13.03.1946
Efri deild: 83. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég skrifaði upp hér nokkur atriði í gær, sem ég taldi mig þurfa að svara, en sá miði hefur týnzt, sem það var á, hér af borðinu, svo að ég minnist aðeins nú á þau atriði, sem ég man úr þessum umr. Og skiptir það þá held ég ekki svo miklu, þó að sumt fari fram hjá mér, sem sagt hefur verið um þetta mál — það var ekki svo merkilegt, að það þurfi þá að svara því. — Það var um ræðu hv. þm. S.-Þ., að ég skildi ekki, frekar en aðrir, sem á mál hans hlýddu, hvað hann var að fara með því, sem hann sagði í þessu máli. Hann talaði um stéttarfélag bænda og að það vildi fá peninga úr ríkissjóði til þess að kosta félagsskapinn. Þetta er rangt og óskiljanlegt misminni. Það er stungið upp á því viðkomandi félagssamtökum bænda, eins og óskað var eftir, að stofnað yrði til þeirra af hálfu Búnaðarsambands Suðurlands, að peningar yrðu borgaðir úr búnaðarmálasjóði til þessa, og það var fellt af búnaðarþingi. — Mér skildist á hv. þm. S.-Þ., að hann teldi aðalgallann á þessum félagsskap bændanna, að þeir væru ekki búnir að gera verkfall. En það hefur oft komið fram í þessum umr., að hv. þm. hafa talið og aðrir, að það skipti mestu máli, að halda bændunum utan við að gripa til þeirra vopna. En það er vitanlega á valdi bændanna sjálfra, hvort og hvenær þeir gera verkfall. Og það er sjálfsagt fyrir þá að beita þeim rétti, þegar þeir telja sig svo rangindum beitta, að þeim sýnist hagkvæmt að beita þessu vopni. Og þó að þetta væri gert hér á landi, væri það ekki eins og það hefði aldrei heyrzt um slíkt áður. Því að sænskir bændur hafa hótað mjólkurverkfalli af því, að þeim mislíkaði við stjórnina, og tilkynntu ríkisstj., að ef hún léti ekki að óskum þeirra, settu þeir á mjólkurverkfall eftir tiltekinn tíma. Og í erlendum fréttum kom svo, að sænska stjórnin hefði látið undan því, að gert væri þetta verkfall. Ég svara með þessu bæði hv. þm. S.-Þ. og hv. 3. landsk. þm., sem taldi fráleitt, að bændur beittu verkfallsrétti, svo og hv. þm. Barð., sem einnig taldi þetta fráleitt. Slíkt kemur vitanlega til álita hjá bændum sjálfum, og þeir verða þess vegna að meta öll rök með og móti því að ráðast í verkfall. Það ákváðu þeir að gera ekki á síðasta hausti. Þeir álitu það ekki rétt að gera það þá. En þeir hafa hins vegar undirbúið reglur fyrir sínum stéttarsamtökum, þannig að þeir geta gripið til þessa vopns, hvenær sem þeir telja ástæðu til. Mér skildist á hv. þm. S.-Þ., að hann væri á báðum áttum um það, hvort hann ætti að vera með þessu frv. eða móti, aðallega af því, að með þessu frv. væri viðurkennt, að þetta ríkisframlag, sem frv. er um, væri neytendastyrkur. Og mér skildist, að þar sem þessi viðurkenning væri gefin af hæstv. landbrh., þá teldi hann svo mikils virði, að skorið væri úr um þetta, að hann væri frekar hlynntur frv. en það gagnstæða. Annars finnst mér það lítt skiljanlegt, að þeir, sem halda því fram, að bændur séu sérstaklega kúgaðir með þessu máli og á annan hátt, geti fyrir það eitt, að það er viðurkennt, sem allir hafa vitað, að hinn svokallaði styrkur til landbúnaðarins hefur verið og er hvorki neytendastyrkur né heldur framlag til bænda, heldur framlag ríkisins til þess að geta haldið framleiðslunni í gangi, og þess vegna hluti af kaupgreiðslu til verkalýðsins, — mér finnst undarlegt, að þeir, sem haldið hafa fram, að bændur væru kúgaðir með þessu máli, geti fyrir þessa viðurkenningu eina fylgt þessu frv., — fyrir það, að þetta er loksins nú viðurkennt.

