25.03.1946
Neðri deild: 94. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Frsm. minni hl (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er aðallega um heimild fyrir ríkisstj. að halda niðri dýrtíðarvísitölu með fjárgreiðslum úr ríkissjóði. Þetta er nú nokkuð þekkt, vegna þess að slík heimild hefur verið hér í l. um nokkur undanfarin ár, og hefur ríkissjóður lagt fram allháar fjárhæðir síðast liðin ár, einmitt í þessu skyni. Fyrrv. hæstv. fjmrh. upplýsti einhvern tíma, að 1943 hefði ríkissjóður varið um 10 millj. kr. til þess að halda niðri dýrtíðarvísitölunni. Núverandi hæstv. fjmrh. hefur gefið þær upplýsingar, í byrjun þessa þings eða snemma á því, að 1944 hafi þessar greiðslur, til þess að halda niðri dýrtíðarvísitölunni, verið 5 millj. kr. hærri en árið áður, eða um 15 millj. króna. En eftir því, sem ég hef fengið upplýst, mun ekki langt frá því, að s. l. ár, árið 1945, hafi þessar greiðslur verið um 25 millj. króna. Þannig hafa þessi útgjöld ríkissjóðs farið síhækkandi síðast liðin ár. Ég skal taka fram, að fyrir utan þessar upphæðir eru svo útflutningsuppbætur, sem ríkissjóður hefur greitt þessi sömu ár og eru vitanlega bein afleiðing af dýrtíðinni í landinu. Ég held mér sé óhætt að fullyrða, að allir þeir, sem stóðu að því að setja þessa löggjöf upphaflega, að veita ríkisstj. þessa niðurgreiðsluheimild, hafi gert ráð fyrir, að þetta yrði styrjaldarráðstöfun, en ekki til frambúðar. Það mun áreiðanlega hafa verið tilætlunin, þegar þetta var fyrst leitt í l. á stríðsárunum, að þetta fyrirkomulag hyrfi sem fyrst að stríðinu loknu, og ég tel það liggja í augum uppi, að það sé ekki hægt að halda áfram á þessari braut til lengdar. Það er ekki hægt fyrir ríkissjóð að halda því áfram að verja síhækkandi fjárhæðum í þessu skyni, og ástand aðalatvinnuveganna í landinu er líka þannig, að það er ekki hægt að halda áfram á þessari sömu braut. Það mundi kosta meiri framlög úr ríkissjóði en líkur eru til, að hann fengi undir risið. Það er þm. ljóst, að ástandið var þannig víð síðustu áramót, að þá var yfirvofandi stöðvun á bátaflotanum, ef ekki. væru gerðar sérstakar ráðstafanir, og tók þá stjórnin þann kostinn að veita ríkissjóðsábyrgð, sem ekki er hægt að sjá, hvaða útgjöld kann að hafa í för með sér. Það, sem hér þarf að gera, er að gera raunverulegar dýrtíðarráðstafanir, svo að ríkissjóður geti losnað við þessar byrðar sem fyrst, og ég tel, að það hafi verið vanrækt of lengi að undirbúa slíkar varanlegar ráðstafanir. Tel ég það illa farið, að ekki hefur verið sinnt þeim till., sem áður hafa komið fram um það að undirbúa slíkar ráðstafanir, en ég tel, að það sé ekki hægt að gera slíkar raunverulegar dýrtíðarráðstafanir án þess, að þær verði rækilega undirbúnar, og er ég þar allt annarrar skoðunar en hv. frsm. meiri hl. fjhn. virðist vera. Það er ekki fullnægjandi, eða eðlileg lausn á þessu máli, að lækka afurðaverðið innanlands og kaupgjaldið án þess að annað fylgi með. Þaðan af síður er viðunandi, að ráðizt sé gegn einni stétt og henni skammtað minna en hinum. Hér þarf að gera réttlátar ráðstafanir til lækkunar, með sanngjarnri þátttöku allra stétta. Þetta þarf að gera til þess að koma í veg fyrir frekara verðfall peninganna en orðið er og byggja upp heilbrigðan atvinnurekstur í landinu, án slíkra ráðstafana verður það ekki gert. Um leið og afurðaverðið og kaupgjaldið verður lækkað að krónutölu, þarf að gera ráðstafanir til þess að lækka annað, svo sem verzlunarkostnað og farmgjöldin, bæði af vörum að og frá landinu, en þessi farmgjöld eiga mikinn þátt í dýrtíðinni og þau eru miklum mun hærri hér en annars staðar, svo að nú geta erlendir skipaeigendur áreiðanlega rakað saman gróða á siglingum hingað í skjóli þeirrar dýrtíðar, sem er hér í landinu. Byggingarkostnaðurinn þarf að lækka, sem er orðinn óbærilegur, m. a. vegna þess mikla gróða, sem einstaklingar og félög taka í því sambandi. Það er talið, að nú sé ekki hægt að fá nýja 3 herbergja íbúð fyrir minna en 90–100 þús. kr., og ég hef heyrt, að húsaleigunefnd meti ársleigu fyrir slíka íbúð á 10 þús. krónur. Má benda á það, að stöðugt fjölgar þeim, sem þurfa að búa við þessa nýsköpunarhúsaleigu, sem ekki er nema að litlu leyti tekin með í útreikning vísitölunnar og kemur þess vegna mjög hart niður á þeim, sem þurfa við