02.03.1946
Sameinað þing: 30. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í D-deild Alþingistíðinda. (5277)

185. mál, útsvör

Flm. (Steingrímur Aðalsteinsson) :

Herra forseti. Flm. þáltill. þeirrar, sem hér liggur fyrir, eiga allir sæti í allshn. Ed., og ástæðan til þess, að þeir hafa leyft sér að flytja hana, er sú, að á þessu þingi og einnig því síðasta hefur legið fyrir Ed. frv. til l. um breyt. á l. um útsvör. Fjallar þetta frv. um það að setja ný ákvæði um, hvar greiða skuli útsvör af atvinnurekstri, sem í ýmsum tilfellum hefur getað orðið nokkur ágreiningur um samkv. þeim ákvæðum, sem nú eru um þetta í útsvarslögunum.

Allshn. Ed. hefur ekki talið sér fært að taka efnislega afstöðu til þessa máls, telur, að á því sé nokkur vandi og að athugun þurfi að gera um það, hvernig þeim ákvæðum verði haganlegast fyrir komið. Var málið því afgr. á síðasta þ. með dagskrá, þar sem vísað var til þess, að almenn endurskoðun á útsvarsl. mundi fara fram og að n. hefði fengið upplýsingar um það, að sú endurskoðun mundi standa fyrir dyrum. Nú hefur farið svo, að allshn. Ed. hefur ekki viljað taka efnislega afstöðu til þess frv., sem nú er flutt á ný um þetta efni, og hefur fengið upplýsingar um, að sú endurskoðun, sem hún bjóst við, að fara mundi fram á útsvarsl., mundi ekki fara fram á það víðum grundvelli, að hún tæki til þeirra ákvæða, sem hér ræðir um, nema Alþ. samþ. að heimila greiðslu á þeim kostnaði, sem störf þeirrar n., sem fjallaði um endurskoðun útsvarsl., mundi hafa í för með sér. Það varð því samkomulag um það í allshn. hv. Ed. að flytja þessa þáltill., sem hér liggur nú fyrir, þar sem farið er fram á, að Alþ. kjósi með hlutfallskosningu 5 manna mþn. til þess að framkvæma almenna endurskoðun á útsvarsl., svo og það, að þessi endurskoðun skuli framkvæmd það snemma, að unnt verði að leggja till. fyrir næsta reglulegt Alþ., þannig að þá verði hægt að flytja frv. um breyt. á útsvarsl., sem byggt verði á þessari endurskoðun. Enn fremur fer þessi þáltill. fram á, að kostnaður við störf n. skuli greiðast úr ríkissjóði.

Við flm. viljum vænta þess, að með þessum ráðstöfunum verði framkvæmd sú endurskoðun, sem hér er um að ræða, er við allir gerum ráð fyrir, að geti legið fyrir næsta Alþ., teljum heppilegra, að þessi háttur sé hafður á en að hæstv. Alþ. fari nú að gera samþykkt um þetta eina ákvæði útsvarsl., og það því fremur, sem við teljum, að á því sé nokkur vandi og því heppilegra, að það fái nánari athugun og betri undirbúning en hægt er að framkvæma af þm.

Sé ég svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta frekar, en vil fyrir hönd annarra flm. vonast til þess, að þessi þáltill. verði samþ., og legg til, að henni verði að lokinni þessari umr. visað til athugunar hv. allshn. Sþ.