Annars er það um bændasamtökin að segja að það er fullkomið samkomulag um það hjá miklum meiri hluta sjálfstæðisbænda og framsóknarbænda, hvernig þessum samtökum verði fyrir komið. Það er í þessu efni ágreiningur um formsatriði, sem bændur gera út um sjálfir í félögum sínum í vor. Og þau ágreiningsatriði eru svo lítilfjörleg, að það getur svo að segja engu máli skipt, hvor leiðin verður valin í þeim efnum. Og þetta er skiljanlegt fyrir þann mann, sem hugsar um málið. Í Búnaðarfélagi Íslands er Framsfl., a. m. k. í svipinn, í meiri hluta, en það er þó unnið með þeim hætti í því félagi, að þess gætir ekki á nokkurn hátt, hvaða flokkur er þar í meiri hluta. Menn sjá það í hendi sér, að það hefur engin áhrif á stéttarsamtök bænda, hvaða tengsl eru á milli Búnaðarfélagsins og Framsfl. Það er aðeins ímyndun, ef einhver heldur, að Framsfl. ætli sér að ná einhverjum sérstökum yfirráðum með því að hafa meiri hluta í Búnaðarfélagi Íslands. Hitt er svo annað mál, sem ég ætla ekki að fara að ræða hér, nema sérstakt tilefni gefist til, hvort það er rétta leiðin og bændum fyrir beztu, — þar sem mikill hluti sjálfstæðisbænda og framsóknarbænda er á einu máli um það, hvernig þessum samtökum skuli háttað í öllum aðalatriðum, að stofnað sé til lítilfjörlegs klofnings, sem þó er kannske svo lítill, að ekki skiptir máli. En söm er þeirra manna gerð, sem að þessu standa, að reyna að koma inn þessum klofningi og auka hann.

Ég get ekki stillt mig um að minnast á þá sjálfheldu, sem hv. 3. landsk. þm. er kominn í. Það er siður hér í hv. d. og á Alþ. að telja þann hv. þm. mikinn málafylgjumann og rökfastan þm., og skal ég ekki draga úr því. En þau rök, sem hann færði fram í þessu máli, sérstaklega í síðari ræðu hans, þau voru ekki á marga fiska. Í fyrri ræðu sinni hélt hann því fram — en fór kostgæfilega í kringum það í sinni seinni ræðu — að rökin fyrir því, að gerðardómsl. voru sett viðkomandi bændum, væru þau, að ríkið greiddi hluta af kaupgjaldi, þ. e. tekjum bænda með kjötuppbótunum og þeirri niðurfærslu, sem það greiðir á mjólkurverðinu. Ég sýndi fram á — og hann reyndi ekki að svara því, — að þetta væri misskilningur. Bændur hafa ekki óskað eftir þessu sérstaklega, heldur að fá að selja vörur sínar fyrir það verð, sem þarf, til þess að geta borið svipað úr býtum og aðrar stéttir í þjóðfélaginu. En ef þetta væri tilfellið, sem hv. 3. landsk. þm. hélt fram, þá mætti benda á, að með ábyrgðinni á freðfiskverðinu og saltfiskverðinu og verði fleiri útflutningsvara væri ríkið á sama hátt byrjað að greiða stóran hluta kaups sjómanna og verkamanna. Og ætti þá, eftir rökum hv. 3. landsk. þm., ríkið að geta sett gerðardóm til þess að ákveða kaup þessara manna og láta þá „skammta sér úr ríkissjóði“, eins og orð hv. 3. landsk. lágu. Þessu reyndi þessi þm. ekki að svara neinu, enda mundi það næsta erfitt. Og ég verð að segja, að ég álít, að þessi rök hv. 3. landsk. þm. fyrir því að setja gerðardómslög viðkomandi einni stétt landsins séu ákaflega léttvæg. Og get ég ekki tekið undir það, að réttlátt væri að setja slík lög um verkamannastéttina eina fyrir það, að hún þiggur hluta af sínum launum úr ríkissjóði.