þetta að búa. Er sama tíma og búið er að skrúfa upp byggingarkostnaðinn og þar með verð á nýjum húsum, er haldið uppi þvingunarráðstöfunum með húsaleigulögum, sem upphaflega voru hugsuð sem styrjaldarfyrirbrigði, og þessar ráðstafanir koma mjög illa við þá mörgu húseigendur, sem áttu hús, er þeir leigðu út, áður en lögin voru sett. Þetta ástand í húsnæðismálunum má ekki haldast lengur, en það er aðeins eitt dæmi af mörgum, sem mætti taka um afleiðingar dýrtíðarinnar í landinu. — Þá þarf einnig að láta fara fram allsherjar eignaskráningu, til þess að unnt sé að sjá með vissu, hverjir hafa grætt stórar fjárhæðir síðustu ár, og síðan þarf að leggja hæfilega skatta á þennan gróða, því að enginn vafi er á því, að töluvert af honum hefur sloppið við þá skatta sem á að greiða samkv. lögum. Einnig hef ég áður sagt, að ég tel, að ekki sé hægt að gera þessar nauðsynlegu ráðstafanir án margra athugana og undirbúnings. Það er ekki á færi einnar þingnefndar, hvorki fjhn. né annarra n., að leggja þá vinnu í þetta, sem þarf að gera, og þess vegna hef ég leyft mér að leggja hér fram í mínu nál. á þskj. 591 till. um sérstaka nefndarskipun, til þess að athuga þetta stóra mál. Hv. frsm, meiri hl. tók að nokkru af mér ómakið með því að lesa þessa till. upp. Ég vil þó fara um hana nokkrum orðum. — Ég legg þar til, að skipuð verði 5 manna nefnd til að athuga þetta mál, og verði hún þannig skipuð að hver flokkanna tilnefni einn mann, en hagstofustjóri sé sjálfkjörinn og formaður nefndarinnar. Verkefni þessarar n. er að athuga og gera tillögur um lækkun dýrtíðar í landinu, með þátttöku allra þjóðfélagsstétta, meðal annars með lækkun dýrtíðar í landinu, með þátttöku allra þjóðfélagsstétta, meðal annars með lækkun á verði innlendra neyzluvara, lækkun kaupgjalds, verzlunarkostnaðar, farmgjalda, byggingarkostnaðar og iðnaðarvara. Þá er og ætlazt til að n. geri tillögur um sérstakt allsherjar eignaframtal í landinu og álagningu skatta á stórgróða, sem orðið hefur hjá skattskyldum aðilum á stríðsárunum. Hagstofa Íslands mun nú starfa að því eftir fyrirmælum ríkisstj. að gera yfirlit um framleiðendatekjur nú síðustu ár. Var það samþ. með þál. 5. okt. 1944. Samkv. þeirri ályktun áttu þessir útreikningar í fyrsta sinn að liggja fyrir í byrjun október 1945. En þetta hefur dregizt, þannig að engir slíkir útreikningar hafa verið birtir enn. En eftir því, sem ég hef frétt, er þess að vænta, áður en langt um líður, að fyrstu skýrslurnar um þetta komi frá hagstofunni, og í þessari þál., sem ég nefndi, að samþ. var hér á Alþ., var gert ráð fyrir árlegum útreikningum á framleiðendatekjum. — Þá legg ég til, að þessi n. geri einnig tillögur um sérstakt framtal eigna í landinu og álagningu skatta á stórgróða, eins og ég þegar hef vikið að. Hér er og gert ráð fyrir, að n. þurfi e. t. v. að fá sér sérfróða aðstoðarmenn, og er lagt til í till., að hún hafi heimild til þess. — Að síðustu er lagt til, að n. skili áliti sínu fyrir 1. ágúst n. k. Eg skal viðurkenna, að æskilegra hefði verið, að þessu gæti orðið lokið fyrr. Eins og ég hef getið um, þá komu hér fram fyrir þingið í Ed. till., sem gengu í þessa sömu átt, og tel ég illa farið, að þær skyldu ekki ná samþykki þá þegar. Ég hef ekki, þó að ég telji, að þessi athugun hafi dregizt allt of lengi, séð mér fært að leggja til, að n. skili áliti sínu og till. fyrr en þetta, vegna þess að mér er ljóst, að hér er um stórt vandamál að ræða, sem verður vitanlega stöðugt erfiðara viðfangs og flóknara, eftir því sem lengra liður án þess, að þessar ráðstafanir séu gerðar. Mér sýnist margt benda til þess, að það muni verða unnt að komast að allvíðtæku samkomulagi um slíkar raunverulegar dýrtíðarráðstafanir, ef verulegar tilraunir verða til þess gerðar. Virðist fara mjög vaxandi skilningur almennings á því, að hér þurfi að breyta til. Þessi skilningur er löngu fyrir hendi hjá bændum landsins, þeir hafa sýnt það með samþykktum sínum, og mér sýnist, af tillögum, ræðum og skrifum um þetta, sem komið hafa frá verkamönnum nú í seinni tíð, — þeim mörgum vera ljóst, að þjóðinni er miklu hollara, að kaupmáttur peninganna verði aukinn en að kaupið verði enn hækkað að krónutölu. Mér sýnist því, að einnig þeir vilji eiga þátt í því að reisa skorður við frekari hækkun dýrtíðar í landinu og lækka hana.

