25.03.1946
Neðri deild: 94. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Ég hef ekki miklu að svara úr ræðu hv. þm. V.-Húnv. Það mun þýðingarlaust að deila um, hvort niðurgreiðslurnar eru styrjaldarfyrirbrigði eða ekki, enda skiptir það ekki máli. Hann taldi, að niðurgreiðslurnar hefðu verið lækkaðar á þann hátt að skipta fólki í verðuga og óverðuga. Þetta er ekki rétt, heldur er miðað við það, hvort menn hafa hagnað af því að lækka dýrtíðina eða ekki. Það hefur verið litið svo á, að atvinnurekendur hafi hagnað af því, að dýrtíðinni sé haldið niðri. — Um hækkun kjötverðsins þarf ekki að ræða. Það vita allir, og varðandi útflutningsuppbæturnar er það að segja, að óvíst er, hvort flytja þarf út nokkurt kjöt á þessu ári.

Ég er hv. þm. V.-Húnv. þakklátur fyrir, að hann ætlar að fræða mig um, hvernig leiðrétta skal skattaframtöl, en ég vona, að hann geri þetta hvort sem till. hans verður samþ. eða ekki.

Hv. þm. álasaði mér fyrir, að ég hefði sakað hann um óheilindi í þessu máli. Ég dróttaði Þessu ekki að hv. þm. persónulega, en úr því að hann kom inn á þetta, þá get ég sagt það, að ég efast um einlægni þeirra manna, sem. annars vegar krefjast lækkunar á verðlagi, en krefjast þó jafnframt hækkaðs afurðaverðs fyrir sína stétt. Verðlagið verður aldrei fært niður á þann hátt. Hingað til hafa þær kröfur, sem fram hafa komið, verið í þá átt að bæta kjör einnar stéttar, venjulega að einhverju leyti á kostnað annarrar, og þær tvær ræður, sem hv. þm. V.-Húnv. hefur haldið í þessu máli, hafa ekki boðað aðra stefnu.