Hv. 3. landsk. þm. hefur nú, eins og stjórnarflokkarnir hafa oft gert, haldið því fram, að það sé Framsfl., sem eigi aðalsökina á dýrtíðinni, með því, — eins og þeir orða það — að hafa slitið sundur sambandið á milli afurðaverðs og kaupgjalds. Þetta er vitanlega algerlega rangt. Fyrir styrjöldina voru hlutföllin, sem atvinnutekjur verkamanna og bænda voru miðuð við, reiknuð út eftir kauptaxta fyrir klukkustund og verðinu fyrir eitt kg. af kjöti og mjólkurlítrann. Í raun og veru var þetta þá mælt á þennan mælikvarða. En þegar styrjöldin kemur til, gerbreytist þetta, þannig að, í stað þessa mælikvarða kemur annar. Og það hefði verið að slíta í sundur sambandið milli afurðaverðs og kaupgjalds að miða áframhaldandi á þennan hátt við taxtakaup og kjötkg. og mjólkurlítrann. Því að það var vitað, að þó að hvorki kjötkg. né mjólkurlítrum fjölgaði í búum bænda, þá fjölgaði klukkustundum þeim, sem verkamenn unnu, vegna þess að þeir fengu stöðuga vinnu árið um kring. Og þess vegna gerbreyttust tekjur þeirra frá því, sem var fyrir styrjöldina. Það, sem raunverulega var tekið upp, þegar þetta styrjaldarástand breytti svo tekjum manna, var, að reiknað var út, hvert afurðaverðið ætti að vera, til þess að tekjur bænda væru sambærilegar við tekjur verkamanna, þegar miðað væri við afurðir, sem bændur seldu og framleiddu fyrir sig. Og þetta var raunverulega að halda því hlutfalli, sem hafði verið á milli tekna verkamanna og bænda. Aðeins var miðað við nýjar aðstæður, sem höfðu komið til, þegar styrjöldin skall á. Það er í þessu sambandi ákaflega fróðlegt að benda á það, sem ég minntist á hér í gær, að sænska verkamannastjórnin sá sér alls ekki fært að miða við verð mjólkurlítrans og kauptaxtann, sem hafði verið fyrir stríð í Svíþjóð, heldur var kaup bóndans miðað við það, að það verð, sem hann fékk fyrir afurðirnar, var 25% hærra en kauptaxtarnir, miðað við það, sem var fyrir stríð. Svíum var ljóst, að ef þeir hefðu látið hvort tveggja hækka jafnt að krónutölu miðað við kaup á klukkustund og verð fyrir mjólkurlítrann, þá hefðu þeir rofið réttlátt samband á milli kaupgjalds og verðlags.

Hv. 3. landsk. þm. sagði, að verðlagningin á landbúnaðarafurðum hefði verið viðunandi fyrst framan af hjá verðlagsnefnd. En hann sagði, að undir lokin hefði algerlega keyrt um þverbak, og vegna þessarar breyt., sem varð á þeim undir lokin, hefði alls ekki orðið komizt hjá því að stofna til þeirrar löggjafar, sem hér liggur fyrir. Væntanlega minnist þessi hv. þm, þess, að það var stjórn, sem hann kom á laggirnar og studdi árið 1942, sem skipaði þá verðlagsnefnd. Það var þessi hv. þm. sjálfur, sem studdi, þá stjórn, sem skipaði form. verðlagsn., sem réð verðinu á afurðum þessum haustið 1942 og áfram. (HG: Ekki er það rétt). Vitaskuld er það rétt, því að þessi fulltrúi ríkisstj. er oddamaður í n. og réð þess vegna verðinu. Þess vegna fellur um sjálfa sig ásökun þessa hv. þm. í garð framsóknarmanna í þessu efni, því að það var hans eigin stjórn, sem skipaði þennan mann. Og stjórn, sem hann bar ábyrgð á, bar ábyrgð á verðlaginu á landbúnaðarafurðunum 1942.

