27.04.1946
Sameinað þing: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í D-deild Alþingistíðinda. (5333)

208. mál, björgunarskúta Vestfjarða

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Ég kemst ekki hjá því að svara hv. þm. Barð. og þá einkum því, hver beri ábyrgð á þeim skipakaupum, sem framkvæmd voru síðastliðið haust til landhelgisgæzlu.

Eins og ég hef áður skýrt frá og hygg, að komið hafi fram í fskj. með þáltill. á þskj. 656, fór forstjóri Skipaútgerðar ríkisins, Pálmi Loftsson, utan seint á síðastliðnu sumri í erindum Skipaútgerðarinnar til þess að athuga um kaup eða byggingu á strandferðaskipum. En jafnframt fól dómsmrn. honum með sérstöku bréfi að athuga möguleika á byggingu eða kaupum á skipum til strandvarna. Meðan hann var utan, sendi hann ríkisstj. símskeyti, þar sem hann sagðist hafa möguleika til þess að fá keypta 3 báta, sem hefðu verið í förum milli Svíþjóðar og Bretlands yfir Norðursjó á stríðsárunum yfir vetrartímann í versta veðri, fyrir mjög hentugt verð, og mælti eindregið með kaupunum. Ríkisstj. kom saman á fund, og varð hún öll sammála um það, ef möguleikar væru á því að ná slíkum kaupum, að þá væri ófært að láta það farast fyrir, þar sem henni hafði verið sagt, að skipshöfn á þessum bátum væri álíka mannmörg og á Óðni, og talið, að reksturinn yrði ekki öllu meiri en á Óðni. Eftir þeim upplýsingum, sem ráðunautar ríkisins í þessum efnum hafa gefið, virtist vera hægt að bæta úr vandræðunum í sambandi við landhelgisgæzluna með þessu móti á svo ódýran hátt, að ríkisstj. taldi ekki annað gerlegt en að nota sér þetta góða kauptilboð. Nú, ríkisstj. sendi því Pálma Loftssyni símskeyti um að fá kaupin útkljáð, áður en hann færi frá Bretlandi, en hann hefur farið það snemma frá Bretlandi, að skeytið hefur ekki náð honum og hann ekki gengið frá kaupunum áður. Hann kemur svo heim og er enn á fundi ríkisstj., þar sem hann skýrir henni frá ágæti þessara skipa. Hann hafði skoðað þau sjálfur og taldi þau mjög hentug til landhelgisgæzlu og björgunarstarfsemi. Ríkisstj. þóttist þá hafa himin höndum tekið, og þar sem Pálmi Loftsson var farinn frá Bretlandi, ákvað hún að fela sendiráði Íslands í London að ganga frá þessum kaupum formlega við flotastjórn Bandaríkjanna. — Ég verð nú að segja, að vitanlega ber ríkisstj. sem slík ábyrgð á þessum skipakaupum. Annað mál er það, hvort ríkisstj. hefur ekki sína afsökun, hvort ásaka mætti ríkisstj. fyrir það að fara eftir till. trúnaðarmanns síns, sem verið hefur í þessu starfi um mörg ár. Ég hygg, að yfirleitt sé það svo í störfum ríkisins, að ríkisstj. fari eftir till. þeirra manna, sem standa fyrir ríkisstofnunum, ef ekki er eitthvað sérstaklega tortryggilegt við þær, þannig að ríkisstj. telji ekki gerlegt að fara eftir þeim.

Ég hygg nú, að ég hafi svarað þeirri fyrirspurn hv. þm. Barð., hver bæri ábyrgð á þessum skipakaupum. Ríkisstj. ber það formlega, en hún hefur í þessu efni algerlega farið eftir till. trúnaðarmanns síns. Forstjóri Skipaútgerðarinnar hefur skýrt ríkisstj. frá því einu, að hægt væri að fá þessum skipum skipt eða selja þau, og meðan ég ekki reyni annað, verð ég að trúa því, að svo sé.

Ég held það sé mjög ofmælt hjá hv. þm. Barð., að lega þessara skipa hér í höfninni kosti 50–60 þús. kr. á mánuði. Eitt þessara skipa verður notað til landhelgisgæzlu hér í flóanum út þessa vertíð, því að það þótti ekki nægilegt að hafa eitt skip í flóanum. Þetta skip fer daglega úr höfn og liggur einatt úti í vondu veðri, og ég held, að skipstjórinn sé kominn að þeirri niðurstöðu, að ekki sé hættulegt að vera á skipinu í þó nokkuð vondu veðri. Þó mun það ekki vera heppilegt til björgunarstarfsemi, m. a. vegna þess, að skipið mun ekki geta farið hægar en um það bil 7 mílur. — Nú, hvað því viðvíkur að láta Sæbjörgu fara til Ísafjarðar, þegar búið er að gera hana í stand, hygg ég, að það sé ekki hægt nema með sérstöku samkomulagi við Slysavarnafélagið, ef þeir teldu sig eiga kost á betra skipi. Samningarnir, sem gerðir hafa verið um Sæbjörgu, eru um það að láta skipið stunda gæzlu hér í flóanum yfir vertíðina.

