02.03.1946
Sameinað þing: 30. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2146 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Eins og mönnum er kunnugt, náðist fyrir skömmu lausn á vinnudeilu þeirri, sem stóð yfir hér á dögunum, og hafa blöðin skýrt frá úrslitum málsins. Í því sambandi kom fram í einu dagblaði bæjarins, þ. e. Þjóðviljanum, vitneskja, sem ég vildi gjarnan gera fyrirspurn um til hæstv. viðskmrh. Í þessu blaði segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „ — að ríkisstj. lýsir yfir, að veitt verði innflutningsleyfi beint til neytenda.“ Af þessari frásögn blaðsins kemur fram, að hæstv. ríkisstj. hafi gefið einhverja yfirlýsingu , um stefnubreytingu í þessum málum, sem ég fyrir mitt leyti vildi fá nánari vitneskju um, í hverju væri fólgin, ef hæstv. ráðh. væri reiðubúinn að skýra þingheimi frá því.

Þá vildi ég einnig spyrja hæstv. viðskmrh. að því, hvernig á því stendur, að ekki hafi verið gefin út nein reglugerð um frílistann eða frjálsan innflutning frá þeim löndum, þar sem greiðslur fara fram í sterlingspundum. Mig minnir, að ætlunin hafi verið að gera þetta, þegar breytingar voru gerðar á l. um gjaldeyrisverzlun, en enn þá hefur ekkert gerzt í þessu máli.

Loks vildi ég spyrja hæstv. ráðh. að því, hverju sæti sá endurútflutningur, sem virðist eiga sér stað í nokkuð ríkum mæli frá landinu. Ég man ekki, hvað hér er um háa upphæð að ræða, en hygg, að hún sé eitthvað milli 10–20 millj., en mér finnst ástæða til þess að vekja athygli á þessu, þar sem vitað er, að það er nokkur hörgull á frjálsum gjaldeyri, og virðist það því vera varhugavert, ef halda ætti slíku áfram í ríkum mæli, að þær vörur, sem ef til vill eru keyptar hingað fyrir frjálsan gjaldeyri og þær greiðslur þannig teknar af dollarainnstæðum okkar, séu aftur fluttar út úr landinu til landa, sem ekki greiða vörurnar með frjálsum gjaldeyri.