06.12.1945
Efri deild: 46. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (612)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Frsm. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Menn munu nú minnast þess, að ég flutti þrjár brtt. við 2. umr. þessa máls og tók aðalbrtt. og það, sem í sambandi við hana stóð, aftur til þessarar umr. Ástæðan til þess, að ég tók þessa till. mína aftur, var sú, að bæði hæstv. ráðh. og reyndar líka hv. frsm. meiri hl. n. tóku þessari till. minni vinsamlega og kváðust gjarnan vilja athuga hana nánar og mæltust til þess við mig beinlínis, að ég tæki hana aftur til 3. umr., til þess að athugun gæti farið fram á henni. Eins og hv. frsm. meiri hl. n. gat nú um, þá var þessi till. mín tekin lítillega til athugunar í n. í gær. En það kom fljótlega í ljós, að meiri hl. n. vildi þó ekki í raun og veru á þessu stigi sinna þessu máli neitt. Því að ég var tilbúinn til allrar samvinnu um það, m. a. til þess að draga brtt. alveg til baka, ef um það hefði verið samkomulag í n. og þar með að nokkru leyti fulltrúar allra flokka hefðu viljað beita sér fyrir því, að þáltill., sem gengi í svipaða átt, yrði samþ. En það var, sem sagt, ekki á þessu stigi nein viðleitni til þess að ganga til móts við mínar skoðanir um þetta efni. Og þess vegna er nú ekki um annað að ræða en að þessar brtt., sem ég tók aftur við 2. umr., gangi undir atkv. og verði að fara sem fara vill um það, hvernig sú afgreiðsla fer.

Ég ætlaði við 2. umr. að svara ýmsu því sem þá hafði fram komið í umr. og beint hafði verið að mér sérstaklega. En þeirri umr. var slitið svo hastarlega, að ég komst ekki að með þessi svör, þó að ég að vísu hefði þá kvatt mér hljóðs. Það er hvort tveggja, að það er nú liðinn nokkuð langur tími síðan þetta var og ég hef gleymt ýmsu, sem kom þá fram, enda sé ég ekki ástæðu til að rekja hér öll atriði, sem fram komu þá í ræðum manna. En á örfá atriði vil ég þó minnast, sem beinlínis komu því. við, sem sagt var um þessar brtt. mínar.

Hæstv. landbrh. sagði, að nefndarskipun sú, sem ég sting upp á í brtt., stæði ekki í sambandi við þetta mál. Hv. 1. þm. Reykv. tók undir þetta, og í því sambandi talaði hann um það, að þetta væri lítið frv., en mínar till. aftur stórmál, og það ætti ekki á nokkurn hátt heima að bæta þessu stóra máli við lítið frv., eða þannig skildi ég hans orð. Satt er það, að frv. þetta er ekki í mörgum greinum. Það verður ekki margar blaðsíður í þingtíðindunum. En hversu mál eða frv. er lítið eða stórt, fer ekki eingöngu eftir lengd þess á pappírnum. Ég álít, að þetta frv. sé alls ekki svo lítið. Það t. d. heimilar nokkurra millj. kr. greiðslur úr ríkissjóði, o. s. frv. Það er alls ekki lítið frv., eins og hv. 1. þm. Reykv. vildi þó telja það. Og hvað sem öðru líður um það, þá er þetta frv. sjálft dýrtíðarmálið. Það eru þær einu ráðstafanir um stöðvun dýrtíðarinnar, sem stungið hefur verið upp á af hæstv. ríkisstj. á þessu þingi. Mér er ómögulegt að sjá annað en að mínar till., sem ganga í þá átt að reyna að finna varanlega lausn á þessu máli, standi í beinu sambandi við þessar ráðstafanir, þó að þær séu að vísu miðaðar við eitt ár nú, eins og frv. liggur fyrir. Og hvað það snertir, ef slíka nefnd ætti að skipa, að það þyrfti endilega að vera eftir þál., eins og hv. frsm. var að tala um, þá vil ég benda á, að það er fordæmi fyrir því, að einmitt í l., sem fjölluðu um dýrtíðina, var ákveðið að skipa n., ekki beinlínis með jafnvíðtækt verkefni og sú n. á að hafa, sem ég sting upp á, en þó mjög þýðingarmikla n., sex manna n. Það var beinlínis í dýrtíðarl. þá ákveðið, að hana skyldi skipa. Og ég álít að sumu leyti betra, að hafa þetta í l., og alveg sérstaklega, ef a-liður 1. brtt. minnar yrði samþ., um það að hafa tímann styttri, sem þessi l. gilda, sem hér liggur fyrir frv. um, og ætla þessari n. ákveðinn frest til þess að skila áliti. Þá álít ég, að það mundi leggja meiri alvöru í starf þessarar n. og vera henni meiri hvöt, ef þetta væri beinlínis ákveðið í l., heldur en þó að samþ. væri þál. um nefndarskipun í því formi, sem það er venjulega gert.

