27.02.1946
Sameinað þing: 29. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í D-deild Alþingistíðinda. (5252)

173. mál, rafveita Norðurlands

Flm. (Skúli Guðmundsson) :

Það eru nokkur orð út af því, sem fram hefur komið í ræðum manna.

Hv. 4. landsk. gat þess, að flm. þessarar till. mundu ætlast til þess, að virkjun Laxár yrði framkvæmd af ríkinu, og það er alveg rétt hjá honum. Hitt, sem hann er að geta sér til, að flm. mundu gera ráð fyrir að taka af Akureyrarbæ þá rafstöð við Laxá, sem hann nú á, það hefur aftur á móti ekki við neitt að styðjast, er mér óhætt að fullyrða, enda vil ég benda á, að ef það frv. til raforkul., sem nú liggur fyrir þinginu, verður samþ., sem við gerum ráð fyrir, að verði, þá hefur Akureyrarbær samkv. því ótvíræða heimild til þess að reka sína rafstöð áfram. Ég sé því ekki, að nein þörf sé á því að taka neitt fram í þessari ályktun, að Akureyrarbær eigi að hafa leyfi til að reka stöðina áfram, því að það verður væntanlega komið í l. áður en þessu þingi lýkur. Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að það sé engin fyrirætlun hjá flm. um það að taka þessa stöð af Akureyrarbæ eða á nokkurn hátt að hindra það, að Akureyri geti fengið raforku áfram frá Laxá og þá vitanlega aukið afl þaðan, eftir því sem þörf krefur. Það er sem sagt engum leiðum lokað fyrir Akureyrarbæ, þó að þessi þáltill. okkar verði samþ.

Ég tel, að hér geti verið um fleiri en eina leið að ræða, þegar til framkvæmdanna kemur. Það getur vitanlega verið um þá leið að ræða, sem hv. 4. landsk. gat um, að Akureyrarbær auki við sína stöð til að fullnægja sinni rafmagnsþörf, og það getur líka verið um þá leið að ræða, að viðbótarvirkjanir við Laxá verði framkvæmdar í félagi af Akureyrarbæ og ríkinu, ef það þætti henta. En hvaða leið verður farin í þessu efni, það er alveg óákveðið og hægt að fara hvaða leið sem er í því, þótt okkar till. verði samþ. hér á þingi, hún er bara um undirbúning framkvæmdanna.

Ég álít það vera frekar til stuðnings Akureyri en til tafar málum þessa kaupstaðar í þessu efni, að þessari fullnaðaráætlun um virkjun Laxár verði lokið svo fljótt sem verða má. Það mundi þá verða verkefni næsta Alþ., ef þessi till. yrði framkvæmd, að ákveða um það, hvernig framkvæmdum yrði hagað að þessu leyti.

Mér finnst vitanlega rétt, að þessar framkomnu till., bæði frá hv. 4. landsk. og öðrum, fái athugun jafnframt aðaltill. í fjvn. En ég vil aðeins beina því til hæstv. forseta, að ég teldi, að eðlilegra og heppilegra væri, að sú athugun færi fram áður en brtt. koma til nokkurrar meðferðar eða afgreiðsla fer fram um þær sjálfar.