27.04.1946
Sameinað þing: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í D-deild Alþingistíðinda. (5332)

208. mál, björgunarskúta Vestfjarða

Gísli Jónsson:

Það hefur nú skeð tvisvar sama daginn, að Sósfl. misnotar vald sitt í forsetastól. Fyrst skeði það í Ed. í dag og svo nú hér. Ég sé þá ekki annað ráð en að halda áfram umr. um málið. Það hefur verið rætt um málið í hv. fjvn., eins og tekið hefur verið fram af hv. frsm. Ég gat þar ekki átt samleið með hinum nm. og var á móti till., af því að ég vildi gera víðtæka tilraun til samkomulags og koma með till., sem gæti fullnægt málinu fyrir fullt og allt. Fyrsti flm. hefur ekki viljað fylgja till. þannig og sækir af ofurkappi að fá málið tekið út. Hann veit, að ef till. okkar hv. þm. Borgf. verður samþ., þá er ekki aðeins fullnægt þessu, heldur einnig miklu betur strandferðamálum landsins. En hann vildi fórna því, hafandi kosningar undir og ofan á. Ég vil benda á í sambandi við þetta, að ef þessi till. verður samþ. og hæstv. ráðh. hugsar sér að framkvæma till. eins og hún er nú, þá leysist einn liður í strandferðamálum án þess að miðað sé við heildina, og það er óheppilegt og þannig á ekki að leysa málin. Þar er ekki neitt um 100 tonna bát fyrir Ísafjörð. Einnig upplýsti hv. 7. landsk., að hann teldi bátinn of stóran, hann teldi, að báturinn ætti ekki að vera nema 70 tonn, því að hann þurfi að hjálpa og fylgja flota út til fiskveiða. Hins vegar telja aðrir, að það þurfi stærri bát, því að hann þurfi að vera öðrum til aðstoðar alla tíma ársins. Meðan ekki er fullkomið samkomulag um þetta atriði, væri reynandi að taka málið út og reyna að leysa það sér. Það er þess utan búið að kaupa 3 báta til landsins, þar sem einn átti að fara til Ísafjarðar, og það er vitanlegt, að ef bátarnir hefðu verið hæfir til strandferða, þá hefðu Ísfirðingar tekið við bátnum og samningurinn þar með uppfylltur. — Ég tel, að meðferð málsins ætti að vera önnur en byrjað var á. Hv. flm. hugsar aðeins um að skreyta sig með þessu máli með því að eiga þátt í því. — En ég vil spyrja hæstv. dómsmrh. um það, hver beri ábyrgð á kaupum þessara skipa. Mér skilst, að skipin hafi verið keypt samkv. heimild frá þinginu á sínum tíma. Mér finnst þetta hafi verið falið manni, sem er forstjóri Skipaútgerðar ríkisins. En ég vildi spyrja, hver ber ábyrgð á þessum kaupum, ef um það er að ræða, að skila þurfi skipunum aftur, gera við þau eða láta þau liggja hér og fúna niður engum til gagns. Einnig vildi ég fá að heyra, hver er orðinn kostnaðurinn við þessi skip. Ég hef heyrt, að það kostaði 50–60 þús. kr. á mánuði að láta skipin liggja í höfninni. Ég vildi fá að heyra þetta allt í einu ásamt því, hvort hægt væri að skila skipunum og hvað fást mundi fyrir þau. Mér skilst á þeirri skoðun, sem hér liggur fyrir, að það sé ekki kaupanda að kenna, að skipin eru ekki notuð, og það sé að kenna því, að hér kunni menn ekki að fara með þau. Ég trúi því ekki, að íslenzkir sjómenn vilji láta slíkt á sér liggja, en þetta má skilja á þeim manni, sem skipin keypti. Og hv. þm. S.-Þ. hefur borið fram þáltill., þar sem skorað er á ríkisstj. að flytja inn erlenda sjómenn til þess að kenna Íslendingum á skipin. Ég gæti hugsað mér, að þegar búið væri að losa okkur við þessi skip og búið að kaupa í þeirra stað, þá mætti uppfylla samninginn við Ísafjörð með því að láta Sæbjörgu fara þangað. Ég tel ekki útilokað að fá hagkvæmara skip en Sæbjörgu fyrir Faxaflóann. Þess vegna finnst mér það rangt að beita sér fyrir því að verja 900 þús. kr. til að byggja skip, sem ekki getur verið tilbúið á þeim tíma. Það er vitanlegt, að ef lagt er út í slíkan kostnað sem smíði slíks skips, þá verður það skip ekki tilbúið fyrr en eftir 12–18 mánuði, og þá er verið að gera Vestfirðingum bjarnargreiða með því að gera þessar ráðstafanir með þessari þáltill., ef hæstv. ráðh. ætlar að framfylgja till. eins og hún er samin nú, ef hún verður samþ. Mér finnst rétt, að þessi till. verði tekin aftur, þar til séð er, hvernig fer með hinar till. Ef hin till. yrði felld, kemur til greina, hvort þingið vill láta leysa þennan hluta málsins sérstaklega. En það vil ég ekki. Ég vil vera með að leysa allt málið, á góðum grundvelli, en ekki taka út úr þetta í dag og annað á morgun. Ég vil benda ákveðið á, að við hv. þm. Borgf. höfum gert brtt., ekki við þetta ákvæði till. hér, heldur við málið í heild, þar sem við leggjum til, að málið sé fyrst rannsakað og síðan leyst sem heild. En þangað til búið er að finna réttu leiðina, séu þessir samningar við Vestfirði uppfylltir með leiguskipi, ef það verður ekki hægt á annan hátt, því að það þarf ekki að svíkja samningana við Vestfirði, þó að þessi till. sé ekki samþ. Það stendur hér í fskj., að þetta skuli leyst eftir ákveðnum fyrirmælum í samningnum, og því hamlar það ekki, að þar til búið sé að kaupa góð skip, megi leigja handa Vestfirðingum skip til gæzlu úti fyrir Vestfjörðum. — Á það hefur verið bent í fjvn., að Vestfirðir hafi lagt fram 200 þús. kr., og því sé Alþ. skyldugt að byggja handa þeim skip, sem kostar um 1 millj. Sannleikurinn er sá, að það væri miklu ódýrara að þiggja aldrei þessar 200 þús. kr. og taka málið upp á frjálsum grundvelli. Það gæti verið miklu betra fyrir ríkissjóð og landið í heild að þiggja ekki þessar 200 þús. kr., til þess að þurfa ekki að — henda út fé fyrir nýtt skip. Ég vil einnig benda á, að vafasamt er, hvort búast má við því hér, að þeir sömu menn fylgi fram miklum fjárfúlgum úr ríkissjóði til þess að leggja til björgunarstarfsemi og björgunarskipa á sama þingi, sem meiri hl. Alþ. hefur verið svo óvarkár að samþ. breyt. á l. til þess að kippa burt því öryggi, sem skapa átti. Á þessu þingi hefur verið breytt til hins verra l. um vélgæzlu, sem heimila mönnum að fara með á eigin ábyrgð mótorvélar, sem nema nærri 400 hestöflum, þó að þeir hafi aldrei þekkt annað til mótorfræði en að stýra trillum upp í 16 hestafla í 12 mánuði og verið 14 daga á námskeiði. Þegar þannig er farið að, er ekki að furða, þó að maður vilji stinga við fæti til þess að vita, hvort nokkur alvara ríkir í þessu máli hjá þeim mönnum, sem vilja stofna til slíkrar áhættu, og væri það mál út af fyrir sig til þess að ræða um meira en einn matmálstíma.