Hv. 1. þm. Reykv. var að tala um það við 2. umr. út af þessu máli, að samningar þyrftu að fara fram milli flokka og stétta, að mér skildist, áður en slík n. væri skipuð. Ég veit nú ekki til, að neinir slíkir samningar séu á döfinni eða ráðgerðir. Og ég sé ekki annað, ef úr því á einhvern tíma að verða, en að einhver slík viðtöl fari fram um málið, til þess að reyna að spyrna fótum við, áður en það er orðið of seint, þá verði einhvern tíma og af einhverjum að hefjast handa. Og fyrir mér vakti það, að einmitt þessi n. ætti að hefja þessa samninga og hafa milligöngu um það. Mér dettur ekki í hug, að þessi 5 manna n. ráði málinu til lykta ein út af fyrir sig og án samræðna við aðra menn. Ég sting upp á því, að í n. verði einn nefndarmaður úr hverjum þingflokki. Og mér dettur ekki annað í hug en að hver nefndarmaður hafi samráð við sinn flokk og þær stéttir, sem einmitt styðja þann flokk. Upp úr þessu gætu komið þeir allsherjar samningar stétta og flokka, sem þörf er á, til þess að hið íslenzka þjóðfélag nái nokkrum tökum á dýrtíðinni, svo að hún gangi því ekki með öllu yfir höfuð.

Hv. 1. þm. Reykv., form fjhn., lét orð falla um það við 2. umr., að hann hefði ekki vitað annað en að n. væri óklofin um málið. Hann vissi þó vel um þessa brtt. mína. Ég hafði hreyft henni á nefndarfundi áður en frá málinu var gengið, þó að því væri lítið sinnt af mínum meðnefndarmönnum. Svo var ég ekki viðstaddur, þegar málið var afgreitt í n., og ég gerði grein fyrir ástæðunum til þess við 2. umr., að ég var ekki viðstaddur, sem var af því, að mér var ekki boðaður fundurinn. Einhvern veginn varð ég að koma þessari brtt. á framfæri. E. t. v. hefði verið hægt að láta nægja að bera fram brtt., en ekki semja nál: En til þess að koma mínum till. á framfæri, bar ég fram brtt. mínar. Og vegna þess að ég tók ekki þátt í afgreiðslu málsins, skrifaði ég sérstakt nál. Og þó að ég skrifaði sérstakt nál., þá er mér ekki vel ljóst, hvort n. er klofin eða óklofin. Ég er ekki viss um, að beinlínis sé hægt að tala um klofna n., þó að nefndarmaður, sem ekki á kost á að taka þátt í afgreiðslu máls í n., geri sérstaklega grein fyrir sinni afstöðu. En það er algert aukaatriði, hvort n. í þessu máli er klofin eða óklofin. En hitt kannast ég ekki við, ef hv. form. n. vill láta líta svo út sem ég hefði komið að einhverju leyti aftan að mínum meðnefndarmönnum. Það var alls ekki. Ég var búinn að hreyfa þessu máli í n. Hv. form. n. gat um það, að hann hefði ráðgert við mig og hv. þm. Dal. að halda fund þennan dag í n., sem n. afgreiddi málið. Það er satt, hann gerði þetta við okkur tvo, en ekki ákveðið, en ég beið hér í húsinu töluverðan tíma. Svo skildist mér, að hætt hefði verið við þann fund og fór ég því heim. Og svo var ég ekki boðaður á nefndarfundinn, af því að síminn í herbergi mínu á Hótel Borg var bilaður. — Ég get um þetta út af ummælum, sem hv. form. fjhn. lét falla hér við 2. umr. En ég vil þó taka fram í sambandi við þennan ráðgerða fund, að hv. form. n. tók það einatt fram, þegar hann talaði við mig um þennan fund, að hann yrði einungis haldinn til þess að afgreiða tvö skattamál. Ég spurði um það, hvort þetta mál, sem hér liggur fyrir, yrði tekið fyrir á fundinum, og því neitaði hann. Í þessu liggur þó engin ádeila frá mér út af því, að ég var ekki boðaður á fundinn, því að það lágu til þess þær ástæður, sem ég greindi, en símavarzlan hér í þinginu var beðin að hringja á mig. En úr því að á þetta er minnzt, vil ég, að það rétta komi í ljós.