Hv. 2. þm. Rang., sem er frsm. meiri hl. í þessu máli, gerði þessa till. mína að umtalsefni í síðustu ræðu. Hann sagði, að fulltrúi Framsfl. í fjhn. Ed., hv. 1, þm, Eyf., hefði lagt fram till. fyrr í vetur, sem gekk í sömu átt, en þó vildi hv. þm. telja, að þarna væri nokkurt ósamræmi í tillögum framsóknarmanna, því að hv. 1. þm. Eyf. hefði lagt til, að stjórnin fengi ekki heimild til að halda niðurgreiðslunum áfram lengur en til 15. marz en ég hins vegar gerði ekki till. um það, að þessi heimild félli niður fyrr en nú er lagt til samkv. þessu frv. Ég vil benda á, að það er ekki ósamræmi í þessu, vegna þess í fyrsta lagi, að 15. marz er liðinn og því þýðingarlaust að fara nú að flytja till. um það, að þessi heimild falli niður 15. marz 1946. Ég teldi í rauninni mjög æskilegt, að þessar niðurgreiðslur hættu fyrr en 15. sept., og verði mín till. samþ. um nefndarskipun, sem ég geri mér vonir um, þá getur vel verið, að það verði mögulegt að fella þessar greiðslur niður nokkru fyrr. Ef álit slíkrar n. lægi fyrir 1. ágúst, ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu, að Alþ. væri kallað saman þá þegar, til þess að ganga frá þessu máli.

Þá gerði hv. 2. þm. Rang. að umtalsefni, að ég flyt ekki brtt. um það að fella niður 2. mgr. 1. gr. frv., sem er um tvenns konar verð á vöru, en hins vegar hefði flokksbróðir minn, hv. 1, þm. Eyf., lagt það til í Ed., að sú mgr. félli niður. Ég flyt nú ekki eða hef ekki flutt brtt. um það vegna þess, að ég taldi það vonlaust, að hægt yrði að fá hana samþykkta. En ef hv. 2. þm. Rang. vildi á þetta fallast, þá gæti ég tekið þetta til endurskoðunar fyrir 3. umr. málsins. Mér virðist nú reyndar tónninn í honum þannig, að hann muni ekki vilja gera þessar breyt. á frv., því að hann virtist líta svo á, að þetta hafi nú þegar gefið góða raun að ýmsu leyti. En ég er þar á öðru máli og tel, að það hafi sýnt sig, að þetta sé óviðunandi bæði fyrir framleiðendur og neytendur. Að minnsta kosti er framkvæmdin á þann veg nú hjá ríkisstj., að ég geri ekki ráð fyrir, að menn séu almennt ánægðir með það. Hæstv. ríkisstj. hefur framkvæmt þessar niðurgreiðslur þannig, t. d. á kjötverðinu, að það er ólíklegt, að við það verði unað til lengdar. Það eru margir hafðir útundan, sem sízt ætti að íþyngja. Þær reglur, sem hafa verið um þetta settar, eru þannig úr garði gerðar.

Þá sagði hv. 2. þm. Rang., að enginn vafi væri á því, að launþegar yrðu ekkert hrifnir af því, ef ætti að fara að lækka laun þeirra meðan hægt væri að benda á það, að atvinnuvegirnir gætu risið undir þeim tilkostnaði við reksturinn, sem nú er. Ég er á öðru máli um þetta en hv. 2. þm. Rang. Mér sýnist aðalatvinnuvegir þjóðarinnar ekki þola þá dýrtíð, sem nú er, og ég vil benda á þær ráðstafanir, sem ríkisstj. taldi, að gera þyrfti til þess að bátaútvegurinn bæri sig. Ég hygg, að stjórnin hafi ekki gert þær ráðstafanir að gamni sínu. Það má vera, að háttv. 2. þm. Rang. telji að landbúnaðurinn beri sig svo vel, en þar er ég á annarri skoðun og tel mig hafa á því nokkurn kunnugleika. Mér virðist, að bændur muni ekki þola, að tekjur þeirra séu skornar niður eins og nú er gert. Ég tel, að ekki sé lengur unandi við þá dýrtíð, sem nú er, og sýnist þýðingarlaust að bíða eftir dýrtíðarráðstöfunum frá hæstv. ríkisstj. Þess vegna hef ég lagt til, að skipuð yrði n. til að gera till. í þessum málum. Hv. 2. þm. Rang. telur slíkt enga lausn, en ég hef oft bent á, að ekki er hægt að undirbúa þetta mál á annan hátt.