26.02.1946
Neðri deild: 75. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (631)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Eysteinn Jónsson:

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur að innihalda þau úrræði, sem ríkisstj. hefur í einu mesta vandamáli, sem til meðferðar hefur verið í langan tíma. Er því ástæða, ekki sízt eins og nú er ástatt, að fara þar um nokkrum orðum áður en frv. fer í nefnd.

Þegar núverandi ríkisstj. kom, setti hún sér það markmið að stöðva dýrtíðina. Ýmsir sáu þó missmíð á þessu þegar í byrjun. Það varð ágreiningur um þessi mál. Þeir, sem ekki vildu taka þátt í myndun ríkisstj., vildu strax gera ráðstafanir til að stöðva dýrtíðina, en hinir, sem sæti tóku í ríkisstj., létu sér nægja orðin tóm. Ríkisstj. notaði sér tilboð frá landb. þannig, að hún lét verða stöðvun á verði landbúnaðarafurða, en hækkunin hélt áfram sums staðar annars staðar, og hélt ríkisstj. því fram, að það væri til samræmingar og mundi ekki hafa áhrif til hækkunar á dýrtíðina. Þetta var auðvitað tóm vitleysa, og reyndist hið gagnstæða, þegar þessi gamli leikur hófst á ný. Þegar gera átti skil þessum málum, kom í ljós, að kauphækkunaraldan, sem ríkisstj. kom á stað; hafði í för með sér hækkun á vísitölunni. Stóð nú ríkisstj. síðastliðið haust frammi fyrir þessu, og var það hennar að finna úrræði. Auðheyrt var þá, að skelkur var í herbúðum ríkisstj., og komu fram játningar frá stjórnarflokkunum, þess efnis, að aðalatvinnuvegur landsins þyldi ekki meiri dýrtíð.

Fjmrh. gefur svo sjálfur þá yfirlýsingu í lok Alþ. 1945, að sú stefna, sem farin væri, leiddi til glötunar og snúa yrði við. En það fór eins og við var að búast. Það varð minna úr framkvæmdum. Stjórnin kiknaði alveg og hélt áfram sama ráðaleysisfálminu og bætti við nýjum kákráðstöfunum, sem vakið hafa mikla gremju. Þessar ráðstafanir voru, að ríkisstj. lækkar einhliða verð landbúnaðarafurða, þvert ofan í vilja bænda, og skipaði búnaðarráð með gerræðisfullum aðferðum og fól því að ákveða verð landbúnaðarafurða. Og svo, til þess að dýrtíðin sæist ekki á vísitölu, var það tekið til bragðs að selja vöruna með tvöföldu verði og var þannig landsmönnum skipt í 2 hópa, þá sem þoldu dýrtíðina, en hins vegar þeir, sem ekki voru taldir þola hana eins vel, áttu að fá uppbætur. Þrátt fyrir þetta hækkaði vísitalan og hélt ríkisstj. sér uppi frá mánuði til mánaðar með því að borga niður innlendar afurðir. M. ö. o., ríkisstj. hafði ekki vilja eða skorti skilning á, að breyta þurfti til. Þegar þetta frv. var lagt fyrir þingið og farið var fram á að halda áfram þessum niðurgreiðslum, bentu framsóknarmenn á, að ekki væri hægt að halda þessu áfram og að í þessu fælist engin lausn. Þeir gerðu það að tillögu, að sett yrði nefnd frá flokkunum, sem tæki málið til meðferðar og gerði till. um niðurfærslu dýrtíðarinnar og hvernig hægt væri að framkvæma allsherjar eignaframtal í landinu, svo sem í öðrum löndum, og rannsaka vangoldin gjöld til ríkisins. Það virtist koma hik á ráðherra, er þessi till. var flutt, og var eins og hann langaði til að vera henni meðmæltur. En ekki var Adam lengi í Paradís. Stuðningsmenn stjórnarinnar í Ed. ákváðu að drepa till. og felldu hana, fannst ástæðulaust að breyta til. Sunginn var áfram sami söngurinn, allt var í lagi, dýrtíðin hæfileg og engin ástæða til að snúa við. Svona stóðu málin er þm. fóru í páskaleyfi. En á meðan gerðust ýmsir óþægilegir hlutir. Það kom í ljós, að smáútvegurinn var orðinn svo aðþrengdur, að menn treystust ekki til að fara á vertíð nema hærra fiskverð fengist. Hvað gerði nú ríkisstjórnin? Fór hún að vinna að því að lækka dýrtíðina? Nei, hún fór áfram sömu leiðina, bætti við nýjum kákráðstöfunum og hækkaði fiskverðið um 5 aura, úr 45 aurum í 50 aura, og sagðist bera ábyrgð á 5 aurunum. Lofaði ríkisstj. að kaupa 5000 tonn af saltfiski við hærra verði en hægt er að selja saltfisk á, skv. upplýsingum atvmrh. Þessu hefur aðalblað ríkisstj. lýst þannig, að ríkisstj. hafi með þessu gert bráðabirgðaráðstafanir til að lækka dýrtíðina. Hér var vitanlega ekki um nema tvennt að ræða. Annaðhvort að snúa nú við og gera ráðstafanir til að lækka dýrtíðina, en það gerði ríkisstj. ekki, eða þá þessi leið, sem hún fór og er óhæf. Hæstv. ríkisstj. finnur þetta nú sennilega, og stafar hik hennar líklega af því. — Hvernig stendur á því, að hún hefur ekki enn lagt fyrir þetta þing till. um uppfyllingu loforðanna um að ábyrgjast 5 aurana? Hún hefur ekki leitað samþykkis fyrir því hjá þm. Finnur ríkisstj., hve óþægilegt það muni vera? Finnur hún það, að þá verður erfitt að segja, að dýrtíðin sé mátuleg, um leið og hún gerir slíkar ráðstafanir? Nú skyldi maður halda, að komið væri nóg og lengra væri ekki hægt að fara. Talsvert stór hluti af fiskiflotanum er ekki gerður út, vegna þess að ekki er hægt að fá sjómenn á flotann vegna dýrtíðarinnar.