Ég ætla svo aðeins að segja við þennan hv. þm., af því að hann var að tala um vistaskipti og að ganga úr vistinni og að ég hefði talað um það, að Alþfl. menn væru gengnir úr vistinni. Ég var að sítera þar í Alþýðublaðið sjálft. Og ég vil ekki, að hv. 3. landsk. þm. komist fram með þær blekkingar, að ég hafi verið að hefja umtal um nein vistaskipti hjá flokkunum. Það kemur skýrt fram í þessari blaðagrein í Alþýðublaðinu, sem einn af helztu flokksmönnum hv. 3. landsk. hefur skrifað, að hann telur, að flokkurinn sé genginn úr vistinni að því er snertir sína , eigin stefnu. Og hann segir, að slíkur flokkur geti aldrei orðið annað en óaldarflokkur, en geti ekki erft ríkið. Þess vegna gerir hann till. um, að hann losni úr lausamennskunni og geri tilraun til þess að erfa ríkið á þann hátt, sem stefna hans var framan af. Það er ekki þannig, að ég sé kominn í neina biðilsför til hv. 3. landsk. eða hans flokks til að óska eftir vistaskiptum af hans hálfu frá því, sem nú er. Ég geri mér fyllilega ljóst, að Alþfl. er nú í því samstarfi, að hann þarf að gera miklu meira — og það vil ég, að hv. 3. landsk. leggi sérstaklega á minnið — en að samþ. tryggingalöggjöf, um að allir skuli fá greitt svo og svo mikið, ef þeir verða fyrir tjóni, svo sem sjúkdómum, slysum o. s. frv. Þetta er allt gott og blessað út af fyrir sig, en Alþfl. þarf að gera meira og mun eiga annríki næsta haust við að sjá fyrir tekjum til þess að geta staðið undir þessari og annarri löggjöf, sem afgr. verður frá þessu þingi. Ég er, satt að segja, einn af þeim mönnum, sem álíta, að núverandi stjórnarsamstarf geti því aðeins orðið dæmt nýtilegt af þjóðinni, að þessi ríkisstjórn geri meira en að samþ. pappírslög. Það væri t. d. ákaflega létt að samþ. það á Alþ., að allir skyldu hafa 30 þús. kr. árstekjur. En það verður fyrst dæmt um það, sem gert hefur verið eða samþ. á þessu þingi, þegar stjórnin er búin að samþ. fjárl. næst og séð er, hvort þjóðin getur staðið undir því, sem stjórnarflokkarnir hafa samþ. á þessu þingi, og þegar stjórnin er búin að koma fjármálakerfi þjóðarinnar í lag eftir þá röskun, sem hún hefur valdið á því, og koma því í réttar skorður, eftir að hafa fært það stanzlaust úr skorðum síðan árið 1942. En það eru nokkurn veginn sömu flokkar, sem hafa ráðið síðan.

Hv. þm. Barð. var að minnast á okkar ferðalag og skýra frá einkasamtölum, sem þó höfðu ruglazt mjög í heilanum á honum á þessari löngu leið að vestan, og ég get, því miður, ekki kannast við að muna eftir. En fyrst hann minntist á það, þá finnst mér rétt að segja frá því, og hv. 3. landsk. má vel heyra það, að hv. þm. Barð. taldi það réttlætingu á því að vinna með kommúnistaflokknum og Alþfl., og þá eina réttlætingu, sem mundi sýna sig að vera rétt í framkvæmd, að þegar að því kæmi að allt stöðvaðist og að ríkið yrði að borga með allri framleiðslunni í landinu, en gæti ekki gert það raunverulega, — þegar að þessu kæmi, mundu alþýðuflokkarnir færa verðlagskerfið niður og færa allt í lag. Þetta hefur verið endurtekið aftur síðan. Og það er gott, að hv. 3. landsk. þm. og Alþfl. ásamt kommúnistum muni það, að á næsta hausti muni þeir eiga geysiannríkt við að koma þessu í lag. Og það er fjarri því, að ég sé á nokkurn hátt að sækjast eftir þeim hlutum að þurfa að glíma við afleiðingar samþykkta þessarar hæstv. ríkisstj., sem nú er. Og ég álít, að reynslan á þessari stjórn sé ekki komin fyrr en séð er, hvernig þessi verk verða unnin. Það verður ekki hægt að dæma um þessa ríkisstj. eftir pappírslögum einum, sem samþ. eru, heldur eftir því, hvort allt, sem samþ. er, er framkvæmanlegt. Og það er það, sem hv. stjórnarflokkar eiga eftir að sýna.

Ég þarf ekki að svara hv. þm. Barð. nema fáum orðum. Það eru víst aðaleftirhreyturnar, eftir því, sem mér skilst, af orðaskaki því, sem átt hefur sér stað hér í hv. d. um þetta mál. –En ég skil ekki, hvernig rúmazt getur í sama heila það tvennt, sem haldið er hér fram, annars vegar, að það eigi sér stað stöðug öfundsýki hjá Framsfl. út af því að vera ekki í ríkisstj., og hins vegar; að sá flokkur hafi farið úr ríkisstj. árið 1942, án þess að vera knúinn til þess. Framsfl. hefur neitað að vera í ríkisstj. með kommúnistum. Og fyrir það, fyrir að Framsfl. á að hafa svikizt undan því — eftir því sem sjálfstæðismenn orða það — að fara í ríkisstjórn með kommúnistum, nema með því að fá tryggingu fyrir því, að atvinnulífið væri tryggt, — fyrir þetta er Framsfl. óalandi og óferjandi í landinu.

