23.11.1945
Efri deild: 36. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Það var ákaflega skemmtilegur fyrirlestur, sem hv. þm. Str. hélt yfir okkur um dýrtíðina og fölsun á vísitölunni, en sannast að segja kemur það lítið því máli við, sem hér er til umr. Ég skil ekki í því, að hv. þm. hafi sett sig svo lítið inn í þetta mál, að hann geri sér ekki ljóst, að ekki er um fölsun á vísitölunni að ræða í neinu atriði þessa frv., sem hér liggur fyrir. — Að því er snertir tvenns konar verð á vöru í 1. gr. frv., þá er vitanlega talað út frá því sjónarmiði, að einungis sé átt við verð á smjöri, því að tvenns konar verð hefur ekki verið notað um neina aðra vöru, Eins og ég gat um áðan, þá er það vitað, að sá smjörskammtur, sem nú hefur verið gefinn út, er áreiðanlega eins mikill eins og meðalnotkun hefur verið áður en ameríska smjörið kom á markaðinn, og það er sami skammtur eins og reiknað er með í vísitölunni. Hvernig er þá hægt að kalla að fölsun á vísitölunni, þótt ekki sé reiknað með því magni af smjöri í vísitölunni, sem selt er sem hrein „lúxusvara“ og nokkrir fáir útvaldir fá að njóta, en almenningur aldrei, og kemur varla í verzlanir nema í einum einasta kaupstað á landinu? Það, sem máli skiptir, er á hvaða verði fólkið fær vöruna, sem það neytir, en ekki hitt, hvaða verð kann að vera sett á vöru, sem almenningur hefur ekki aðgang að. — Hvað hitt atriðið snertir, sem um ræðir í 2. gr., er ljóst, að það er ekki sett í því skyni að falsa vísitöluna. Það má að vísu segja, að það er gert mögulegt að láta vöru koma á markað, sem ekki er tekin inn í vísitöluna, en vöru, sem alls ekki mundi koma á markað, ef þessi ákvæði væru ekki sett. Þá er spurningin aðeins um þetta: Er fólkið betur sett, ef varan kemur alls ekki á markað, eða ef varan kemur á markað og hefur ekki áhrif á vísitöluna? Og ef það hins vegar notar réttinn til þess að kaupa vöruna, þá fær það ekki þann kostnað uppborgaðan með aukinni vísitölu. Ef 2. gr. frv. yrði felld niður, þá er það fyrirfram vitað, að sumarslátrun á sér ekki stað, og hið sama gildir um nýjar kartöflur, og er fólkið þess vegna að engu leyti betur sett, hvað það ákvæði snertir. — Hitt er svo allt annað mál — og um það getur hv. þm. Str. talað með meiri rökum en það, sem snertir önnur þau atriði, sem hann gerði að umræðuefni, að það eru önnur atriði, eins og húsaleigumálin, sem hann var að tala um, sem hafa allt annars konar áhrif en hér um ræðir. Að sjálfsögðu verður að viðurkenna það, að þau mál eru að verða stórkostlegt vandamál, sem verður stöðugt meira með hverju árinu, sem líður. Og því kemur engum til hugar að neita, að þeir menn hér, sem verða að búa í nýjum íbúðum, eru verr settir en þeir, sem í gömlu íbúðunum búa. En það er mál, sem ekki kemur því máli við, sem hér er til umr. Mér er það ljóst, að þetta er mál, sem verður að taka ákvarðanir um, áður en langt um líður, og er ekki vandalaust verk að leiða það til lykta. — Hv. þm. Str. var enn fremur að tala um, að ríkisstj. væri að gera einhverjar ráðstafanir til þess að hindra frjálsar siglingar til landsins. Ég hef ekki heyrt talað um þetta fyrr, a. m. k. bendir það ekki til slíks, að byrjaðar eru nú áætlunarferðir milli Íslands og Danmerkur, sem eru í höndum dansks skipafélags, og hef ég ekki heyrt talað um, að neinar óskir hefðu komið fram um að leggja hindrun í veg þessara siglinga, heldur þvert á móti, og er hér almenn ánægja yfir þeim.

Mér þykir vænt um að heyra, að hv. þm. Str. er óhræddur við þessa 25% hækkun, sem um getur í fyrri brtt. hv. fjhn., og vona ég, að hann gerist þá til að verja ríkisstj. fyrir ásökunum um, að hún eyðileggi smjörmarkað bænda, ef till. þessi kemst fram.

Út af því, sem hv. frsm. fjhn. sagði, vil ég láta þess getið, að það undrar mig, að afstaða mín skyldi vera honum vonbrigði, því að á þeim stutta fundi, sem ég átti með hv. fjhn. um þetta mál, færði ég fram hin sömu rök eins og ég gerði hér áðan, aðeins í færri orðum, en legg ekki mikla áherzlu á, að till. verði samþ.

Ég legg enga höfuðáherzlu á þetta atriði. Ég mundi geta sætt mig við það. Breyt. á 2. gr. skipta litlu máli. Síðan vísitalan var ákveðin, hefur kjötsalan aukizt. Þegar aukning hefur orðið á kjötskammtinum, hefur meira verið borgað niður en tekið er inn í vísitöluna. Allt öðru máli gegnir um smjörið, því að þar er ómögulegt að gizka á þetta. En smjörmagnið hefur ekki vaxið síðan vísitalan var ákveðin. Ríkisstj., taldi því ekki gengið á rétt almennings, þó að smjörskammturinn héldist óbreyttur.

Ef sá möguleiki væri fyrir hendi, að ríkisstj. keypti upp svo og svo mikið magn af saltfiski, væri eðlilegt að taka svo mikið magn inn í vísitöluna. Hv. þm. kom með dæmi um fráleita niðurstöðu. Aðeins mætti láta skammta dilkakjöt, ef stj. tæki inn í vísitöluna ákveðið magn. Ekkert vit væri í því. Meðalneyzla á kjöti er ekki eins mikil og neyzla ársins. Ef þessi leið væri farin, ætti skammturinn ekki að vera nema 50% af því, sem tekið er inn í vísitöluna. Þegar talað er um fölsun á vísitölunni, þá er það miðað við hagsmuni fólksins og að það sé ekki verr sett en áður en vísitalan var ákveðin. Þó að sérréttindi gildi, er fjarstæða að tala um fölsun á vísitölunni.