Við munum eftir því, að ráðh. Sjálfstfl. hafa varið þátttöku sína í ríkisstj. með kommúnistum með því, að þeir væru svo sterkir, að það yrði að stjórna með þeim, og í öðru lagi, að kommúnistar mundu þá sýna aukna ábyrgðartilfinningu og mundu þeir taka þátt í að lagfæra, er nauðsyn bæri til. Nú liggur augljóst fyrir, í hversu stórkostlegan hnút öll atvinnumál þjóðarinnar er að reka vegna dýrtíðarinnar, og þá skeður það, að mennirnir, sem áttu að verða bjargvættir og var treyst með því að búa þá undir að gera gagn, þá skeður það, að þeir skera upp herör, ekki til lækkunar á dýrtíðinni, heldur til að hækka hana, auka verðbólguna með nýjum kauphækkunarkröfum og reisa nýja öldu dýrtíðar í landinu. Það gerist það sama og áður, og ekki er sjáanlegt annað en að aðrir, sem taka þátt í ríkisstj., ætli að vera samsekir um að reisa nýja verðbólgu í landinu, hvað sem því nú veldur, sennilega er það margt, e. t. v. metnaður þeirra manna, sem hafa bundið nöfn sín í þessu fáránlega samstarfi, um að halda því áfram. Því að ekki má með nokkru móti spilla stjórnarsamvinnunni, því að þá verður maddömu Framsókn skemmt. Hér koma fram óheilindi og sundurgraftar starfsemi. Það er ekki einu sinni reynt að halda því fram, að þetta sé nauðsynlegt, því er ekki lengur borið við. Nei, samstarfið verður að halda áfram, því að annars er þeim skemmt, sem hafa gagnrýnt það.

Það er augljóst mál, að það, sem nú er að gerast, leiðir af sér nýja verðbólguöldu, það hlýtur mönnum að vera ljóst. En aðeins eitt vakir fyrir ríkisstj., og það er að reyna að hanga, það er eina samkomulagið innan ríkisstjórnarinnar. Lítum nú á, hvernig ástatt er í landinu. Stjórnin hefur sagt, að ekki væri nauðsynlegt að lækka dýrtíðina, en á sama tíma hvetur hún menn til að ráðast í framkvæmdir og veitir til þess stórlán. Hugsunarhátturinn er að leggja fé í framkvæmdir meðan allt er á hápunktinum. Jæja. Svo, þegar menn eru búnir að framkvæma, þá eiga menn að standa skil á skuldunum. Aldrei hefur verið heil brú í þessu. Framsóknarmenn hafa viljað skapa fastan grundvöll, það átti að byrja á því að lækka dýrtíðina, en ekki, eins og ríkisstj., að hækka allt. — Það eru nú alveg síðustu forvöð að hefjast handa, ef hindra á fleiri óhöpp. Þetta frv. er aðeins innsigli á kák ríkisstjórnarinnar. Í stað þess að afgr. þetta frv., ætti að hefjast handa um undirbúning niðurfærslu dýrtíðarinnar. Ætti nú þegar að setja hæfustu menn til að undirbúa allsherjareignaframtal til að byggja á fjárhagsgrundvöll.

Eitt er og enn, og það er fjárlagaafgreiðslan. Fjárl. eru afgr. með 30 millj. kr. greiðsluhalla og nú rignir yfir nýjum útgjöldum úr ríkissjóði, ríkisábyrgð, sem mun nema um 100 millj. kr. Þetta sýnir glögglega öngþveitið, og eitt er gleggst, sem sýnir ráðaleysi ríkisstj., og það er að hún hefur gefizt upp við fjáröflun til nýsköpunar. Almenningur vill ekki leggja fá í nýsköpun, vegna framkomu ríkisstj. Í rottuholurnar hefur ekki verið farið enn. Stjórnin þorir ekki að bjóða út almenna lántöku, því að hún heldur, að almenningur vilji ekki taka þátt í því. Alls staðar er sama upplausnin og sama úrræðaleysið, því að innan ríkisstj. ríkir öngþveiti og ósamkomulag um allt, nema það, að hún verði að sitja áfram. Það er eina samkomulagið. Þess vegna flýtur allt áfram í sama sukkinu, hvar sem litið er.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta. Ég sé ekki annað en að það eina, sem hægt sé að gera og vit væri í, sé að breyta nú um stefnu, reyna að gera hreint upp og fá grundvöll undir heiðarlega fjármálastefnu, sem menn fengju traust á, og þetta verður að gerast nú þegar. .... Eina ástæðan fyrir þessu er sú, að kosningar eru framundan. Það má þykja skiljanlegt, að stjórnarliðum finnist hart að snúa við og viðurkenna, hvernig komið er, en slíkur hugsunarháttur er ekki leyfilegur. Ég vil benda þeim mönnum, sem þannig hugsa, á þær geigvænlegu afleiðingar, sem það getur haft í för með sér, ef þessi leikur verður leikinn fram yfir næstu kosningar, en lengur er ekki unnt að sitja í súpunni. — Ég vil beina því til þeirra, sem nú orðið sjá, hvert komið er og hvert stefnir, að þeim ber skylda til að stinga nú við fótum og láta staðar numið.