01.03.1946
Neðri deild: 78. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

158. mál, ríkisreikningurinn 1942

Frsm. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Þessi ríkisreikningur, sem hér liggur fyrir frv. um samþykkt á, er fyrir árið 1942. Lengra er ekki komið reikningsskilum hjá ríkinu enn þá. Reikningurinn hefur nýlega verið afhentur alþm. til athugunar, og eins og venja er til fylgja reikningnum aths. við hann frá yfirskoðunarmönnum og einnig svör ráðh. við þeim aths., og loks till. yfirskoðunarmanna út af þessum aths. og svörum. Að þessu sinni eru aths. við ríkisreikninginn 20, en yfirskoðunarmenn skjóta 3 af þessum aths. ásamt svörum við þeim til aðgerða Alþ. Vil ég víkja að þeim aths. sérstaklega með nokkrum orðum.

Fyrsta aths. þeirra er viðkomandi óinnheimtum eftirstöðvum af ríkisgjöldum hjá innheimtumönnum ríkissjóðs í árslok 1942. Þessar eftirstöðvar hjá innheimtumönnunum nema þá um það bil 6,9 millj. kr., og yfirskoðunarmönnum finnst þetta nokkuð mikið og telja, að það þurfi að koma innheimtunni í betra horf. Þeir geta þess til samanburðar, að árið áður, 1941, hafi eftirstöðvarnar verið tæplega 1,8 millj. kr. Nú er á það að líta í þessu sambandi, að innheimtir skattar og tollar ríkissjóðs voru miklu hærri síðara árið en hið fyrra, svo að það fæst ekki réttur samanburður með því einu að bera þessar tölur saman. Árið 1942 voru tollar og skattar 73,9 millj. kr., en 1941 41,4 millj. kr. En þrátt fyrir þetta er það þó ljóst, að eftirstöðvarnar hafa verið hlutfallslega töluvert hærri síðara árið en hið fyrra. Mér reiknast svo til, að í árslok 1942 hafi þessar eftirstöðvar hjá innheimtumönnunum verið 9,3% af heildarupphæð tolla og skatta, en árið áður, 1941, hafa eftirstöðvarnar verið 4,4% af samanlögðum tollum og sköttum. Virðist þetta þá vera hlutfallslega réttum helmingi meira óinnheimt í árslok 1942 en árið áður.

Næsta aths., sem yfirskoðunarmenn vilja vísa til aðgerða Alþ. (12. aths.) snertir Atvinnudeild háskólans. Er þar á það bent, að kostnaður við starfsemi deildarinnar hafi orðið allmiklu meiri en áætlað var í fjárl., þar vinni nú margir menn og launagreiðslur stofnunarinnar séu, því orðnar miklar, og kasta þeir því fram, hvort ekki væri hægt að draga úr þessum kostnaði án þess að það drægi úr árangri af starfi stofnunarinnar. Um þetta segir ráðh., að það sé þannig um þá stofnun, að það sé sjaldan hægt að gera sér fulla grein fyrirfram fyrir þýðingu slíkra rannsókna og árangrinum af þeim, en nú sé í undirbúningi mikil aukning þess rannsóknarstarfs og hljóti það að hafa í för með sér aukin útgjöld. Út af þessu vilja yfirskoðunarmenn vísa málinu til aðgerða Alþ., en það mun liggja hér fyrir þinginu nú sérstakt frv. um þessa stofnun.

Þá er loks þriðja aths., (það er sú 14.), sem þeir yfirskoðunarmenn vilja vísa til aðgerða Alþ. og er viðvíkjandi kostnaði við sauðfjárveikivarnirnar. Samkv. því, sem þeir segja, er kostnaðurinn á árinu 1942 fast að því 4 sinnum meiri en áætlað var í fjárl., og hafa þar því orðið miklar umframgreiðslur. En þess er að geta, að þó að þarna hafi orðið miklar umframgreiðslur, þá eru þær þó ekki hlutfallslega meiri en ríkisreikningurinn sýnir í heild, því að það mun láta nærri, að tekjur og gjöld ársins 1942 hafi orðið 4 sinnum hærri en áætlað var í fjárl. þess árs.

Fleiri aths. eru það ekki af þessum 20, sem yfirskoðunarmenn vilja vísa til aðgerða Alþ., því að ýmist hafa þeir fengið fullnægjandi svör við hinum eða málið er þannig vaxið, að þeir sjá ekki ástæðu til neinna sérstakra aðgerða því viðkomandi. Fjhn. hefur engar till. fram að bera út af þessu, en hins vegar bendir n. á það í áliti sínu, að fyrir rúmu ári var afgr. frá sameinuðu Alþingi ályktun um endurskoðun og samþykkt á ríkisreikningnum, þar sem skorað er á ríkisstj. að hraða útgáfu ríkisreikningsins meira en gert hefur verið að undanförnu o. s. frv., svo að reikningurinn geti ávallt legið fyrir fyrir lok næsta árs á eftir. Ef þetta hefði verið komið til framkvæmda, hefði átt að liggja fyrir nú við lok síðasta árs ríkisreikningur fyrir árið 1944, en það er svo langt frá, að málið sé komið í þetta æskilega horf, að enn þá er ókominn ríkisreikningur fyrir árið 1943 og 1944, og fjhn. vill leggja áherzlu á það og bendir á það í nál., að unnið verði að því að kippa þessu í betra lag, því að það virðist vera mjög ógeðfellt, að þessi reikningur komi fyrst 3–4 árum seinna en þær greiðslur hafa átt sér stað, sem þar eru tilfærðar.

N. leggur til, að frv. verði samþ. með einni breyt., sem er tilfærð á þskj. 478. Það er aðeins leiðrétting á einni tölu, sem skakkt er prentuð í frv.