Annars finnst mér, að þessar umr. hafi verið færðar niður á götustrákaplan, líkt og ef einhver strákur á götunni nær í eitthvað, þá kalli hinir til hans: Skammastu þín! Þú ert öfundsjúkur! — Mér virðist slíkur blær yfir umr. á hæstv. Alþ. gersamlega óviðurkvæmilegur. Svo ætla ég bara að vekja athygli á því, hversu þetta er skynsamlegt út af fyrir sig, að tala um, að Framsfl. sé öfundsjúkur af því að fá ekki að vera í ríkisstjórn. Það væri þó undarlegt, að einhver öfundsýkiblær væri á mönnum yfir því að fá ekki að vera í ríkisstjórn nú, eins og búið er að fara með hlutina!

Ég ætla svo aðeins að minnast á Búnaðarfélag Íslands, því að um það komu fram atriði, sem ég þarf nauðsynlega að leiðrétta. Ég hef að vísu bent á það með örfáum orðum, en ég get endurtekið það, að þetta tvennt, stéttarsamtök bænda og Búnaðarfélag Íslands, er ekki ætlazt til, að verði nátengt hvað öðru, eftir að stéttarsamtök bænda eru komin á laggirnar. Það hefur aldrei verið ætlazt til annars en að Búnaðarfélag Íslands setti aðeins reglur um það, hvaða mál heyri undir stéttarsamtökin og hvaða mál undir Búnaðarfélagið. Og það var ákveðin þannig þessi skipting, að Búnaðarfélagið hefði með að gera þau faglegu mál, en stéttarsamtökin hin stéttarlegu. Og þegar Búnaðarfélagið hefur gengið frá þessu, þá er þetta hvað öðru algerlega óháð. Og þetta er gert þannig vegna þess, að þar sem Búnaðarfélag Íslands er, þar er um miklu eldri samtök að ræða en flest önnur samtök í þessu landi og þroskaðri. Þau eru búin að sjá, hvernig fór fyrir Fiskifélaginu og tvenns konar samtökum öðrum, sem útvegsmenn hafa stofnað, þar sem orðið hafa árekstrar í þessum efnum, þó að í seinni tíð hafi verið reynt að leiðrétta það. Og þessi félagsskapur útvegsmanna hefur orðið tiltölulega áhrifalitill fyrir þessa sök, þó að áhrif hans séu að vaxa. En á sínum tíma hefur hvort tveggja þessi félagsskapur útvegsmanna verið máttvana. Þess vegna var það, að Búnaðarfélag Íslands ákvað að setja um þetta öruggar reglur, þannig að ekki skyldi heyra undir Búnaðarfélagið nema það faglega og framkvæmd á þeim verkefnum, sem ríkið felur því að gera. Ég hef gaumgæfilega athugað þetta og fullyrði, að það, sem ég segi um það, er á rökum byggt. Og það er ekki undarlegt, þó að Búnaðarfélag Íslands óski eftir því sem gamalt félag til styrktar bændastétt landsins að setja þessar reglur. Því að annars gæti svo farið, að samkeppni og ýtingur yrði á milli þessara tveggja félagasamtaka, ef mörkin á milli verksviða þeirra væru ekki sett greinileg. Það gæti valdið því, að fyrir samtökum bænda færi eins og fyrir Fiskifélaginu og þeim bræðrafélögum, sem áttu að starfa því við hlið, að ýtingur varð þar á milli, þó að hann sé að hverfa nú, eftir alllanga mæðu.

Um laun hjá Búnaðarfélaginu fyrir það að framkvæma ýmislegt fyrir ríkið sé ég ekki ástæðu til að rökræða, né heldur, að einstakir menn, sem starfa hjá félaginu, séu í öðrum störfum. En það get ég upplýst, að Steingrímur Steinþórsson er eini maðurinn í nýbyggingarráði, sem hefur neitað því að taka þar nema hálf laun. Hann tekur hálf laun á öðrum hvorum staðnum, annaðhvort í Búnaðarfélaginu eða nýbyggingarráði. Og er það samkv. ákvæðum launal. Hitt er rétt, sem komið hefur fram hjá hv. þm. Barð., að þetta er of mikið starf fyrir búnaðarmálastjórann. Hins vegar var talið nauðsynlegt að verða við þeirri ósk hæstv. landbrh., sem taldi það eðlilegt og óskaði eftir því, að hann væri einnig í nýbyggingarráði, til þess að geta fylgzt þar með þeim málum, sem snertu landbúnaðinn. Það er beinlínis eftir ósk hæstv. landbrh., að Steingrímur Steinþórsson er í nýbyggingarráði. Og mér finnst það ekkert óeðlilegt. En Framsfl. hefur engin afskipti haft af því, hvort Steingr. Steinþórsson á sæti í nýbyggingarráði eða ekki. Hann er þar því ekki heldur fulltrúi flokks, heldur sem búnaðarmálastjóri, sem hæstv. landbrh. taldi hagkvæmt, að. starfaði í nýbyggingarráði. Enda sjást nokkur merki þess í frv., sem komið hafa frá því ráði, að Steingrímur hefur átt sæti þar, sem ég hygg, að ekki hefðu fram komið, ef hann hefði ekki átt þar sæti.

