22.11.1945
Efri deild: 35. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Frsm. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Það er með þetta mál eins og mál það, sem var til umr. hér í gær, að ég fékk ekki boð um þann nefndarfund, þar sem það var afgreitt. Mér skilst, að þar sem ákveðið er nú, að hv. þm. fari héðan úr húsinu eftir rúman hálftíma, megi ekki eyða löngum tíma í þetta mál, og skal ég ekki gera það, enda get ég að mestu leyti vísað til nál. þess, sem ég hef talið rétt að gefa út og er á þskj. 187. Ég fellst á það, sem frv. fjallar um, og tel meginatriði þess, að það sé óhjákvæmilegt að greiða niður ýmsar vörur með fjárgreiðslum úr ríkissjóði fyrst um sinn. Þessar niðurgreiðslur hafa verið nú undanfarið, og þær hafa beinlínis haldið niðri dýrtíðinni. Það hefur nú verið um það deilt, hvort dýrtíðin lækkaði nokkuð við þetta, en ég lít svo á, að þegar vísitölunni er haldið niðri, hafi það bein áhrif á sjálfa dýrtíðina. Niðurgreiðslurnar hafa verið óhjákvæmilegar. Og það er mín skoðun, að meðan engar aðrar ráðstafanir eru gerðar í staðinn, þá sé þetta enn nauðsynlegt, því að ef verðlagi væri sleppt lausu nú, er ekki annað fyrirsjáanlegt en að vísitalan færi allmikið yfir 300 stig, og eftir því sem fyrir liggur, er ekki annað hægt að sjá en að það mundi hafa algera stöðvun ýmissa atvinnugreina í för með sér. Að hinu leytinu er það, að toppurinn á dýrtíðinni, ef svo má að orði kveða, er sjálfskaparvíti þjóðarinnar, og á ég þar ekki einasta við innlendar vörur, heldur annað verðlag, þar sem verðlag í landinu hefur hækkað fram yfir það, sem útlendar vörur aðkeyptar hafa hækkað. Það er sjálfskaparvíti þjóðarinnar sjálfrar, og þetta hefur orsakazt af því kapphlaupi um peningana, sem átt hefur sér stað meðal einstakra stétta þjóðfélagsins og allir þekkja, og ætla ég ekki að fara að lýsa því. En nú hefur orðið talsverð breyting frá því, sem áður var, þegar þetta kapphlaup var í algleymingi. Það hefur skeð sú meginbreyting, að ófriðurinn, sem hefur skapað þetta háa verð, er nú liðinn hjá, og ég held, að þeim fjölgi meir og meir, sem líta svo á, að það sé með öllu óhugsandi framtíð fyrir okkur, að við getum haldið verðlagi margfalt hærra en er hjá nágrannaþjóðum okkar og aðalviðskiptaþjóðum okkar. Og eins og öllum er kunnugt, þá er það ekki einasta ýmis innlend framleiðsla, sem er í margföldu verði við það, sem annars staðar er, heldur er lífið í landinu á allan hátt svo dýrt, að það er yfirleitt ekki hægt að framleiða hér öðruvísi en að sú framleiðsla sé dýr. Ég held, að ef leyfður væri ótakmarkaður innflutningur á t. d. húsgögnum frá Svíþjóð, yrði samanburðurinn ekki hagstæðari en að því er verð landbúnaðarvara snertir. En hvað sem um þetta er, þá lít ég svo á — og ég held að þeir séu orðnir fleiri en voru um tíma, sem eru því sammála —, að það sé fyllilega kominn tími til þess að hefjast nú handa um það, að dýrtíðarflóðið, sem yfir landið hefur gengið undanfarið, haldi ekki áfram að aukast, og frekar hitt, að gera ráðstafanir til þess, að það fari að fjara út eitthvað, þó að mér sé það ljóst, að þar verði að vísu að fara varlega í sakirnar og snöggar breytingar einnig í hina áttina geti að sjálfsögðu verið varasamar.

