fylgja. Ég býst við, að ýmsir af leiðtogum verkamanna hafi fyrir sitt leyti fram að þessu útskýrt afstöðu sína til dýrtíðarmálanna með því, að á meðan atvinnuvegirnir bæru sig með þessu kaupi, þá væri ekki ástæða til að lækka það. Það er ekki hægt að segja það um siglingarnar hjá Eimskipafélagi Íslands, að þær beri sig með þessu kaupi, því að það munar miklu. Og það er ekki hugsanlegt, að Eimskipafélagið eða slík fyrirtæki önnur reyni að halda uppi siglingum með óbreyttu kaupi. En þótt maður gangi inn á þessa röksemd verkamannaleiðtoganna, þá er að minnsta kosti komið svo nærri þeim punkti, eins og þeir sem allir aðrir hljóta að sjá, að lækkun verður að gerast, og það ætti að vera hugsanlegt einmitt nú að fá á þessu þ. samkomulag á milli allra aðila um að taka á þessu máli.

Ég hef leyft mér að leggja til, að þ. kjósi 4 menn í n., einn af hverjum stjórnmálaflokki, og að þeir, í samráði við ríkisstj. þá sem er eða kemur, ef breyt. er í aðsigi á henni, vinni að því að finna þennan grundvöll, sem hlutfallsleg lækkun verður byggð á. Ef það tekst ekki, þá er það víst, að það kemur að því, að eins verður ástatt í öðrum atvinnugreinum og nú er ástatt með skipin. Það er stórkostlegt tap á skipum Eimskipafélagsins í samkeppninni við hin erlendu leiguskip. En þessi sama samkeppni kemur fyrr en varir á öðrum sviðum, og verður þess vegna sýnilega aðeins augnabliksfrestur þar til hún nær til allra landsmanna.

Ef þessi till. verður ekki samþ., þá er það sökum þess, að Alþ. sér sér ekki fært að taka á þessu máli, heldur verði beðið eftir, að erfiðleikarnir brjóti niður atvinnulífið af sjálfu sér. Ég legg til, að málinu verði, að lokinni þessari umr., vísað til allshn. til frekari athugunar.