05.03.1946
Neðri deild: 80. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í D-deild Alþingistíðinda. (5395)

19. mál, verðlag landbúnaðarvara

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Þessi reiðilestur hv. 2. þm. N.-M. er næsta furðulegur. Hann getur ef til vill sagt með réttu, að það hafi dregizt að svara þessari fyrirspurn, sem kannske gæti orkað tvímælis, hvort ætti að svara, en þótt það sé rétt, að dregizt hafi að birta svarið við þessari fyrirspurn, þá veit hv. 2. þm. N.-M., að einn liður í þessum upplýsingum, þ. e. varðandi dreifingarkostnaðinn, barst ekki í mínar hendur fyrr en fyrir örfáum vikum. Hann vann sjálfur að því að útvega þessar upplýsingar, og er ég honum þakklátur fyrir það, en fyrr en þær upplýsingar lágu fyrir var ekki hægt að svara fyrirspurninni, svo að neitt væri á henni að byggja.

Ég veit ekki betur en það hafi verið með fullu samþykki hans, síðan byrjað var að greiða uppbætur mánaðarlega á hvern mjólkurlítra, að eftir árið hefur verið gert upp og aðilum borgað eins og þeim hefur barið eftir settum reglum. Ég held, að ég fari rétt með það, að mánaðargreiðslur á síðasta ári hafi verið 2 aurum hærri á hvern mjólkurlítra en árið á undan og án þess að hv. þm. hafi fundið neitt að þessu. Endanlegt uppgjör getur hins vegar ekki farið fram fyrr en reikningar frá mjólkurbúunum liggja fyrir. Það hafa ekki komið fram neinar kröfur frá mjólkurbúunum um að hafa þessar mánaðargreiðslur hærri, og er því ekki hægt að ásaka ríkisstj. fyrir það, þótt hún hafi ekki hafizt handa um að hækka þessar greiðslur.

Hv. þm. staðhæfði, að útreikningar hagstofunnar væru skakkir, og leitaðist við að færa nokkur rök fyrir því. Útreikningar hagstofunnar eru byggðir á hennar eigin skýrslum og rannsókn á landbúnaðarvísitölunni fyrir árið 1945, sem ég hef hér fyrir framan mig og hv. þm. verður gefinn aðgangur að. Annað liggur ekki fyrir um þetta mál nú. Það eru tvær breytingar, sem verða vegna kauphækkana, sem lögin gera ráð fyrir, að teknar séu til greina. Ég sé, að einn liðurinn hér er um kaup verkafólks. Það er ekki hægt fyrir ríkisstj. að byggja á öðru en útreikningi hagstofunnar. Hv. þm. var að þrástagast á því, að stj. væri ekki farin að undirbúa greiðslur. Ég sé ekki, að hægt sé að hefjast handa um þær, fyrr en skýrslur liggja fyrir um, hvað greiða skuli. Hv. þm. þarf ekki að vera svo óþolinmóður, þessar skýrslur fara að berast. — Hv. þm. spurði, hvað stj. hefði hugsað sér um uppbætur á mjólk, sem seld er beint til neytenda. Það hafa ekki verið greiddar uppbætur á þá mjólk. Ég verð að játa, að ég sé ekki möguleika á að greiða þeim uppbætur, sem selja mjólk beint til neytenda. Þeir hafa minni dreifingarkostnað og væri það óframkvæmanlegt nema af einhverju handahófi, og eru allir sammála um það.