Ég legg því til, að því, sem ég álít meginatriði þessa frv., sem sé það, að heimila niðurgreiðslu á tilteknum vörutegundum, sé haldið áfram enn um sinn, en á hinn bóginn legg ég þó til, að gerðar verði nokkrar breyt. á frumvarpinu. Eru brtt. mínar í nál., og skal ég fyrst minnast á 2. lið breytingartillagnanna. Þar er lagt til, að skipuð verði fimm manna n., sem sé þannig skipuð, að hagstofustjóri sé sjálfkjörinn og formaður þeirrar n., en 4 nm. tilnefndir af þingflokkunum, sinn frá hverjum. Verkefni þessarar n. sé svo að reyna að koma sér saman um till. um a. m. k. að stöðva og helzt að lækka dýrtíðina í landinu með þátttöku allra þjóðfélagsstétta, og það legg ég áherzlu á. Það eru taldar þarna upp ýmiss konar afurðir, eins og til ábendingar, sem til greina gætu komið í þessum efnum, en mér er það ljóst, að það er ekki víst, að það sé nein tæmandi upptalning. Enn fremur legg ég til, að n. geri till. um sérstakt eignaframtal í landinu, og er þessi till. gerð sökum þess, að til munu vera ýmsir aðilar í landinu, sem hafa safnað miklu fé á stríðsárunum án þess að taka nokkurn þátt í lækkun dýrtíðarinnar með þeim atriðum, sem áður eru talin upp í tillgr., og þar af leiðandi kynni að vera nauðsynlegt, til þess að þetta gangi jafnt yfir alla, að leggja á einhvern skatt, sem yrði þá varið til þeirra ráðstafana, sem kynnu að þykja nauðsynlegar til þess að hægt væri að snúa eitthvað til baka á þeirri braut, sem við höfum nú gengið undanfarið. Ég legg til, að þessari n. sé gert að skila áliti sínu fyrir 15. febrúar n. k. Ætti það að vera hæfilegur tími fyrir n., einkum þar sem ég legg til, að hún megi ráða sér sérfræðinga til aðstoðar eftir þörfum. Ég miða við 15. febrúar sökum þess, að eins og öllum hv. þm. er kunnugt, þá verður þing að koma saman næst þann dag, samkv. stjórnarskránni, og ætlast ég því til, að till. þessarar n. verði tilbúnar þegar næsta Alþingi kemur saman.

Mér virðist, ef þessi n. getur komið sér saman, að þá væri þar með fenginn grundvöllur að samkomulagi stétta og flokka í landinu og þar af leiðandi mundi Alþ. ekki þurfa mjög langan tíma til þess að ganga frá l. samkv. till. þeirrar nefndar. Þess vegna legg ég til, að þetta frv. falli úr gildi mánuði síðar. Ég sé, að hér mun vera prentvilla, og vil ég biðja hæstv. forseta að taka það til greina. Till. á að vera þannig, að fyrir „til jafnlengdar næsta ár“ í 1. málsgr. komi: til 15. marz 1946. Ég ætlaðist til, að n. skilaði áliti 15. febr., daginn sem Alþ. á að koma saman, en að þessi l. giltu til 15. marz. Þá ætlaðist ég til þess, ef árangur yrði af starfi þeirrar n., að þá komi ný lagaákvæði í staðinn fyrir þessi l. Færi hins vegar svo, að samkomulag næðist ekki í þessari n., þá hefur verið gert á Alþ. annað eins og það að framlengja þá þessi l., eins og þau liggja hér fyrir, til 15. sept. n. k. Það má segja, að ef ný 1. verða sett, mætti eins vel afnema þessi l., þó að þeim sé ætlað að gilda til 15. sept. n. k. Ég legg ekki mikið upp úr þessu atriði, en það er þó nokkur hvatning fyrir n. og Alþ., ef ný úrræði fást, að hafa þetta tímatakmark.

