11.03.1946
Neðri deild: 84. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í D-deild Alþingistíðinda. (5425)

131. mál, varðbátakaup

Fyrirspyrjandi (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir hans ýtarlegu svör við fyrirspurn minni og þá greinagóðu skýrslu, sem hann hefur gefið hér um það eftirlit, sem fyrirspurnin fjallar um, þ. e. a. s. um hæfni og eiginleika þeirra skipa, sem hæstv. ríkisstj. lét forstjóra Skipaútgæzlu og björgunarstarfsemi hér við land í gerðar ríkisins kaupa til landsins til landhelgis-Englandi í sumar. Það, sem skýrsla hæstv. ráðh. ber fyrst og fremst með sér og niðurstaða hennar, er, að þessi þrjú skip, sem komu á fyrrgreindum tíma, séu ekki hæf til þeirra starfa, sem þeim var ætlað að inna af höndum. Þetta virðist svo að segja öllum innlendum aðilum, öðrum en forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, bera samanum. Nefnd sú, sem hæstv. ráðh. skipaði 23. jan. s. l., hefur talið skipin óhæf til björgunarstarfa fyrst og fremst og ekki hæf til eftirlitsferða við landhelgisstörf. Skýrsla sú, sem skipstjórinn einu skipinu, Þórarinn Björnsson, hefur gefið um vesturför hans á einu skipinu 21. nóv. s. l. til Ísafjarðar, ber það einnig með sér, að álit hans er á sömu lund. Ég tel ekki ástæðu til þess að ræða í þessu sambandi álitsgerð þá og umsögn, sem hæstv. ráðh. hefur fengið frá Com. E. Thomas. Hann lýsir skipunum sem mjög vel færum og hæfum til þeirra starfa, sem þeim var ætlað að vinna í Bretlandi, sem sé til skyndiferða og hraðferða milli Svíþjóðar og Bretlands. En öllum hv. þm. er ljóst og öllum, sem vita, til hvaða starfa þessi skip eru ætluð, að þó að skipin hafi reynzt vel í þessar nauðsynlegu hraðferðir milli þessara landa á styrjaldarárunum, þá fer fjarri því, að af því megi álykta, að þau hæfi til landhelgisgæzlu og björgunarstarfa hér við land. Aðalatriðið í yfirlýsingu og skýrslu hæstv. ráðh. var það, að það væri álit allra íslenzkra aðila, að skipin séu ekki hæf til þeirra starfa, sem þeim voru ætluð.

