05.03.1946
Neðri deild: 80. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í D-deild Alþingistíðinda. (5393)

19. mál, verðlag landbúnaðarvara

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Ráðuneytið hafði óskað umsagnar hagstofustjóra um málefni það, sem fyrirspurn þessi lýtur að. Ég hef nú í höndum umsögn hagstofustjóra og skal leyfa mér að lesa bréf hans. Það hljóðar svo:

„Með bréfi, dags. 29. f. m., hefur hið háa ráðuneyti óskað umsagnar minnar um fyrirspurn til ríkisstjórnarinnar um framkvæmd 2. töluliðs laga nr. 58/1945, um verðlag landbúnaðarvara.

Þegar frumvarpið til laga þeirra, sem hér um ræðir, lá fyrir þinginu í fyrra, var ég kallaður af nefnd þeirri, sem hafði það til meðferðar, til viðtals um 2. lið þess, þar sem svo var fyrir mælt, að hagstofan skyldi mánaðarlega reikna út breytingar þær, sem yrðu á vísitölu landbúnaðarafurða, svo og vinnslu og sölukostnaði þeirra, vegna hækkunar á kaupgjaldi á tímabilinu 15. sept. 1944 til 15. sept. 1945. Tjáði ég þá nefndinni, að það væri öldungis ógerlegt fyrir hagstofuna að reikna út jafnóðum, hvaða breytingar á landbúnaðarvísitölunni sérhver kauphækkun á landinu hefði í för með sér. En þar sem þessi ákvæði um hækkun á verði landbúnaðarafurða vegna kauphækkana munu hafa verið skilyrði fyrir 1. liðnum (að hækkun landbúnaðarafurða 1944 samkv. vísitölu félli niður), þá voru þau látin standa áfram með þeirri breytingu, að hagstofan reikni út eftir á við lok tímabilsins, hvaða breytingum kaupgjaldshækkanir hafi valdið, og skuli þær teknar til greina, þegar verðlagið er gert upp.

Hagstofan stendur að því leyti betur að vígi nú til þess að finna, hvaða breytingum á vísitölu landbúnaðarafurða kauphækkanir á þessu tímabili hafa valdið, að slík vísitala hefur verið reiknuð fyrir árið 1945 í sama sniði sem áður, og má því nota þær upplýsingar, sem við það hafa fengizt, til stuðnings við áætlun þá, sem hér er um að ræða.

Í útgjaldaáætlun þeirri, sem landbúnaðarvísitalan byggist á, kemur hér aðallega til greina útborgað kaup til verkafólks landbúnaðarins. Sá liður er 1491 kr. hærri 1945 heldur en árið áður, og nemur sú hækkun 4,8% af allri útgjaldaupphæðinni 1944. Þessi hækkun á útborguðu kaupi mun þó ekki öll stafa af kaupgjaldshækkun síðasta árs í laganna skilningi, því að þar mun vera átt við hækkun á almennu kaupgjaldi (kaupgjaldstaxta). Nokkuð af hækkuninni á þessum lið stafar hins vegar óefað af því, að fallið hafa í burtu eldri ráðningar, sem orðnar voru aftur úr og ekki höfðu fylgzt með hinni almennu kauphækkun. Þegar í stað þeirra koma nýjar ráðningar í samræmi við almennt greitt kaup, þá hækkar útborgað kaup, án þess að þar með verði hækkun á almennu kaupgjaldi, hækkunin stafar af eldri kaupgjaldshækkunum. En þar sem grundvöll vantar til þess að gera áætlun um, hve mikill hluti af hækkun útborgaðs kaups sé þannig til kominn, þá virðist ekki annar kostur fyrir hendi en að reikna með allri hækkuninni, enda hafa útgjöld landbúnaðarins hækkað sem því nemur, ef gert er ráð fyrir, að úrtak það, sem notað hefur verið, sýni rétta mynd heildarinnar. Hækkunin á þessum lið skiptist ekki jafnt á allt árið, heldur er hún miklu minni á vetrarkaupi heldur en á vor- og sumarkaupi. Hækkunin samkv. skýrslunum á haust- og vorkaupi hefur hér verið talin til vorsins, því að þá varð hækkun á vegavinnukaupi, sem mun hafa haft í för með sér allmikla hækkun á landbúnaðarkaupi. Samkv. þessu nemur hækkunin á þessum lið yfir vetrarmánuðina (nóv.–apríl) 0.4% af upphæð landbúnaðarvísitölunnar, 22% um vorið (maí-júní) og 4,8% um sumarið (júlí-sept.).

Í útgjaldaáætlun þeirri, sem landbúnaðarvísitalan byggist á, er annar liður, sem hækkað hefur að einhverju leyti vegna kauphækkunar. Það er liðurinn flutningur, sem látinn er breytast eftir farþegatöxtum sérleyfishafa. Þeir hækkuðu 1. des. og 15. apríl s. l. Hækkunin 1. des. stafaði af kauphækkun og hækkun á viðgerðarkostnaði, sem orðið hafði um langan tíma undanfarið (1½ ár). Þó gert sé ráð fyrir, að kauphækkun hafi verið aðalorsök þessarar hækkunar, þá er það tímabil, sem hér kemur til greina, svo lítill hluti af öllu hækkunartímabilinu, að gera verður ráð fyrir, að aðeins lítill hluti hækkunarinnar stafi af því. Hækkunin 15. apríl stafaði mest öll af benzínhækkun og hækkun á sérleyfisgjaldi og kemur því varla hér til greina. Þótt einhver lítill hluti af hækkun landbúnaðarvísitölunnar á þessum lið kunni að stafa af kauphækkunum, sem orðið hafa á því tímabili, sem hér um ræðir, þá nær hún sjálfsagt ekki svo hárri upphæð, að hún geti orðið hækkuð upp í 0.1% af landbúnaðarvísitölunni, og tel ég því, að henni beri að sleppa.