2. málsgr. 1. gr. frv. gerir ráð fyrir tvenns konar verð á sams konar vöru. Það, að hafa verði einungis tekið til greina þegar vísitalan er reiknuð út. Ég vil segja það út af þessu, að ég álít á ýmsan hátt óheppilegt að hafa tvenns konar verð á sams konar vöru. Það að hafa tvenns konar verð á sams konar vöru hlýtur annaðhvort að skapa töluvert misrétti meðal neytendanna eða vera þýðingarlaust, þannig að varan með lægra verðinu nægi landsmönnum, og þá kemur hærra verðið ekki til greina. Fyrir nokkru síðan var á markaðnum hér í Reykjavík amerískt smjör og er enn þá, og ég held, að það hafi verið miðað við það í vísitölunni, en ekki við verðlag á íslenzku smjöri. En í öðrum stærsta kaupstað landsins sést ekki þetta ameríska smjör. Ég segi þetta til dæmis, án þess að ég sé að telja eftir, þó að ég keypti íslenzkt smjör með fullu verði. Það sjá allir, að það er ekki jafnrétti, að launþegar á Akureyri urðu að kaupa íslenzkt smjör með hærra verðinu, en launþegar í Reykjavík gátu fengið amerískt smjör. Svo kemur ameríska smjörið eitt til greina þegar vísitalan er reiknuð út, og þannig mundi þetta verða, ef gert er ráð fyrir, að nokkur kaupi vöruna með hærra verðinu, þá er komið á misrétti, en ef ekki er gert ráð fyrir, að slík vara sé keypt, þá er þetta ákvæði þýðingarlaust. Ég legg þess vegna til, að þessi 2. málsgr. 1. gr. falli niður með öllu, og afleiðingin af því, að hún er felld niður, er sú, að ef ríkisstj. ákveður að greiða niður verð einhverrar vöru, verður hún að greiða niður alla þá vöru, sem seld er innanlands, og gengur það þá jafnt yfir alla. Ég geri ekki ráð fyrir, að þetta muni mjög miklu fyrir ríkissj. Ég skal þó játa, að ég hef ekki haft aðstöðu til að reikna út eða gera mér nokkra áreiðanlega hugmynd um það, hverju það munar, en mér finnst, að það muni ekki muna miklu og þessi sparnaðar, sem þarna á að ná fyrir ríkissjóð, sé meira ímyndaður en að hann muni verða raunverulegur.

Meiri hl. n., sem kallar sig n. og getur ekki um það í sínu nál., að hann sé meiri hl., hefur gert brtt. við þetta atriði. Till. meiri hl. ganga í þá átt, að lægra verðið megi því aðeins reikna með í vísitölu, að niðurgreiðsla hafi farið fram á hæfilegu neyzlumagni vörunnar, og ekki undir því magni, sem reiknað er með í vísitölunni, að viðbættum 25%. Ég skal fyllilega játa, að þessi brtt. er til stórra bóta fyrir neytendur og gefur þeim mikið öryggi hvað þetta snertir, og ég sé heldur ekki, að hún muni verða til neins skaða fyrir framleiðendur neyzluvörunnar, af ástæðum, sem ég skal nú þegar taka fram. Það er af þeirri einföldu ástæðu, að ég get ekki skilið till. öðruvísi en svo, að það megi því aðeins reikna með hinu lægra verði vörunnar, að landsmenn fái nægilegt af henni. Það magn, sem reiknað er með í vísitölunni að viðbættum 25%, hygg ég, að muni vera nokkurn veginn það, sem landsmenn kaupa, a. m. k. ef þeir eiga kost á svo miklu magni vörunnar fyrir lægra verðið. En þó að sams konar vara væri á boðstólum með hærra verðinu, mundi ekkert verða keypt af henni. Ég held því, að þessi brtt. meiri hl. n. sé að efninu til alveg sama eðlis og brtt. mín um að fella 2. málsgr. 