En þá kemur að hinu, sem vitanlega er mjög mikið atriði í þessu sambandi: Hvað hyggst hæstv. ríkisstj. að gera með skipin? Því hefur hæstv. ráðh., a. m. k. að nokkru leyti, svarað, þar sem hann hefur skýrt frá því, að hann hafi skrifað forstjóra Skipaútgerðar ríkisins bréf, þar sem hann (ráðh.) óskar þess, að hann losi Skipaútgerðina og ríkissjóð við skipin og helzt í skiptum við önnur skip. Nú skýrði hæstv. ráðh. aðeins frá því, að forstjóri Skipaútgerðarinnar hafi svarað þessu með bréfi 1. marz s. l., þar sem hann ítrekar þá skoðun sína, að hann telji bátana hæfa, en telji hins vegar líkur til þess, að brezki sjóherinn mundi vilja taka við þeim og skipta á þeim og öðrum skipum. Mér finnst þetta mjög góð tíðindi, ef sönn eru, en í þessu sambandi verð ég þó að segja það, að áður en farið yrði út í það að skipta á skipunum og fá önnur í staðinn, þá þyrfti töluvert meira að gerast. Þá þarf það að gerast, að ýtarlega rannsókn fari fram á því, hvaða skip það eru, sem okkur henta til þeirra starfa, sem hér um ræðir. Þó má það ekki vera þannig, að einn maður væri fenginn, sem sendur væri fyrirvaralítið í skyndi til Bretlands, og hann keypti þar skip, sem honum einn daginn kynni að lítast vel á. Til þess verður meira að koma til. Þá verður rannsókn að hafa farið fram á því, hvað okkur henti í þessum efnum, sem gert er ráð fyrir í þeirri þáltill., sem samþ. var á síðasta þingi og bent er á í þessari fyrirspurn. Og enda þótt ég þykist hafa séð skoðun hæstv. ráðh. á því, hvað eigi að gera í þessum efnum, sem sé það, að hans áliti, að fá skipt á skipum, þá vildi ég þó beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvort hæstv. ríkisstj. hafi nú þegar tekið ákvörðun um það að skila skipunum og hvaða skoðun hæstv. ráðh. og stj. hefur á því, hvaða skip beri að kaupa í stað þessara. Ég hygg, að það beri til þess brýna nauðsyn, að hæstv. stj. geri þetta upp við sig mjög fljótlega. Í fyrsta lagi er það, að þessi skip, sem nú liggja hér í Reykjavíkurhöfn undir umsjón íslenzkra manna, kosta ríkissjóð daglega stórfé, og hygg ég, að ég fari rétt með það, að skipin kosti ríkissjóð á mánuði óstarfrækt um 75000 kr. Þau hafa nú legið óstarfrækt rúma fjóra mánuði, og það er nokkurt fé, sem landhelgisgæzlan og ríkissjóður hafa orðið að blæða fyrir þessi gagnslausu skip. Það ber þess vegna til þess nauðsyn, að stj. taki skjótar ákvarðanir um það, hvað hún ætlar að gera í þessum efnum, og vænti ég, að það verði það, sem hæstv. dómsmrh. lýsti hér áðan sem sinni skoðun, að það ætti að skipta á skipunum og taka önnur. Og ég vil lýsa því sem minni skoðun, að undangenginni þessari rannsókn, sem fram hefur farið á skipunum í höfn, að það á að skipta á skipunum, svo fremi að þess sé kostur, og þetta á að gera sem allra fyrst, og þetta hefði helzt átt að vera búið að gera, enda þótt ekki hefði legið fyrir rannsókn um það, að málin standa eins og þau standa í dag, en það verður að standa við þessa rannsókn. Í þessum efnum er sjálfsagt að fá sem greinilegast úr þessu skorið, og hæstv. ráðh. hefur verið fús til þess að láta kryfja þessi mál til mergjar. En aðalatriðið er nú, að menn geri sér ljóst, að þessi mál eru aðkallandi, því að ástand landhelgisgæzlunnar eins og það er í dag er hið hörmulegasta. Má það hverjum manni vera ljóst, sem fylgzt hefur með björgunarstarfseminni og landhelgisgæzlunni á s. l. ári, að þeim málum hefur mjög farið hrakandi, og athyglisvert er, hvernig ástandið er í þessum efnum í dag. Það er þannig, að Ægir er í viðgerð í Kaupmannahöfn og Þór, annað aðalskip landhelgisgæzlunnar, er í fiskflutningum og björgunarskip landsins, Sæbjörg, er í viðgerð, og björgunarstarfsemin og landhelgisgæzlan er því rekin með leigumála, með misjöfnum mótorskipum. Það má öllum vera ljóst af þessu, hvernig raunverulega er ástatt með landhelgisgæzluna og björgunarstarfsemina í dag. Þess vegna vildi ég leggja á það mikla áherzlu, að ákvörðunum stj. í þessum efnum yrði hraðað sem allra mest, og ég vil lýsa því sem minni skoðun, að þá leið beri að fara, sem hæstv. dómsmrh. drap á, sem sé að skila skipunum sem skjótast aftur og athuga, hvort hægt muni að fá betri í staðinn.

