26.02.1946
Neðri deild: 75. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Ég verð að segja það, að ég skil ekki, hvað það er í þessu frv., sem gefur hv. 2. þm. S.-M. tilefni til að halda þá ræðu, sem hann flutti nú, nema ef vera skyldi sú ástæða, að hann notar hvert tækifæri til að breiða sig út yfir dýrtíðarbölið, sem hann nefnir svo.

Þetta frv. gengur mjög í sömu átt og l., sem hafa gilt undanfarið. Það er annað frv., sem nú liggur fyrir Alþ., sem frekar gæfi tilefni til að ræða þau atriði, sem hv. þm. gat um. En þó vil ég benda á, að það lægi nær fyrir þennan hv. þm. að minnast þess, að á meðan hans flokkur fór með fjármálastjórn, óx dýrtíðin miklum mun hraðar en í tíð núverandi stjórnar. Mér virðist harla furðulegt að heyra slíkan söng af vörum þessa hv. þm. — Þá væri fróðlegt, ef hann vildi benda á einhver lönd, þar sem dýrtíðin hefur ekki vaxið undanfarið, eða hvort hann veit til, að kaupgjald hafi nokkurs staðar lækkað. Þegar hv. þm. hefur svarað þessu, skal ég ræða við hann um þessi mál. Þm. sagði, að kaupgjald hefði yfirleitt hækkað í tíð núverandi ríkisstj., en honum er fullkunnugt um, að sú hækkun, sem varð, var einungis til samræmis og var um það samið áður. — Þá heldur hann því fram, að verð á landbúnaðarvörum hafi lækkað, en þó veit hann, að sú kauphækkun, sem hann vítir svo mjög, skapaðist að nokkru af því, að landbúnaðarvörur hækkuðu í verði á síðastliðnu hausti. Hann lét þess getið, að ég hefði fyrir ári síðan sagt, að breyting yrði að verða á með niðurgreiðslur vegna dýrtíðarinnar. Ég er enn þá sömu skoðunar. En það er ekki rétt hjá þessum hv. þm., að ekkert hafi verið gert til þess að lækka niðurgreiðslurnar. Þetta er ekki rétt, eins og hv. þm. veit. Upphæð sú, sem ríkissjóður ver til niðurgreiðslu, er miklum mun lægri en áður hefur verið, þótt ég geti fallizt á, að meira hefði þurft að gera, en ef haldið verður áfram eins og nú er byrjað, þá verður þess ekki mjög langt að bíða, að niðurgreiðslurnar hverfi. Annars virðist mér þýðingarlaust að ræða við hv. 2. þm. S.-M. um það, hvað væri ákjósanlegast. Það er augljóst, að það er þýðingarlaust að tala um niðurfærslu dýrtíðarinnar á meðan flestar stéttir óska ekki eftir lækkun á dýrtíðinni.

Þá drap hv. þm. á þá ábyrgð, sem ríkið tekur á sig með því að ábyrgjast greiðslu til útvegsins fyrir útfluttar afurðir. Það er rétt, að ríkið tekur á sig mikla ábyrgð með þessu, en það er ekki svo auðvelt að neita um slíka ábyrgð, einkum þegar þess er gætt, að hliðstæð ábyrgð hefur áður verið veitt vegna útfluttra landbúnaðarafurða.

Ég sé ekki ástæðu til að taka hér upp umr. um afgreiðslu fjárlaganna. Ég ætla ekki að mæla afgreiðslu þeirra bót, en um það verður ekki breytt héðan af, og hv. 2. þm. S.-M. átti sinn þátt í afgreiðslu þeirra. Ég meira að segja efast um, að aðrir hv. þm. hafi greitt atkv. með fleiri hækkunartill. en hann, og fer því ekki vel á, að hann tali um fjárglæfra í þessu sambandi. Þessi hv. þm. fór um 6 ára skeið með fjárreiður ríkissjóðs, og þótt afgreiðsla síðustu fjárl. væri ekki ákjósanleg, þá mun þó hagur ríkissjóðs vera betri nú en þegar hann skilaði af sér.

Í hinni löngu ræðu hv. 2. þm. S.-M. kom ekki fram nein gagnrýni á efni þessa frv. Ég hef áður lýst yfir því, að ég tel þessa niðurgreiðsluleið neyðarúrræði, illa nauðsyn. Ég hef jafnframt drepið á, að ég hef leitazt við að snúa af þessarf braut, og ef árlega vinnst eins á eins og á þessu ári, verður þess ekki langt að bíða, að þetta fyrirbrigði hverfi að fullu, og í leiðinni að því marki er ég fús til að hafa samvinnu við hv. 2. þm. S.-M.