08.10.1945
Efri deild: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. Frv. á þskj. 4 er staðfesting á brbl., sem gefin voru út 2. ágúst s. l. Efni ákvæðanna eru þrenns konar. Í 1. gr. eru ákvæði, sem heimila ríkisstj. að verja fé úr ríkissjóði til að halda niðri vísitölunni á tímabilinu frá 15. sept. 1945 til jafnlengdar næsta ár með niðurgreiðslu á tilteknum neyzluvörum eða á annan hátt. Síðari málsgr. 1. gr. er ákvæði um, að ef vara er seld tvenns konar verði og niðurgreiðsla hefur farið fram á hæfilegu neyzlumagni vörunnar að dómi ríkisstj., þá skuli vísitalan eingöngu miðast við lægra verðið. 2. gr. er svo ákvæði um, að verðlag á kjöti fjár, sem slátrað hefur verið áður en venjuleg haustslátrun hefst, og á kartöflum, sem teknar eru upp fyrir venjulegan uppskerutíma, skuli eigi hafa áhrif á dýrtíðarvísitöluna.

Um efni frv. þarf ég ekki að vera langorður. Það var augljóst í ágústbyrjun, að ekki yrði hjá því komizt að verja fé úr ríkissjóði, ef dýrtíðin ætti ekki að taka stórt stökk upp á við. Reynslan sýndi, að nauðsyn var að greiða niður bæði kjöt og garðávöxt. Eins og kunnugt er, féll heimildin í dýrtíðarl. frá síðasta Alþ. úr gildi 15. sept. s. l., og varð þá ekki hjá því komizt að veita ríkisstj. nýja heimild, ef fleyta ætti áfram. — Um annað efni frv. er það að segja, að það er sett af nauðsyn, eins og hv. þm. er kunnugt.

Ég ætla ekki að fjölyrða um frv., og ætti ekki að þurfa að standa mikill styr um það. — Ég leyfi mér að leggja til, að því verði vísað til fjhn. að lokinni þessari umr.