02.03.1946
Sameinað þing: 30. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2149 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Haraldur Guðmundsson:

Það er út af því, að mér skildist á hæstv. fjmrh., að hann hið allra fyrsta skyldi verða við þeim tilmælum hv. 2. þm. S.-M., að hann gæfi út frílista. Ég heyrði, að hann afsakaði, að þetta hefði ekki verið gert, vegna þess að ekki hefði verið hægt að tryggja sölu á freðfiski.

Mig furðar á þessum svörum. Ég tel það fráleitt að gefa út frílista, vegna þess að þær vörur, sem okkur vantar, eru torfengnar. Það er ekki auðvelt að fá vélar og vörur til landsins. Ég held það væri mesta óráð að hverfa að þessu ráði. Gengið hefur á innstæður okkar erlendis um 100 millj. kr., og gefur það tilefni til varasemi. Ég hygg, að hæstv. ráðh. hafi ekki hugsað sér frjálsan innflutning frá Bandaríkjunum. Dollarainnstæður okkar eru til þurrðar gengnar.

Ég vil taka undir það, sem fram kom, að á því fyrirkomulagi, sem verið hefur, eru miklir agnúar. En það þarf að lagast á allt annan hátt. Ég vil mælast til þess við hæstv. ráðh., að hann skoði huga sinn vel, áður en hann hverfur að því ráði að gefa út frílista.