Þegar ég við 2. umr. ræddi um fyrri brtt. meiri hl. fjhn. á þskj. 167, þá svaraði hæstv. ráðh. því og hv. frsm. n. einnig, og sögðu þeir báðir, að ég hefði misskilið þessa brtt. Og hæstv. ráðh. sagði í því sambandi, að undarlegt væri, ef ég vildi samþ. þessa brtt., vegna þess að þá gæti farið svo, ef hún yrði samþ., að þá væri gefið undir fótinn með það, að flutt væri sem mest inn af útlendu smjöri, og það væri ekki bændum hagræði, sem framleiddu smjör, að keppa við útlent smjör á markaðinum. Það er nú komið á daginn, svo að ekki verður um villzt, að það er ekki ég, sem hef misskilið þessa brtt. meiri hl. n., heldur eru það tillögumennirnir sjálfir, sem till. hafa misskilið, og hæstv. ráðh. Og það sést á því, að nú bera þeir fram aðra brtt. um sama efni, þar sem fram kemur, hvað fyrir þeim vakir, sem ekki kom fram í hinum fyrri brtt. þeirra. Fyrir þeim vakir það, að ef það er til nægilegt af útlendu smjöri á markaðinum með lágu verði, þá skuli láta verð þess gilda í útreikningi á vísitölunni, en ekki verðið á íslenzka smjörinu. En í brtt., eins og hún var, þá var skilyrði þess, að lægra verðið mætti telja í vísitölunni, að niðurgreiðsla hefði farið fram á þeirri vöru, sem um er að ræða. Þetta getur ekki átt við annað en innlenda framleiðslu. Því að það hefur ekki verið venja a. m. k. og sjálfsagt verður ekki að greiða niður verð á t. d. útlendu smjöri. Ég held því, að það sé orðið alveg augljóst mál, að misskilningurinn hafi verið þeirra megin, en ekki mín megin.

