18.03.1946
Efri deild: 86. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í C-deild Alþingistíðinda. (5445)

198. mál, lax- og silungsrækt í Austfirðingafjórðungi o.fl.

Flm. (Páll Hermannsson) :

Herra forseti. Tildrög þessa frv. eru þau, að stjórn Fiskiræktarfélags Fljótsdalshéraðs sneri sér til þm. af Austurlandi og fór þess á leit, að þeir beittu vér fyrir lagasetningu svipaðs eðlis og þetta frv. fjallar um. Frv. fylgir nokkur grg. ásamt fjórum fylgiskjölum, sem öll skýra málið. Þó þykir mér rétt að fara nokkurri orðum um aðalatriðin:

Lagarfljót með öllum þverám, sem í það falla, mun vera eitt af stærstu vatnahverfum þessa lands, og þeir, sem vit hafa á veiðivötnum, telja, að þverárnar Eyvindará og Grímsá séu með fallegustu stangaveiðiám á Íslandi, en í þeim er nú engin laxveiði og lítil silungsveiði. Ástæðan til þess mun fyrst og fremst sú, að Lagarfoss er ekki gengur laxi og ekki er vitað, að lax hafi nokkru sinni veiðzt fyrir ofan foss fyrr en í sumar, að Sigfús Blöndal veiddi lax í Grímsá. Fyrir ca. 20 árum var á ferð um Austurland vatnalíffræðingur frá Vínarborg, og komst hann að þeirri niðurstöðu, að ef Lagarfoss væri gerður fiskigengur, sem hann taldi mögulegt, mætti koma á mikilli veiði í Lagarfljóti. 1932 var gerður laxastigi í Lagarfossi, og næstu ár var haldið áfram undirbúningi að því að skapa laxveiði með því að afla seiða og sleppa þeim í þverárnar, en samkvæmt lífslögmálum laxins áttu seiðin að leita aftur á sömu stöðvar sem fullþroska fiskar. En þótt nú sé langt síðan byrjað var á þessu, hefur árangurinn ekki orðið meiri en svo, að í sumar veiddist lax í fyrsta sinn á þessum slóðum. Til þessa munu liggja ýmsar ástæður, og vil ég einkum benda á þrennt, sem mun valda þessu. Í fyrsta lagi mun laxastiginn í Lagarfossi ekki fullnægjandi. Telja ýmsir, að laxinn muni geta gengið þegar lítið vatn er í fljótinu, en ekki að öðrum kósti. Önnur ástæðan er sú, að seiði fengust ekki annars staðar en úr klakstöðinni við Elliðaár og því hætt við, að þau séu líflítil þegar búið er að flytja þau austur á land. Þriðja ástæðan, sem ég vil nefna, er sú, að fyrir ósum Lagarfljóts er ógrynni af sel, sem ætla má, að hefti fiskgengd í fljótið.

Síðustu árin hefur lítið verið gert að því að sleppa seiðum, þar sem áhuginn dofnaði þegar enginn árangur sást. En á síðastliðnu ári skeði það, að nokkrir áhugamenn í Reykjavík buðu Fiskiræktarfélagi Fljótsdalshéraðs upp á samning um, að þeir tækju að sér að rækta lax og silung gegn vissum skilyrðum, og má sjá í fskj., sem fylgir frv., hver þau skilyrði eru. Að dómi þeirra manna, sem vit hafa á þessum málum, eru þessi skilyrði aðgengileg fyrir viðkomandi héruð, enda hefur Fiskiræktarfélag Fljótsdalshéraðs ákveðið fyrir sitt leyti að taka boði veiðimannanna, ef ríkisvaldið vill gera þeim kleift að standa undir sínum hluta af útgjöldunum samkvæmt samningnum.

Það eru einkum 3 atriði, sem frv. felur í sér: Í fyrsta lagi er ríkissjóði gert að greiða 30 þús. kr. árlega í 10 ár. Í fskj. sést, hvernig verja skal þessu fé. Vera má, að ýmsum þyki það skjóta skökku við, að ekki skuli koma fé á móti þessu framlagi, svo sem venja er til. En fyrir þessu er gerð nokkur grein í skýringum við 1. gr. Þar er bent á, að ekki er talið fært að skattleggja veiðina, þar sem hún er því nær engin, og auk þess hafa eigendur hennar engin not næstu 15 árin, og má það raunar teljast nokkurt framlag, ef um nokkra veiði væri að ræða.

Nú kynnu sumir að ætla, að veiðimenn geri þetta í gróðraskyni. En sé nánar að gætt, getur ekki verið um það að ræða. Slíkt væri ekki hugsanlegt öðruvísi en veiði yrði mikil, og mættu þá allir vel við una, ef sá árangur yrði af þessum samningum.

