13.03.1946
Efri deild: 83. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að lengja ekki þessar umr., en finnst, að ég geti ekki látið hjá líða að svara nokkru því, sem fram hefur komið hjá andmælendum frv.

Hv. þm. Framsfl. telja, að bændastétt landsins sé beitt miklu misrétti með því, sem felst í frv. þessu, en það hefur verið sýnt fram á, og enda ómótmælanlegt, að í þessum efnum er breyt. í raun og veru engin frá því, sem nú er samkv. gildandi verðlagsl. Hirði ég ekki um að fara út í frekara orðakast út af jafneinföldu atriði, því að áður hefur verið sýnt fram á, að munurinn er svo sem enginn frá gildandi 1. og í hverju hann felst.

Hv. þm. Str. hélt því fram, að með þessu frv. væru bændur einir látnir sæta annarri meðferð en aðrar stéttir um ákvörðun á afurðaverði Þeirra, en þetta er auðvitað fjarstæða, þar eð t. d. útgerðarmenn og fiskimenn verða einnig að sætta sig við, að ákvörðun er tekin um verð á afurðum þeirra af sömu ástæðum og gildir um afurðaverð til bænda. Hv. þm. vildi halda því fram, að af þessu leiddi, að á sama hátt ætti ríkisvaldið að lögbinda kaup til hinna ýmsu stétta, en gengur fram hjá því, að þar eru 2 aðilar, sem semja eftir settum reglum. Í Bandaríkjunum eru enn í gildi ákvæði um hámarksverð afurða, og hygg ég, að úrslitavaldið í þeim efnum sé í höndum forseta, og er þetta að ég bezt veit með sams konar hætti í Bretlandi, hvað snertir íhlutun hins opinbera.

Allur málflutningur hv. þm. Str. í þessu máli er tákn þeirrar lausamennsku, sem hann og flokkur hans rekur og er málflutningur hans nú allur annar en þegar hann var sjálfur í ríkisstj., er þetta svo áberandi að lítt er honum sæmandi. Hv. þm. sagði t. d., að Framsfl. hefði ekki viljað taka þátt í myndun þeirrar ríkisstj., sem nú situr að völdum, án þess að atvinnulíf landsmanna hefði verið tryggt fyrirfram. Mér er satt að segja óskiljanlegt, hvernig maður, sem gegnir áberandi stöðum, getur látið annað eins út úr sér, því að allir eru sjálfsagt sammála um það, að yfirleitt er ekki hægt að tala um tryggingu í þessum efnum fyrir atvinnulífi landsmanna, þar sem okkar þjóð á tiltölulega svo mikið undir viðskiptum við aðrar þjóðir komið, sem miklum úrslitum ræður í þessum efnum, og hefur slík trygging mér vitanlega aldrei verið fyrir hendi þau 20 ár, sem ég hef setið á þ. hins vegar er þetta hlutverk þeirrar ríkisstj., sem með völdin fer á hverjum tíma, að ráða fram úr þessum vandamálum á þann bezta veg, sem unnt er.

Þá vildi ég minnast nokkrum orðum á þau ummæli hv. þm. Str., að Framsfl. hefði aldrei átt nokkurn þátt í að efla dýrtíðina í landinu. Staðreyndirnar tala hins vegar öðru máli. Ég minnti á það áður, og hefur ekki verið mótmælt, að með hækkun á flutningsgjöldum var fyrstu skriðunni hleypt af stað í hækkun dýrtíðarinnar, og þegar kaupið hækkaði ekki nema um 20–30%, hækkuðu landbúnaðarafurðir um 70%, fyrir það að ráðh. notaði aðstöðu sína, sem hann þá hafði til að ráða oddamanninn í n. þá, sem með verðlagsmál fór á þeim tíma, og hafði þannig vald til að ráða þessum málum. Þetta hlaut að kalla á aðgerðir annars staðar frá, og þetta er sú mikla pólitíska ábyrgð, sem ómögulegt er að létta af hv. þm. Str., sem þá var forsrh. — Þá vil ég minnast nokkrum orðum á það, að árið 1940, þegar verð á fiski okkar hækkaði í Englandi, bar Alþfl. fram till. um að leggja sérstakan skatt á þann fisk, sem seldist til Englands, til þess að halda niðri verðlagi landbúnaðarafurða og lækka flutningsgjöld. Framsfl. lagðist á móti þessu og raunar Sjálfstfl. líka. Kallaði Framsfl. þetta móðgun við bændur og að slíkt væri ölmusa til þeirra. Á vetrarþinginu 1941 varð samkomulag um dýrtíðina, sem að ýmsu leyti varð til bóta. Þá var ríkisstj. gefið vald til þess að halda niðri verði landbúnaðarafurða og taka sérstakan skatt til þess að halda niðri flutningsgjöldum. Það sýndi sig, þegar kom fram á sumarið, að ekki varð samkomulag una þessi l., og óskaði Alþfl. þá eftir því að kalla þ. saman um sumarið. Fyrir haust 1941 hækkar svo verðlagsnefnd stórkostlega verð á íslenzkum afurðum. Og síðan fer Framsókn fram á, að bundið verði hvort tveggja, kaupgjald og afurðaverð, án þess hins vegar, að kaupgjald verði hækkað. En þetta náði ekki fram að ganga. Rétt fyrir jólin, en þá var hv. þm. Str. forsrh., er mjólkin allverulega hækkuð með atkv. oddamanns, skipaðs af ráðh. Svo koma gerðardómslögin til sögunnar og binda þar með allt fast, en þá var þegar áður búið að hækka landbúnaðarafurðir tvívegis. Undirbúningurinn að því, er þessi l. varðar, var slæmur. En á hinn bóginn ætlar þessi hv. þm. að halda því fram, að l. hafi raunverulega borgað sig, þótt þau hafi svo verið undirbúin, að þau hlytu að verða dauðadæmd. (HermJ: Verkalýðurinn mætti þakka fyrir, ef hann hefði gerðardómslögin núna.) Hv. þm. o. fl. vita það ósköp vel, að l. voru dauðadæmd. En þessi hv. þm. hélt, að hann væri sá sterki maður, sem gæti gert hlutina. Síðan látast framsóknarmenn hafa ákaft verið á móti þessu, þ. e. að setja l. — Ég hef talið nauðsynlegt að segja þessa sögu, rekja hana, þótt e. t. v. hv. þm. finnist hún leiðinleg, enda er hún ljót. Það er nú nokkuð liðið á tímann. — Ég játa, að þetta fyrirkomulag getur ekki verið til frambúðar. Tel ég rétt að samþ. þetta lagafrv. þó, en með þeim breyt., er á því eru gerðar. Á yfirborðinu er nokkuð gengið til móts við Framsfl. með því, að neytendastyrkur er veittur. — Miðað við 4000 tonna sölu þarf að greiða um 3 millj. kr. En ég tel þetta feluleik með orðin, enda er svo að sumu leyti. Smásöluálagningin verður því meiri sem útsöluverð hækkar. Það er mjög liðið af árinu, og rétt er að líta á þetta sem til bráðabirgða sé. — Ég læt þetta svo nægja að sinni.