Um framboð í Skagafirði sé ég ekki ástæðu til að fara að ræða. Og hvað kjósendur gera þar, er mér óviðkomandi, og veit ég ekkert um það. Það er atriði, sem ég að sjálfsögðu ræði ekki í sambandi við þetta mál.

Ég held svo, að það hafi ekki verið fleira, sem ég sé ástæðu til að taka fram. — En náttúrlega er það ákaflega langt seilzt til raka að fara að blanda því í þetta mál, er hv. þm. Barð. telur, að bændur séu ólíkt betur settir í sambandi við ákvörðun verðlags á sínum afurðum en húseigendur í sambandi við sín mál, þar sem hinir síðar töldu hefðu engan fulltrúa í þeirri n., sem ákveður húsaleiguna. Það er vitanlega ákaflega mikil óánægja meðal þeirra húseigenda út af húsaleigulögunum, sem verða fyrir barðinu á þeim, út af því, hvernig með þá er farið eina allra manna. Og óánægjan hjá þeim er svo rík, að það er ekki á það bætandi. En þó er í þessu sambandi vert að minnast þess, að húseigendur eru stétt, sem á þessu sviði hefur fyrst og fremst tekjur af eignum, stétt, sem ég álít; að sé þó farið alveg sérstaklega illa og ranglega með, en stétt, sem alls staðar, undir þeim kringumstæðum, sem styrjaldir skapa, verður að þola kvaðir húsaleigulaga. Því að það eru húsaleigulög í flestum löndum nú. — En ég vil biðja hv. þm. Barð. að benda mér á það land, ef hann getur, annað en Ísland, þar sem bændum er skammtað kaup af mönnum, sem hlutaðeigandi landbrh. skipar til þess að skammta þeim kaup. Og ég vildi gjarnan, að blað hans og blað hv. 3. landsk. þm. upplýstu það, í hvaða landi í veröldinni, öðru en Íslandi, hafi verið sett þvingunarlög hliðstæð þessum l. viðkomandi bændastéttinni. — Hitt er vitað, að l. eins og gerðardómsl., sem sett voru 1942, voru einhver hin beztu l., sem sett hafa verið í þessu landi. Og þó að núverandi hæstv. forsrh. hætti til að taka stundum nokkuð djúpt í árinni, þá álít ég það rétt hjá honum, að þau l. hafi verið einhver beztu og þýðingarmestu l., sem sett hafi verið í þessu landi. Og líklega hefur aldrei í seinni tíð hent þjóðina meiri ógæfa en að geta ekki sameinazt um slík lög og að halda þau. Slík lög hafa verið sett í mörgum löndum. — En hvar geta hv. þm. bent á land, þar sem sett hafi verið lög til þess að skammta einni einstakri stétt í landinu kaup? Ég hygg, að löggjöf af þeirri tegund sé hvergi til nema hér. En lög, þar sem öllu verðlagi er haldið niðri, eru algeng í löndum, meira að segja þar, sem frjálslyndir menn stjórna, svo sem jafnaðarmenn. En þessi lög hafa verið hér, með illu eða góðu, brotin á bak aftur. Það er vitað.

Og ég hygg, að jafnvel þó að Alþfl. sé nú eins og lýst var áðan — í lausamennsku og kommúnistafl. líka hjá Sjálfstfl. við að stjórna landinu og lagfæra það í fjármálum þjóðarinnar, sem þarf á næsta vetri að lagfæra, þá getur farið svo, að jafnvel þó að bændur sýni alla sanngirni — og einmitt vegna þess, að þeir sýna alla sanngirni — þá verði ekki auðvelt. að stjórna landinu án þess að hafa bændur með í ráðum.