21.11.1945
Efri deild: 34. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Frsm. meiri hl. (Haraldur Guðmundsson) :

Efni þessa frv. er í raun og veru þrennt. Í fyrsta lagi er samkv. fyrri málsgr. 1. gr. ætlazt til, að ríkissjóði verði heimilað að halda niðri verðlagi með niðurgreiðslum. Í öðru lagi, ef vara er seld með tvenns konar verði vegna niðurgreiðslu nokkurs hluta vörunnar, skal reikna með lægra verðinu í vísitölu. Í þriðja lagi er svo ætlazt til, að verðlag á kartöflum og kjöti, sem til fellur fyrir uppskerutíma og sláturtíð, skuli ekki tekið með í vísitöluútreikning. Brtt. á þskj. 167 er meira formsbreyt. en efnisbreyt., eins og almennt er litið á lögin, og þar sem vitað er, að heimildin til niðurgreiðslu úr ríkissjóði er háð takmörkuðum tíma.

Varðandi það, að reikna skuli með lægra verði í vísitölu, ef um tvö verð er að ræða á vöru vegna niðurgreiðslu, þá leggur n. til, að þetta verði bundið því skilyrði, að bætt verði 25% við það vörumagn, sem reiknað er með í vísitölunni. Ef í slíkum tilfellum væri reiknað með öllu magni vörunnar, líka því, sem ekki er greitt niður, yrði vísitalan brjáluð. En sé allt það magn, sem reiknað er með í vísitölu, greitt niður, ætti slíkt ekki að koma til. En þó þykir n. rétt að hækka þetta neyzlumagn frá 1939 í samræmi við laun opinberra starfsmanna eða um 25%. Ég hygg, að með þessum breyt. verði ekki hægt að halda því fram, að vísitalan sé röng eða neytendum í óhag.

Annað atriðið, að árstíðaverðsveifla skuli ekki hafa áhrif á vísitölu, hefur n. athugað og fallizt á, að ákvæði brbl. verði haldið í þessu. efni, þó með tveimur skilyrðum. Í fyrsta lagi, að tímabilið verði ákveðið í l. frá 1. ágúst til 20. september, og í öðru lagi, að jafnan sé nægilegt magn af vörum með því verði, sem reiknað er í vísitölu. Það má segja með rétti, að sé nóg til af vöru með lágu verði, sé það óhóf að kaupa vöru sömu tegundar með háu verði, og á þetta hefur n. fallizt, ef nóg vara er til með þessu lága verði. Ríkisstj. ætti ekki að vera sett í nein vandræði með þessu ákvæði. Segja má, að ekki sé öllum reglum fylgt með vísitöluútreikning með því að taka upp þessi ákvæði. En hér er um svo tiltölulega litla breyt. að ræða, því að verðlagsbreyt. 2.–28. ágúst hefur ekki áhrif á vísitölu eftir núgildandi reglum, og hér er því aðeins um 20 daga viðbót að ræða. Ég játa, að eðlilegt væri að taka þessa verðbreyt. með, en það mundi kosta mikið erfiði að fá þann útreikning réttan, en hann er hins vegar smávægilegur og þessvegna var afráðið, að honum skyldi sleppt.

Ég hef hér mælt fyrir meiri hl. fjhn. Ed., en minni hl., hv. þm. Eyf., var ekki viðstaddur þennan fund, hafði af mistökum ekki fengið fundarboðið, en ekki það, að við hinir vildum hann ekki. Þessi hv. þm. hefur ekki getað fallizt á till., skilst mér, þó að það sé ekki vegna till., heldur vegna þess, að hann vill gera aðrar ráðstafanir, þ. e. að lækka dýrtíðina. Hv. þm. hefur drepið á þá hugsun í þessu sambandi, sem fram kemur á þskj. 187. Uppástunga hans var ekki rædd í n. og ekki heldur lögð fram í tillöguformi, svo að um hana yrðu greidd atkv., en ég get sagt sem mína skoðun, að mér finnst ekki líklegt, að vænta megi mikils árangurs af því, eins og sakir standa, þó að þessi till. yrði samþ. ein út af fyrir sig. Hins vegar vil ég engan veginn með því segja, að ég ekki álíti ástæðu til þess, að n., fjhn. Ed., ein eða í samráði við n. í Nd., ræði þessi mál nokkru nánar til þess að athuga og reyna að skapa sér skoðun um, hvort líklegt væri, að hægt væri að ná samkomulagi um einhverjar aðgerðir, sem miðuðu í þessa átt. Ég vildi því beina því til hv. þm., hvort hann vildi taka þessa till. aftur, t. d. til 3. umr. En þegar ég segi þetta, sem ég hef látið í ljós um till. sjálfa út af fyrir sig, þá er ég jafnframt viðbúinn að ræða aðrar aðferðir í sambandi við hana til að ná því markmiði, sem ég hygg, að hv. þm. vilji stefna að.

Ég hef svo ekki meira um þetta að segja. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem till. er um á þskj. 167. Um till. hv. þm. mun ég ekki greiða atkv., heldur láta afskiptalaust, hvernig hún er afgr., því að hún leysir ekki málið.