Annað aðalatriði frv. er það að taka leigunámi veiðirétt í 3 ám í Vopnafirði til þess að fá þar veiði til klaksins. Á fskj. III er skrá yfir framtalda veiði í þessum ám um 14 ára skeið, og samkvæmt henni er árleg veiði í þessum ám um 1000 silungar og 220 laxar og virðist veiðin fara minnkandi. Mun bar einkum um að kenna ógætilegri meðferð þessara veiðivatna.

Gert er ráð fyrir, að klakhús og önnur verðmæti gangi til vatnasvæðanna að loknu þessu 15 ára tímabili.

Þá er þriðja stóra atriði frv., en það er að útrýma sel við ósa Lagarfljóts og Jökulsár, svo og við ósa veiðiánna í Vopnafirði, sem er aukaatriði hjá hinum. Fskj. 4 er skýrsla um framtaldá selveiði í 21 ár, 1924–1944. Á þessum árum hafa verið taldir fram frá Vopnafirði 70 fullorðnir selir og 486 kópar, eða að meðaltali á ári 3½ fullorðinn selur og 23 kópar. Svo er að sjá sem selveiðin í Vopnafirði sé að minnka, a. m. k. fullorðnir selir, því að hún er alveg horfin. Þess má geta um þessa veiði, að mikill meiri hluti hennar er annars staðar en við ósana, sem sé út með firðinum beggja megin, ég býst við, að selur við ósana sé mjög lítill eða enginn. Allt öðru máli skiptir um veiðina í Fróðárstungu. Þar er ein jörð, Húsey, sem mun vera ein allra mesta selveiðijörð á Íslandi, býst ég við. Ég sé t. d. eftir þessari skýrslu, að á einu ári hafa veiðzt þar 350 selir, og á tímabilinu, sem skýrslan nær yfir, sem er 21 ár, hafa verið taldir fram í Tunguhreppi 393 fullorðnir selir og 4086 kópar, sem gerir að meðaltali í 21 ár 19 fullorðna seli og 195 kópa. Þessi mikla selveiði tilheyrir einni jörð. Ef talin hefur verið fram selveiði í Tunguhreppi annars staðar en frá Húsey, er það svo hverfandi lítið, að það má teljast einskis virði, enda er talið, að hún eigi alla veiðina, gagnstætt því, sem venjulegt er, að jarðir beggja megin stórvatnsfalla eigi veiðina, og nýlega er genginn dómur um þetta atriði, þar sem veiði öll er dæmd Húsey. Það er sjálfsagt, að það að útrýma þessum mikla sel hefur kostnað í för með sér. Þess er þó að geta, að ríkið á þessa jörð, og ég hygg, að landsskuld af henni sé ekki svo óskapleg, en ábúendurnir þyrftu auðvitað að fá bætur fyrir missi á selveiði. Hverjar þær verða, segi ég ekkert um, það fer eftir mati, en ég býst við, að í því mati yrði tillit tekið til þess, hverjar líkur væru til, að ábúendur Húseyjar fái tekjur af laxveiði, þegar fram í sækir. Þess má geta um veiðina, að hún virðist smáminnka eftir 1940 og talsvert minnka síðustu ár. Ég býst við, að það stafi samt frekar af því, að það vanti fólk nú í þessari fólkseklu til að stunda veiðina en hinu, að veiðin hafi minnkað út af fyrir sig.

Ég hef þá hér lýst þeim þremur höfuðatriðum, sem felast í þessu frv., og ég held, að það sé ekki ástæða til að fjölyrða meir um það, þar sem menn þá líka geta í grg. og fskj. betur áttað sig á þessu máli.

Það má búast við, að á þessu frv. séu formgallar, og geri ég ráð fyrir, að við höfum um það samstarf við þá n., sem fær málið til meðferðar. Ég vil aðeins benda á tvennt, sem ef til vill ætti að standa í frv. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því í frv., að Fiskiræktarfélag Fljótsdæla eignist rétt til veiði í ánum í Vopnafirði um ákveðið árabil. Nú er beinlínis gengið út frá því, að Fiskiræktarfélag Fljótsdæla afhendi þessi réttindi mönnum hér í Rvík, sem framkvæma fiskiræktina, en það er ekki tekið fram í frv., að Fiskiræktarfélag Fljótsdæla skuli hafa leyfi til þess að afhenda öðrum þennan rétt. Má vera, að það sé vissara að hafa slíkt ákvæði í frv., ef til kemur. Í öðru lagi eru í þessu frv. ekki sett nein viðurlög við brotum, og þyrfti máske að athuga það atriði líka.

Ég vil svo leyfa mér að óska eftir, að frv. verði vísað til 2. umr. og til landbn.