Nú er það mín skoðun, eins og kemur fram í mínu nál. og ég lét líka í ljós við 2. umr., að tvenns konar verð á sömu vöru sé óheppilegt, einkum vegna markaðsmöguleika þeirrar vöru, sem þarf þá að selja með dýrara verðinu. Og ég áleit rétt að samþ. brtt. eins og hún lá fyrir, vegna þess að hún gerði 2. málsgr. 1. gr. frv. í raun og veru að enga, en sú málsgr. gerði ráð fyrir tvenns konar verði á vörunni. M. ö. o., ef þessi brtt. n., eins og hún í fyrstu var borin fram, hefði verið samþ., þá hefði orðið að greiða niður íslenzka smjörið eða verðjafna útlenda og íslenzka smjörið þannig að selja útlenda smjörið því verði, að af því mætti taka nokkurn hluta til þess að verðbæta aftur innlenda smjörið. Ég áleit því ákvæði þeirrar till. framleiðendum mjög hagkvæm, og lýsti því, að ég væri henni meðmæltur. — Ég tók ekki vel eftir, hvort hv. frsm. lýsti því, hvort þessi brtt. væri enn tekin aftur, en ég sé á dagskránni, að hún hefur legið fyrir til umr. og afgreiðslu, þ. e. brtt. 167,1, sem hér liggur fyrir samkv. dagskránni. (Forseti: Brtt. 305 líka, sem kemur í staðinn fyrir hana). Að vísu, en ég tók ekki eftir, hvort hv. frsm. lýsti, að brtt. 167,1 væri tekin aftur. (Forseti: Það hlýtur að vera ætlun nefndarinnar). En fyrst till. er hér á dagskránni, er vitanlega heimilt að taka hana upp. Og ég hef helzt hugsað mér það, þó að ég sé ekki alveg staðráðinn í því enn. En ég bara bendi á, að það hlýtur samkv. þingsköpum að vera leyfilegt að taka hana upp, þar sem til hennar er vísað í dagskrá fundarins.

Hv. form. fjhn., 1. þm. Reykv., gat þess til við 2. umr. málsins, að ég hefði borið mínar brtt. fram til þess, að þær skyldu falla. Ég neita þessu alveg eindregið og þykist hafa sýnt, með því að ég tók þær aftur til 3. umr., að svo er ekki. Ég get að vísu búizt við því, að þessar brtt. falli nú. En þó að maður þykist sjá það fyrir á seinasta stigi, að brtt. falli, þá tel ég ekki ástæðu til þess að taka þær aftur fyrir því, og það hefur ekki verið venja þm. Það er ekkert um það að segja. Það verða um þetta atkv. að ganga. En ég hafði vonazt eftir því, að þessu máli yrði á einhvern hátt sinnt, og ég var reiðubúinn til allra samninga um það, í hvaða formi því yrði bezt komið fyrir. En þó að þessar brtt. mínar kunni að falla nú, þá liggur nú fyrir í sameinuðu þingi þáltill., sem fer ekki í ólíka átt og þessar brtt. Það mætti nú e. t. v. ná svipuðu takmarki með því að breyta henni. Og ef þessi vinsamlegu ummæli um mína brtt. hafa verið alvarlega meint frá hæstv. ráðh. o. fl. við 2. umr., þá eru náttúrlega aðrir möguleikar opnir, þó að atkv. gangi nú um brtt. mínar, til þess að koma með öðrum hætti en eftir þessum mínum brtt. málinu á rekspöl aftur, t. d. í sambandi við þá þáltill., sem fyrir liggur. Og verði það gert og verði samkomulag um það, þá verður áreiðanlega ekkert um það deilt, þó að þessar brtt. hafi nú verið bornar fram og hafi fallið. En hvort sem mínar brtt. verða samþ. eða felldar og hvort sem þetta umtal leiðir þá til einhverra annarra aðgerða eða ekki, þá er ég sannfærður um það, að sá tími er ekki langt undan, að allir eða hér um bil allir sjá það, að það verður að taka upp baráttu og aðgerðir til þess a. m. k. að þjóðfélagið nái valdi á dýrtíðinni, að svo miklu leyti sem hún er á valdi okkar Íslendinga sjálfra. Það kemur sá tími, að ekki verður annað fært en að taka upp þá samvinnu á milli flokka og stétta um þetta mál, sem e. t. v. verður hafnað nú, að tilraunir verði gerðar til.