Ég tel, að það þurfi að taka öll þessi mál frá rótum, tel að hæstv. dómsmrh. þurfi að setja í þetta sérstaka n. til rannsóknar, til þess að rannsaka til fulls, hvort þau skip séu hæf, sem keypt voru inn, til þess að annast nokkuð af þessum störfum hér. Því að þrátt fyrir þær skýrslur, sem fram hafa komið frá þeim mönnum sem áttu að rannsaka þetta mál, er það ekki ljóst enn, því að það er ekki samkomulag með n. og þeim manni, sem á að bera ábyrgð á þessu, hvor,t ástæða sé til að stöðva skipin og selja þau. N. virðist ekki hafa gengið til botns í þessu máli, ekki gert það, sem fyrir hana var lagt, og forstjórinn, sem keypti þessi skip, heldur því enn fram, að engin ástæða sé til að breyta hér um. Þetta séu mjög góð skip, það hafi verið færðar sönnur á, að þeim hafi tekizt að taka hér togara í landhelgi, og svo muni enn verða. Þau séu mjög hentug til síldveiðigæzlu á sumrin. Ég held þess vegna, að það væri sjálfsagður hlutur, að dómsmrh. léti fara fram ýtarlegri rannsókn en gert hefur verið í þessu máli, og láta svo þetta atriði bíða, þar til er sú rannsókn hefur farið fram og séð er, hvort ekki muni hægt að fá, einmitt nú þegar, skútu eða skip í Englandi, annaðhvort keypt þar eða í skiptum, til þess að uppfylla þegar samninginn við Vestfirði, en láta þá ekki bíða eftir því kannske í 18 mánuði, eins og virðist vera heitasta ósk hv. þm. N.-Ísf. Og hann veit vel, að litlir möguleikar eru til þess að uppfylla samninginn, ef ekki verður farin sú leið, sem ég hef bent á. En hann virðist sækja málið svo fast, að hann vill heldur, að bætt sé úr því í 18 mánuði en að fara þá leið, sem honum hefur verið bent á. En ég vildi, að hann athugaði mál sitt og féllist á till. þeirra manna, sem hafa af góðum hug bent honum á þetta. (SB: Hvar svo sem kemur fram sá góði hugur hv. þm. Barð?). Hann kemur fram í hverju einasta máli. (SB: Hið sanna er, að hann kemur ekki fram í einu einasta máli). Hann kemur alltaf fram, og ég held enginn efist um þann góða hug. Og ég veit, ef hv. þm. N.-Ísf. vildi setja sig inn í þetta mál, að þá mundi hann komast að þeirri raun, að það yrði fyrir hann miklu verra kjaftshögg en hann fékk í bæjarstjórninni á Ísafirði að sjá, á hvaða braut hann er. En offorsið er svo mikið, að hann vill ekki gá að því, á hvaða leið hann er í málinu. Það er hið sorglega við þetta allt saman. — Ég legg því til, að þessari umr. málsins hér verði ekki lokið og till. ekki látin koma til atkv. fyrr en till. á þskj. 656 hefur fengið afgreiðslu, til þess að sjá, hvort ekki sé með henni hægt að leysa málið á þann hátt, sem bent hefur verið á af þeim, sem hlutlaust vilja ræða málið og hafa annað sjónarmið en í kringum pollinn á Ísafirði. (SB: Heyr á endemi). Ég vænti þess nú, að hv. þm. N.-Ísf. treysti sér til þess að taka þessum góðu ráðleggingum. Ég held það yrði betra fyrir sjálfan hann og málið í heild en að till. hans yrði samþ.