27.02.1946
Sameinað þing: 29. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í D-deild Alþingistíðinda. (5272)

182. mál, virkjun Sogsins o.fl.

Flm. (Jörundur Brynjólfsson) :

Það skulu verða aðeins örfá orð. — Við höfum nokkrir þm. leyft okkur að flytja þessa till., sem er um það að hraða undirbúningi að virkjun Sogsins og frekari rannsókn, sem komið hefur til orða að gera á Suðurlandsundirlendinu. Hvað áhrærir það fyrirkomulag, sem verða kann, svo sem hvaða aðili kann að annast þessar framkvæmdir, er alveg látið standa opið eftir þessari till., aðeins er þess óskað af stjórnarvaldanna hálfu, að þau flýti og greiði fyrir þeim undirbúningi og rannsókn og framkvæmdum, sem hér að lúta, og jafnframt því geri ráðstafanir til að afla efnis bæði hvað áhrærir virkjanirnar og enn fremur efni í línur og spennistöðvar á þessu svæði ásamt nákvæmum rannsóknum um dreifingu orkunnar. Það er eðlilegt, að fólkið þrái að fá raforkuna til sinna nota, og okkur er það ljóst, að það er mikil nauðsyn að greiða fyrir því að koma raforkunni til almennings eftir því, sem fljótast er hægt, og fyrir þá sök er ályktunin flutt.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta. Það er að öllum hætti eðlilegt, að þetta mál fari til n., og ég vil óska, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til síðari umr. og fjvn.