05.03.1946
Neðri deild: 80. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í D-deild Alþingistíðinda. (5396)

19. mál, verðlag landbúnaðarvara

Fyrirspyrjandi (Páll Zóphóníasson) :

Ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa upp 2. tölulið þessara laga.

2. töluliður bráðabirgðaákvæða laga nr. 58 frá 3. marz 1945 hljóðar svo:

„Verði hækkun á kaupgjaldi á tímabilinu 15. sept. 1944 til 15. sept. 1945, sem áhrif hefur á vísitölu landbúnaðarafurða eða vinnslu og sölukostnað þeirra samkvæmt útreikningi hagstofunnar, skal verðlagið hækkað í samræmi við það. Breytingar þessar skal hagstofan reikna út fyrir lok tímabilsins, og skulu þær teknar til greina, þegar verðlagið er gert upp.“

Nú orkar ekki tvímælis, að bóndinn borgar kaup, í peningum og fæði. Þegar þess vegna hagstofan sleppir að taka tillit til fæðis, þá er það rangt. Það kaup, sem bóndanum er reiknað, verður og að miðast við það kaup, sem hann borgar í fæði og húsnæði, því að það hefur bein áhrif á verðlagið. Hérna eru tvær hækkanir, sem verka beint á kaupgjaldið, sem hagstofustjóri hefur ekki tekið tillit til. Fyrst er kaup vinnumannsins í fæði og svo kaup bóndans. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. taki þetta til athugunar. — Hæstv. ráðh. talaði um, að ég væri óþolinmóður eftir greiðslunum, og ég er það, því að það liggur skýrt fyrir, hvað kjötmagnið var, sem selt var frá 15. sept. 1944 til 15. sept. 1945. Ég geri ráð fyrir, að kjötverðlagsnefnd hafi gengið frá, hve mikið seldist, og ekki sé eftir annað en að deila fénu. Það er nú komið fram í marzmánuð, og ætti kjötverðlagsnefnd að vera það vorkunnarlaust að vera búin að ganga frá því, sem uppbót átti að greiðast á. Ekkert hefði verið upplagðara en að afla um það skýrslna. Menn hafa átt von á því, að þeir þyrftu ekki að ganga eftir þessum uppbótum, nema þá ef til vill einhverjir slungnir lögfræðingar, sem fá prósentur fyrir innheimtuna.

Hitt er aftur rétt, að ekki munu liggja fyrir skýrslur varðandi mjólkina. En þær munu heldur aldrei liggja fyrir, nema eftir þeim sé gengið. Alveg sama máli gegnir um eggin og nautakjötið, vörur, sem hafa áhrif á vísitölu. Framleiðslukostnaður hefur hækkað samkv. útreikningi hagstofunnar, og fæði hefur hækkað og kaup bóndans.

Ég vildi vona, að þessar umræður hér verði til þess, að hæstv. ráðh. láti hagstofustjóra reikna út, hve mikilli hækkun á kaupi það hefur valdið, fæðið, sem bóndinn greiðir vinnumanni sínum, og kaup það, sem hann greiðir sjálfum sér.