Loks er enn einn liður í landbúnaðarvísitölunni, sem hækkun kaupgjalds getur verkað á. Það er kaup bóndans, sem miðast við tekjur annarra stétta, og hækkar því, ef tekjur þeirra hækka vegna hækkaðs kaupgjalds. En sú hækkun veldur engum kostnaðarauka fyrir bóndann og ákvæðin í 2. lið laganna nr. 58/1945 virðast eingöngu eiga að tryggja framleiðendur gegn auknum tilkostnaði vegna hækkaðs kaupgjalds, enda hefur mér verið tjáð, að sú sé tilætlunin. Þessi liður kemur því ekki til greina í þessu sambandi. Verður þá ekki um aðra hækkun að ræða vegna hækkunar landbúnaðarvísitölu heldur en þá, sem stafar af hækkun af greiddu kaupi, en samkvæmt því á verð til bænda á vörum, sem framleiddar hafa verið í nóv. 1944 — apríl 1945, að hækka um 0.4%, á þeim, sem framleiddar hafa verið í maí og júní, um 2.2% og í júlí–sept. um 4.8%.

Í 2. lið laga nr. 58/1945 er eigi aðeins ákveðið, að verðlag landbúnaðarafurða skuli hækka vegna kauphækkana, sem valda hækkun á landbúnaðarvísitölu, heldur einnig vegna kauphækkana, sem valda hækkun á vinnslu og sölukostnaði afurðanna. Hagstofan hefur engar skýrslur handbærar um slíkar kostnaðarhækkanir á þessu tímabili og telur ekki tiltækilegt að safna þeim í þeim tilgangi að finna eitt almennt hækkunarhlutfall, sem síðan skyldi miða við. Hins vegar liggur það beint við, að þeir, sem telja sig eiga rétt til verðhækkunar af þessum sökum, leggi fram skilríki fyrir því, hvenær kauphækkun hefur orðið og hve miklum kostnaðarauka hún hefur valdið. Verður þá, eftir prófun skilríkjanna, ákveðið, hve mikið sá aðili skuli fá verðið hækkað á hverri einingu, sem seld hefur verið, eftir að kostnaðaraukinn bættist við, að svo miklu leyti sem það hefur ekki þegar verið nægilega tekið til greina fyrirfram við verðákvörðunina (sbr. hækkun kjötverðsins vegna áætlaðrar hækkunar á slátrunarkostnaði, geymslu- og flutningskostnaði).

Tvö fylgiskjöl með bréfi ráðuneytisins, dags. 29. f. m., endursendast hér með.

Þorsteinn Þorsteinsson.“

Eins og hv. þm. hafa heyrt af bréfi því, sem ég hef nú upp lesið, treysti hagstofan sér ekki til að áætla, hver hækkunin hefði orðið vegna dreifingarkostnaðar vörunnar, og hefur því verið gerð tilraun til þess að fá það úr annarri átt. Skýrsla, sem enn hefur ekki verið endurskoðuð, hefur fengizt um þetta fyrir milligöngu Búnaðarfélags Íslands, og eftir henni að dæma mun hækkun dreifingarkostnaðar nema ca. 0,925%. Sú aðferð hefur verið höfð á síðasta ári fram til 15. sept. f. á., eins og áður hefur verið gert, að greiða tiltekna upphæð á mjólk, ég áætla 14 aura pr. mjólkurlítra, en þegar reikningar mjólkurbúanna eru fyrirliggjandi, er svo endanlega gert upp, hverjar uppbæturnar eigi að vera. Þessir reikningar liggja ekki enn þá fyrir, en þegar þeir koma, mun verða bætt upp, á samræmi við þessa útreikninga hagstofunnar, þannig að hækkun á afurðum bænda yfir vetrarmánuðina verður 0.4% fyrir mánuðina nóv. til apríl, vormánuðina maí til júní 2.2% og sumarmánuðina 4,8%, auk þess verður bætt við uppbótum vegna aukins dreifingarkostnaðar, sem orðið hefur á þessu sama tímabili, þ. e. 15. sept. 1944 til 15. sept. 1945.

Öðru tel ég ekki þörf á að svara varðandi þessa fyrirspurn. Þetta er framkvæmdaatriði, sem verður að afgreiðast á sama hátt og uppbætur hafa verið greiddar á undanförnum árum. Ég hef hér útreikninga hagstofunnar á landbúnaðarvísitölunni 1945 og veit ekki, hvort hv. þm. hafa fengið aðgang að þeim útreikningum, en skal leggja þá hér fram á lestrarstofu þingsins, til þess að hv. þm. geti kynnt sér þá, en tel ekki ástæðu til þess að lesa þá hér upp.