25.03.1946
Neðri deild: 94. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Mál það, sem hv. þm. V.-Húnv. gerði hér að umræðuefni, er á þann veg, að ég tel þýðingarlaust að ræða það, þar sem það yrði einungis endurtekning á áður sögðu. Hann sagði, að það mál, sem hér lægi fyrir, væri í aðalatriðunum að verja fé úr ríkissjóði til að halda niðri dýrtíðinni. Þetta er ekki rétt. Mál það, sem hér er til umr., er ekkert nýmæli, það er jafnvel allt frá styrjaldarbyrjun, eða frá því 1943 a. m. k.

Ég skal ekki vera langorður um þetta mál. Hv. þm. Rang. gerði góða grein fyrir því í sinni ræðu. — Hv. þm. V: Húnv. sagði, að niðurgreiðslurnar væru styrjaldarfyrirbrigði, sem ætti að hverfa að stríðinu loknu. Mér er ljóst, að niðurgreiðslurnar eru vandræðaleið, en hins vegar eru skiptar skoðanir um það, hvort telja beri dýrtíðina hreint styrjaldarfyrirbrigði. Mín skoðun er sú, að vöruverð hækki fremur en lækki á næstunni. Mikill hluti Evrópu er í rústum og gífurleg eftirspurn eftir matvælum. Og ef eitthvað er hæft í þeirri kennisetningu, sem við flest höfum lært, að framboð og eftirspurn réði vöruverðinu, þá á verðlag fyrir sér að hækka. Þess vegna er hæpið að telja þetta styjaldarfyrirbrigði. — Þá vil ég vekja athygli á því, að við erum ekki eina þjóðin, sem hefur orðið að halda dýrtíðinni niðri með fjárgreiðslum. Ég var nýlega að lesa ræðu norska fjármálaráðherrans, og er þar skýrt frá því, að varið hafi verið stórum fjárfúlgum til að halda niðri dýrtíðinni í Noregi. Og þótt hlutfallstalan sé að vísu hærri hjá okkur, þá ber þess að gæta, að við erum nú betur settir en Norðmenn. En þrátt fyrir þetta er ég þeirrar skoðunar, að við eigum að reyna að losna við niðurgreiðslurnar, og því verður vart neitað með nokkurri sanngirni, að stórt spor hefur verið stigið í þá átt, og ef haldið verður áfram á sömu braut, ættum við innan fárra ára að losna við þær að fullu. Hv. þm. V.-Húnv: taldi þetta og nauðsynlegt, en sagði, að ekki mætti gera það á þann hátt að ráðast á eina stétt, og átti þá við bændastéttina. Þetta er nú svo margrætt mál, að ég tel þýðingarlaust að svara þessu. Þessi hv. þm. veit, að verð á landbúnaðarvörum hefur hækkað eins og landbúnaðarvísitalan sagði til um, og að saka núverandi ríkisstj. um þá breyt., sem gerð var 1944, nær vitanlega engri átt. Hitt er svo annað mál; hvort till. þessa hv. þm. er vænleg til árangurs. Ég tel, að svo sé ekki. Hann talaði um háan byggingarkostnað, vegna þess að óhóflegur gróði hefði safnazt hjá einstökum mönnum. En hér komum við að því sama. Eftirspurnin er svo mikil eftir vinnuafli, að af þeim ástæðum er boðið hátt í iðnaðarmenn. Af þessum ástæðum hefur skapazt að mörgu leyti óheillavænlegt kapphlaup. En nú veit hv. þm., að nýlega hefur verið samþ. frv. til að hjálpa mönnum til að koma sér upp byggingum á ódýran hátt. Það skal játað, að húsaleiguvísitalan er ekki réttlát, en það er mál, sem erfitt er að ráða við. Ef fara ætti eftir nýju vísitölunni, mundi ný dýrtíðaralda skella yfir. En ég ætla, að það sé betra fyrir fólkið að hafa stöðuga vinnu og borga háa húsaleigu en að borga lága húsaleigu og ganga atvinnulaust.

Þá vill hv. þm. láta fara fram athugun á því, hverjir hafi grætt á stríðinu. Ég get ekki fengið í mitt höfuð, hvað slík rannsókn ætti að þýða. Við höfum nú skattaframtöl, sem eru að miklum meiri hluta sómasamleg, þótt mörgum sé ábótavant og mörgum mjög ábótavant. En ég hefði gaman af að vita, hvernig hv. þm. V.-Húnv. hyggst komast fyrir, að hinir sömu menn, sem nú draga undan skatti, kæmust ekki einnig hjá hinum nýju skrám.

Hv. þm. minntist á þær ráðstafanir, sem stjórnin hefur gert vegna bátaútvegsins, og má nokkuð til sanns vegar færa það, sem hann sagði þar um. Ekki svo að skilja, að sjómenn hafi ekki oft lagt út á hafið með minni hagnaðarvon en nú. Mætti því segja, að það væri óþarft af ríkisstj. að ganga inn á þetta, sem sennilega kostar þó ríkissjóðinn ekki neitt. En það var búið að skapa fordæmi fyrir þessu í landbúnaðinum, og sjómenn sögðu sem svo: „Eigum við ekki sama rétt og bændur?“ Ég get fallizt á, að þetta er óeðlilegt. Ef einstaklingarnir eiga arðsvonina þegar vel gengur, þá eiga þeir einnig að hafa áhættuna þegar illa gengur, en það er svo með þetta sem fleira, að erfitt er að snúa við, þegar einu sinni er komið inn á þessa braut.

Þá skal ég loks víkja að till. hv. þm. V.-Húnv. um nefndarskipun. Um þessa till. get ég sagt það sama og um till., sem lá fyrir Ed. frá hv. 1, þm. Eyf., að þótt rétt væri að gera þessa tilraun, þá á slíkt ekki heima í þessu frv. Að öðru leyti vil ég segja það um þessa till., að ég hef litla trú á, að meiri hl., þings samþ., slíka till. án frekari ráðstafana. Ég álít, að raunverulegur vilji þurfi að vera fyrir hendi hjá almenningi til þess að slíkar tilraunir beri árangur, ella verða þær árangurslausar. Hins vegar er ég fús til að taka upp umr. um þetta, ef till. eru bornar fram af alhug í þá átt. En ég verð að segja, að ég hef ekki trú á, að grundvöllur sé fyrir slíkar viðræður. Ég hirði ekki að rekja orsakir fyrir þessari skoðun minni, en get bent á, að tilraunir í þessa átt voru fyrir skömmu gerðar milli Alþýðusambandsins og Búnaðarfélagsins, en þær báru engan árangur, og síðan hefur ekkert gerzt, sem ætla mætti, að hefði bætt um í þessu efni.