Ég vil svo minnast á síðari hluta fyrirspurnar minnar, sem hæstv. ráðh. einni svaraði, þ. e. a. s., hvað gert hefur verið í því að láta fara fram þá athugun á fyrirkomulagi landhelgisgæzlu og björgunarstarfsemi, sem ríkisstj. var falin með þál. á síðasta Alþ. Ég var einn af flm. þeirrar till., og það var okkur flm. hennar mjög mikið áhugamál að fá þá rannsókn framkvæmda, á fyrirkomulagi landhelgisgæzlu og björgunarstarfsemi, sem þar var lagt fyrir stj. að koma í framkvæmd. Ég verð að segja það, enda þótt ég vilji ekki áfellast hæstv. stj. svo mjög fyrir það, sem gerzt hefur í þessu máli s. l. ár, að ég hefði talið eðlilegra, að sú rannsókn á fyrirkomulagi landhelgisgæzlunnar og björgunarstarfseminnar, sem lagt var til með þessari till., hefði farið fram áður en þessi þrjú óhappaskip voru keypt frá Bretlandi. Það hefði verið langsamlega æskilegasta og eðlilegasta leiðin í þessu máli, að stj. hefði látið fara fram ýtarlega athugun á því, hvaða skipsstærð hentaði okkur við landhelgisgæzlu og björgunarstarfsemi hér við land, og hvaða starfsemi önnur væri nauðsynleg í höfn til þess að landhelgisgæzlu og björgunarstarfsemi yrði haldið hér uppi á sæmilega viðunandi hátt. En niðurstaðan varð sú, að áður en þessi rannsókn hafði farið fram, þá voru þessi þrjú skip keypt, og það er ekki hægt að neita því, að þessi kaup hafa, auk þess sem þau hafa valdið þeim, sem í góðum huga stóðu að kaupum þeirra, miklum vonbrigðum, beinlínis tafið framkvæmd þessara mála mjög verulega. Í fyrsta lagi hafa þau gersamlega eyðilagt þau áform Vestfirðinga að fá sína björgunarskútu byggða á s. 1. ári og byrjun þessa árs, sem búið var að semja um við stj. að verulegu leyti, og það hefur enn fremur slegið á frest raunverulegri ýtarlegri rannsókn á því, hvað bezt henti í þessum efnum yfirleitt. Tíminn hefur farið í það að velta vöngum yfir þessum skipum, sem svo miklum vonbrigðum hafa valdið, og féð, sem ætlað var á síðustu fjárl., ½ millj. kr., til kaupa á varðskipum, hefur einnig farið í það í viðbót við ½ millj. kr. Ég er ekki að ásaka hæstv. stj. fyrir þetta, enda þótt ég hefði talið heppilegri og eðlilegri leið, að byrjað hefði verið á því að framkvæma till. að þessu leyti. En ég veit það, að bæði hæstv. dómsmrh. og stj. í heild hafa mikinn áhuga fyrir þessum málum og að það eru stj. vonbrigði, að svo hefur til tekizt sem raun ber vitni um þessi skip, og eins hv. alþm. og landsmönnum yfirleitt, sem áhuga hafa fyrir þessum málum og telja, að brýna nauðsyn beri til að koma þessum málum í betra horf en þau raunverulega eru í nú.

Ég held svo, að ég hafi ekki mjög miklu við þetta að bæta, sem ég hef sagt. Ég vil aðeins beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvort það megi ekki vænta þess, að stj. taki nú alveg á næstunni endanlega ákvörðun um það, hvað gert verður við þessi skip, þegar þessi rannsókn liggur fyrir, hvort það megi ekki vænta þess, að á næstu dögum verði tekin um það ákvörðun. Ég vil lýsa því sem minni skoðun, að það eigi að fara þá leið, sem hæstv. ráðh. talaði um, að skila skipunum sem skjótast og athuga möguleika á því að fá ný skip í staðinn. Og enn fremur vildi ég spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort ekki er rétt með það farið, að skipin á mánuði hverjum kosti ríkissjóð þá upphæð, sem ég nefndi, 75000 kr. á mánuði. — Ég vil svo lýsa þeirri skoðun minni, sem ég setti hér fram þegar ég mælti fyrir þeirri þáltill., sem ég flutti á síðasta ári og samþ. var með nokkrum breyt., að ég teldi, að það væri ólíklegt, að landhelgisgæzlunni verði komið í sæmilegt horf meðan sá háttur væri á hafður um yfirstjórn hennar, sem nú er, að landhelgisgæzlan sé höfð í horninu hjá flutningafyrirtæki. Þessi skoðun mín er óbreytt og ég tel, að það, sem nú hefur gerzt í þessu máli á s. l. sumri, sanni það, að þessi skoðun mín er fyllilega á rökum byggð, að það beri að stefna að því og stj. beri að hafa það í huga, þegar hún framkvæmir rannsóknina, að að því verði að stefna, að landhelgisgæzlan verði sett undir sérstaka stjórn og sérstaklega sérfróða og menntaða stjórn. — Þetta var skoðun okkar flm. þeirrar þáltill., sem samþ. var í fyrra með nokkrum breyt., og ég hygg, að ég geti fyrir munn okkar allra fullyrt, að sú skoðun sé óbreytt.

