11.03.1946
Neðri deild: 84. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í D-deild Alþingistíðinda. (5427)

131. mál, varðbátakaup

Fyrirspyrjandi (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Hæstv. ráðh. má ekki skilja orð mín svo, að ég hafi verið að ásaka hæstv. ríkisstj. fyrir það, að Ægir og Sæbjörg eru í viðgerð. Ég vildi hér aðeins benda á það, hvernig ástandið er í þessum málum. Sama máli gegnir með Þór, að mér var um það kunnugt, að landhelgisgæzlan vildi losna við hann. En nauðsynin til úrbóta er enn þá brýnni, úr því að skipin eru ýmist í viðgerð eða fiskflutningum. Ég legg áherzlu á það, að ríkisstj. verður að ákveða eitthvað, hvað gera skuli í þessum málum, og eiginlega saknaði ég þess úr ræðu hæstv. ráðh., að hann upplýsti eitthvað um það. (Félags- og dómsmrh.: Ég hygg, að ég hafi svarað þessu í ræðu minni). Nei, ég held ekki. En bæði sjómenn og þm. langar til þess að fá um það vitneskju.