1. gr. niður. Það mundi verka nákvæmlega eins, og þá þykir mér miklu einfaldara, að mín till. verði samþ. Ef til vill má ekki gera það, þar sem ég er ekki í þessum þingmeirihl., sem hér ræður. En þó sé ég ekki annað en að nokkur bót sé að því að samþ. brtt. meiri hl., fyrir báða aðila, framleiðendur og neytendur, framleiðendur að því leyti, að þetta mundi verða til þess, að meira magn vörunnar yrði greitt niður úr ríkissj. og þar af leiðandi mundi meira seljast af þeirri vöru á innlendum markaði, því að ég býst við því, að tvenns konar verð stórspilli hvort sem er fyrir vöru, sem seld er hærra verði en sams konar vara, eins og ég hef fært nokkur rök að í mínu nál. Ef mín till. um það að stytta þann tíma, sem heimilt er að greiða niður verð vöru úr ríkissj., verður samþ., þá er 2. gr. frv. þýðingarlaus, því að þá taka ekki l. til þess tíma, sem 2. gr. frv. fjallar um. Ég hef því lagt til, að 2. gr. frv. falli. niður. Verði till. mínar aftur á móti felldar, sé ég ekki annað en það sama eigi við um till. meiri hl. við 2. gr. eins og ég hef sagt um brtt. hans við 1. gr. Þó fer það nokkuð eftir því, hvernig till. er skilin. Það segir hér í niðurlagi þessarar till., 2. till. meiri hl.: „enda sé á boðstólum nægilegt magn af þessum vörum með því verði, sem reiknað er með í vísitölunni.“ „Þessum vörum“ sýnist eiga við þær vörur, sem áður eru taldar upp í till., sem sé „kjöt af sauðfé, sem slátrað er til sölu á tímabilinu frá 1. ágúst til 20. september, og kartöflur, sem teknar eru upp á sama tíma“. Þetta getur ekki átt við annað en nýtt kjöt, það er alls ekki sama vara t. d. frosið kjöt frá fyrra ári, það er ekki þessi vara. Ef átt er við kjöt af fé, sem slátrað hefur verið á fyrra ári, eða kartöflur, sem teknar hafa verið upp fyrir einu ári, þá er það allt önnur vara, það mundi hver einasti læknir votta. Þess vegna skil ég till. á þennan hátt, og með þeim skilningi sé ég ekki annað en að hún sé til bóta frá frv., bæði fyrir framleiðendur, sem hafa þá betur tryggða sölu á þessum vörum, og líka fyrir neytendur, Mér finnst ákaflega líklegt, þó að þingmeirihl, taki ekki mikið tillit til till. okkar framsóknarmanna, að það verði samþ., þrátt fyrir allt, að gera þessa tilraun til samkomulags í þessu máli, sem ég legg til með mínum till., og þar af leiðandi komi till. meiri hl. ekki til greina. En verði, gegn von minni, mínar till. felldar, þá mun ég a. m. k. ekki sjá ástæðu til þess frá mínu sjónarmiði að leggja á móti brtt. meiri hl. Hv. frsm. meiri hl. n. fór fram á það við mig, að ég tæki till. mínar aftur til 3. umr., í því skyni, að fjhn. fengi tækifæri til að athuga þær milli umr. Ég hef nú, að vísu munnlega, hreyft þessum till. á fjhn.-fundi og fékk ekki beinlínis mótmæli, en mér fannst heldur sinnulaust um þetta og ég fá litla áheyrn á fundinum. Ég verð því að segja það, að ég hef ekki miklar vonir um það, að það beri árangur að taka till. aftur til 3. umr., og þó mun ég gera svipað og í gær, að skjóta því undir eins konar dóm, hvort ég eigi að taka till. aftur. Ef hv. form. fjhn. d. lýsir yfir því, að hann muni taka till. mína til meðferðar á fundi n. áður en 3. umr. fer fram, þá vil ég þó ekki spilla neinum möguleika til þess að fá fleiri fylgismenn við hana, og mun þá verða við þessum tilmælum hv. frsm. En ef hv. form. n. telur það hafa litla þýðingu, og þar sem málið var til umr. í gær og ég tel, að hv. dm. hafi haft tíma til að átta sig á þessu máli, sé ég ekki ástæðu til annars en að atkv. gangi um till. Sem sagt, ég vil skjóta því til hv. form. n., hvort till. skuli borin undir atkv. nú eða tekin aftur til 3. umr., að sjálfsögðu með þessu skilyrði, að fjhn. taki hana til meðferðar. Með meðferð á ég við það, að nm. átti sig virkilega á því, hvað um er að ræða, og taki sína afstöðu út frá málefnum.