13.03.1946
Efri deild: 83. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Frsm. 2. minni hl. (Páll Hermannsson) :

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls lét ég falla ummæli, ásamt fleiri hv. þm., um það, að mál þetta væri mikið rætt og sennilegt væri, að langar umr. um það framvegis mundu litlu breyta. Ég er nú eiginlega þessarar skoðunar enn. Það er búið að ræða þetta mál mikið, óvanalega mikið, og ég hugsa, að langar umr. þoki litlu til um það, sem við kemur framgangi málsins. Nú var þetta mál rætt svo að segja allan þingfundartímann í gærdag, og lítur út fyrir, að það muni geta vel tekið einnig allan þingfundinn í dag. Ég skal því ekki lengja mjög þessar umr., sem mér finnst snúast um býsna margt, sem að vísu sumt snertir þetta mál, en sumt kemur kannske því ekki beinlínis við.

En það voru þó tvö atriði, sem mig langar til að víkja að nánar, sem hefur borið hér á góma og má segja, að komi þessu máli nokkuð við. Hv. 3. landsk. sagði það í þingræðu hér í gær, í fyrri hl. umr., að það væri hraustlega mælt hjá mér, er ég lýsti því yfir, að ég gerði mér nokkrar vonir um það, að álíka mikið mundi seljast af kjöti innanlands, þó að verðið væri ekki greitt niður úr ríkissjóði, ef verðið hefði áhrif á það að ákveða verðvísitöluna og þá þar af leiðandi á það, að allir, sem taka laun hjá öðrum, fengju laun sín hækkuð í hlutfalli.við þessa hækkun á framleiðsluvörum bænda. Ég get ekki fullyrt þetta, en mér finnst það samt, að ekki liggi fyrir vissa um það, að salan yrði miklu minni. Það liggur heldur engin vissa fyrir um það, að kjötið seldist allt — eins og mér heyrðist á hv. þm. — innanlands með því fyrirkomulagi, sem haft er. Og ég get náttúrlega því síður fullyrt, að það hefði selzt allt, ef verðið hefði ekki verið greitt niður úr ríkissjóði. En mér finnst nokkrar líkur vera til þess, að það þefði átt að seljast. Og því held ég fram, að ríkissjóður greiði ekki niður verð á landbúnaðarvörum vegna bændanna sérstaklega, heldur vegna þjóðarinnar í heild. Ríkissjóður greiðir verðið niður t. d. vegna þess, að hátt verð á þessum vörum mundi hafa beinan útgjaldaauka í för með sér fyrir ríkissjóð. Ég veit ekki, hvort það yrði hærri upphæð en niðurgreiðslurnar, sem ríkissjóður mundi þurfa að greiða, ef þær væru ekki, í hækkuðum launum til embættis- og starfsmanna ríkisins. En hún yrði há. En alveg sérstaklega greiðir ríkissjóður niður verðið á þessum vörum vegna þess, að ef verðið á þeim væri hátt, eins og það raunverulega er, en ekkert greitt niður, þá hefði það í för með sér hækkun, sem stöðvaði margar af framleiðslugreinum þjóðarinnar. Og mér finnst algerlega rangt að kalla þessar niðurgreiðslur styrk til bænda eða neytendastyrk. Þetta finnst mér hvort tveggja rangt. Mér finnst þetta verá útgjöld, sem þjóðfélagið í heild leggi á sig vegna sjálfs sín.

Hv. 3. landsk. þm. tók það fram sem sína skoðun, að fyrsta frumorsök verðbólgunnar, hefði verið sú, að snemma á stríðstímanum, sennilega seint á árinu 1939 — ég man það ekki fyrir víst, en held, að það hafi verið þá, — hafi verið rofið samræmið, sem hafði verið áður á milli verðlags á framleiðsluvörum annars vegar og kaupgjalds hins vegar.