Ég tel nauðsynlegt — og er þar á annarri skoðun en hv. þm. Barð. — að heimila ríkisstj. fé til væntanlegra framkvæmda og tel ófært að binda þannig hendur ríkisstj., að hún geti ekki haft neitt annað en það andvirði, sem hún e. t. v. fær fyrir þau 3 skip, sem skipt verður á, því að við þá athugun, sem verður látin fara fram í þessu máli, getur komið í ljós, að til þess að fullnægja þessum samningum þurfi sérstaka fjárveitingu. Ég skal geta þess, að ég hef þegar gert ráðstafanir til þess að setja nefnd í þessu máli og ítreka það, að ég hef óskað eftir því, að tekið yrði á móti þessari n. í Bretlandi og hún fengi aðstöðu til þess að athuga, hvort hægt væri að fá skip í staðinn fyrir þessi og hvort þau skip væru álitin hentug til strandgæzlu. Ég vil taka fram, að ég mun sérstaklega leggja áherzlu á það við n., ef hún vill fá skipti á. skipunum, að hún fái skip, sem verði hentug fyrir Vestfirði til strandgæzlu. Ég vil ítreka þá yfirlýsingu, sem ég hef um þetta gefið, að ég ætla mér að framkvæma þennan samning, sem ég gerði í fyrra við slysavarnasveitirnar á Vestfjörðum, hvort sem till. verður samþ. eða ekki, því að ég tel mig hafa heimild til þess eftir þeirri fjárveitingu, sem til þess var veitt á síðustu fjárl. En meðan ekki er hægt að fá keypt hentug skip, verður þessi samningur auðvitað uppfylltur með leiguskipum, og ég veit, að hv. þm. Barð. er kunnugt um það, svo að óþarfi er að gera fyrirspurn um það í sambandi við þessa umr. Það er vitað, að þessi skip, sem hafa verið á undanförnum árum á vertíðinni við þessa gæzlu, hafa haft óvenjulega mikið að gera, vegna þess að vélbilanir hafa verið mjög algengar hjá bátum, sem stunda fiskveiðar, af þeirri ástæðu, að ekki hefur fengizt nægur forði af varahlutum hingað til lands vegna stríðsins.

Ég held það sé mjög ofmælt hjá hv. þm. Barð., að sú undanþága, sem gefin hefur verið í l. frá Alþ. fyrir vélstjóra, stofni mótorbátaútveginum í meiri eða minni hættu. Þessi undanþáguheimild er fyrst og fremst nauðsynleg vegna kaupa á nýjum skipum til landsins og vegna skorts á vélstjórum, og hv. þm. Barð. hlýtur að vita það og vera það manna ljósast, að það er ekki svo mikill munur á litlum og nokkuð stórum vélum, að þetta ætti að gera mikið til, hvað öryggi skipanna snertir. Ef vélstjóri á annað borð er fær um að fara með litla vél, ætti honum að vera trúandi fyrir að fara með nokkru stærri vél. Ég held, að flestir þeir vélstjórar, sem um er að ræða, hafi verið vélstjórar á skipum, sem hafa haft svona frá 90–100 eða jafnvel 120 hestafla vélar. Og þó að bætt sé við undanþágu upp í 250 hestöfl, tel ég það ekki svo mikla áhættu. — Ég vildi taka þetta fram út af þessum orðum hv. þm. Barð., um að Alþ. hafi farið út á mjög svo hála braut, sem e. t. v. gæti orðið sjómannastéttinni að tjóni. Ég held, að svo sé ekki. Og væntanlega hverfa þær vélabilanir, sem hv. þm. Barð. talaði um, nokkurn veginn úr sögunni, þar sem yfirleitt má fá nægan forða af varahlutum til landsins. Ég er að sjálfsögðu með víðtækustu till., sem fram hefur komið í þessum efnum, og það er till. ríkisstj. Ég ítreka það, að ég er því andvígur, að ríkisstj. sé ekki veitt nokkur fjárveitingarheimild í þessu skyni. (Forseti: Ég vil vekja athygli hæstv. ráðh. á því, að útvarpsumr. eiga að hefjast kl. 8, og tími því orðinn mjög naumur). Ég verð vitanlega að beygja mig undir úrskurð hæstv. forseta, og hefði gjarnan viljað að hann hefði komið fyrr.