Ég skal ekki fara að ræða, hvaða stærð sé heppilegust af þeim skipum, sem hér eiga að stunda landhelgisgæzlu og björgunarstarfsemi, það er hlutverk þeirrar n. og þeirra aðila, sem þá rannsókn eiga að framkvæma, sem hér hefur verið rætt um. En ég tel það ekki rétt, að draga megi þá ályktun af því, að Ægir hefur aðeins tekið 2 togara, en Óðinn 22 skip, að hin minni skipastærðin sé hentugri. Við vitum, að það, sem er fyrst og fremst hlutverk skipanna, sem annast landhelgisgæzlu, það er að verja landhelgina. Það er ekki það að lokka skipin inn í landhelgina til þess að geta tekið þau þar, heldur er það fyrst og fremst hlutverk þeirra að koma í veg fyrir, að erlendir og innlendir veiðiþjófar veiði í landhelgi, og mér finnst þess vegna, að það sé ekki fyllilega rökrétt að álykta um hæfni skipa til landhelgisgæzlu eingöngu út frá því, hvað mörg skip þau hafa tekið. Skip, sem þekkist af togurum, það varnar því, að skip komi inn í landhelgina, þó að það sé ekki tekið. Annars vil ég ekki fara að rökræða þetta atriði. Það er að sjálfsögðu mjög athugandi í þessu máli, um stærð skipanna, og það er afar stórt atriði í þessu sambandi, hversu gífurlegur er rekstrarkostnaður hinna stærri skipa, og vil ég taka undir það með hæstv. dómsmrh., að það beri mjög að athuga þetta mál um stærð skipanna einnig frá fjárhagslegri getu og bolmagni okkar opinbera sjóðs, ríkissjóðs.

Ég hygg svo, að ég hafi ekki mjög miklu við þetta að bæta. Ég vil ítreka þá ósk, um leið og ég þakka hæstv. ráðh. fyrir góð og greið svör hans við fyrirspurn minni, að fram verði haldið þeirri rannsókn, sem stj. var falin með þál. á síðasta þingi, og ég tel þá rannsókn grundvöll undir það, sem gera á í þessum efnum, og að þá rannsókn verði fyrst og fremst að hafa til hliðsjónar, þegar það verður ákveðið að skila þessum skipum og kaupa önnur í staðinn. Það má ekki endurtaka sig, að einn maður, hvort sem hann heitir forstjóri Skipaútgerðar ríkisins eða eitthvað annað, verði sendur til útlanda og að tiltölulega lítt yfirveguðu ráði kaupi það skip, sem svo reynist af óhentugri stærð eða skortir eiginleika, sem nauðsynlegt er að skip, sem annast eiga landhelgisgæzlu og björgunarstörf við Ísland hafi. Þess vegna tel ég það grundvallaratriði í þessu máli, að aðallínurnar séu markaðar fyrst um það, hversu landhelgisgæzlu og björgunarstarfsemi skuli varið hér við land. Ég tel það alveg meginatriði, og mér þykir líklegt á undirtektum hæstv. dómsmrh., að hann sé mér sammála um þetta, enda hefur hann þegar látið hefja nokkra athugun á því, hvað henti í þessum efnum, þar sem hann hefur fengið mann til þess að vera með í síldarleit og athuga möguleika í þá átt að nota flugvélar til landhelgisgæzlu. En enn sem komið er nær þessi athugun og rannsókn of skammt, og þess vegna er það, sem við erum komnir í þann vanda, sem raun ber vitni um nú, þegar við erum að ræða um þessi skip, sem væntanlega verður nú skilað og önnur fengin í staðinn.