Hv. 3. landsk. benti á það sem sína skoðun, að fyrsta frumorsök verðbólgunnar hefði verið sú, að snemma á stríðsárunum hefði verið rofið samræmið, sem áður hafði verið milli verðlags á framleiðsluvörum og kaupgjalds. Hann taldi sem næst sanni, að verð á framleiðsluvörum hefði þá farið 30 stigum fram úr kaupgjaldinu. Það kom hér fram í umr. í gær, að laun til farmanna hafi t. d. hækkað mjög, og minnir mig, að þessi hækkun hafi numið allt að 300% sums staðar. Þetta hlaut að draga dilk á eftir sér, og fannst mér þetta á sínum tíma of hátt, þótt ég viðurkenndi, að þeir, sem hættu lífi sínu í þágu þjóðarinnar, ættu allt gott skilið, og hefði mér þótt heppilegra að leggja meiri áherzlu á að tryggja þessa menn betur fyrir slysum og skyldulið þeirra, ef um dauðsföll hefði orðið að ræða. — Þegar verið er að ræða um, að slitið hafi verið samræmið milli vöruverðs og vinnulauna, þá finnst mér það dæmi alltaf hafa verið reiknað skakkt. Hv. þm. Str. fór inn á þetta atriði, svo að ég skal ekki fjölyrða mikið um það. Mér finnst réttara að miða þar við, hvað hvor um sig, framleiðandinn og verkamaðurinn, fær fyrir vinnu sína um árið og hvað hann þarf til þess að framfleyta fjölskyldu sinni, en mér finnst alltaf, að mest áherzla hafi verið lögð á að miða við kaup fyrir vinnustundir og hvað greitt er fyrir þunga í vöru, og held ég, að útkoman úr dæminu yrði þá allt önnur. Hitt mætti og minnast á, að einhvern tíma stóð svo á hjá okkur, að hv. þm. hér yfirleitt vildu hlynna sérstaklega að matvælaframleiðslunni til sveita, og var það svo á nokkrum tímabilum, að þingheimur leit svo á, að sú framleiðsla í sveitunum væri kannske þýðingarmesti liðurinn í atvinnulífi okkar. Var það þá nokkuð undarlegt, þótt menn álitu, að kjör manna í sveitunum ættu ekki að vera verri en kaupstaðarbúa, þegar á það er litið, að menn streymdu úr sveitunum í augnabliksvinnuna í kaupstöðunum, sem bundin var við komu herjanna til landsins og menn sjá nú, að var aðeins augnabliksvinna?

Annað atriði, sem ég vildi minnast á, er varðandi gerðardómsl. Ég býst við, að menn sjái það nú, að á þeim l. voru gallar, sem hefði þurft að lagfæra og hefði verið hægt að lagfæra. Það var viðurkennt, að það átti að fylgja öllum þeim ráðstöfunum, sem gerðardómsl. gerðu ráð fyrir, og ég lít svo á, að verkamenn og þjóðin yfirleitt væri nú betur sett og sérstaklega í framtíðinni, ef þau l. hefðu getað notið sín með sanngjörnum lagfæringum, eftir því sem reynslan og frekari umhugsun leiddi í ljós. Það stappar nærri því, að mér finnist það mesta yfirsjónin, sem ég hef komið auga á í fari hv. 3. landsk. og annarra þeirra manna, sem vilja þjóðinni vel og sérstaklega verkalýðnum, að þeir skyldu ekki á sínum tíma telja fólkinu trú um, að þetta væri sú leið, sem fara ætti, í stað þess að telja því trú um, að þetta væru þrælalög. Ég álít, að þeir hefðu gert fólkinu meiri greiða með því og að við værum hér betur settir en við nú erum og verðum. Um það leyti, sem verið var að setja gerðardómsl., var almenn velmegun meðal fólks, og það sem átti að gera, var að láta það ástand haldast og safna í sjóði sem mestum gróða.

Það, sem sérstaklega olli því, að ég kvaddi mér hljóðs, var það, að hv. þm. Barð. (GJ) taldi, að ég hefði ekki haft rétt eftir sér ummæli, sem hann lét hér falla við 2. umr. þessa máls. Ég hef nú litið yfir handrit ræðuskrifaranna og sá, að þetta er ekki orðað alveg eins í báðum ræðunum. Fer því fjarri, að ég ætli að fara að ámæla ræðuskrifurum fyrir það, að þeir nái ekki ræðum þm.; ég álít, að þeir nái þeim oft, en ekki heldur alltaf, en ég get upplýst hv. þm, um það, að ég hafði ummæli hans hér rétt eftir honum, og stóð ég miklu betur að vígi en ræðuskrifarar, af því að ég skrifaði niður hjá mér aðeins þessa einu setningu, og mér var því vorkunnarlaust að ná henni réttri. Hitt er svo annað mál, að mér þótti vænt um, að ræðuskrifarar náðu henni ekki alveg réttri, vegna þess að ég viðurkenni, að það var mikil ónærgætni af mér að vera að skjalfesta ummæli hans í minni ræðu, og skal ég ekki gera honum þau eins óþægileg og þau voru og víkja því við orðum í ræðu minni til samræmis við hv. þm. án þess þó að efnið brjálist. Þau voru óþægileg fyrir hv. þm., af því að þau voru vondur vitnisburður um mann, sem hv. þm. á oftast samleið með í stórmálum, svo sem setningu launalaga og afgreiðslu fjárlaga. Skal ég svo láta útrætt um þetta atriði af minni hálfu og þykir vænt um, að ræðuskrifarar hafa hlaupið undir bagga með hv. þm. í þessu tilfelli.