21.03.1946
Efri deild: 89. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

2. mál, eignarnám lóðarréttinda og mannvirkja á Siglufirði

Frsm. (Steingrímur Aðalsteinsson) :

Herra forseti. Ég skal í tilefni af þessari fyrirspurn svara því, að n. sneri sér að sjálfsögðu til hæstv. atvmrh. og óskaði eftir því, að hann léti henni í té þessar upplýsingar. Það er ekki rétt skilið hjá hv. þm. Barð., að n. hafi verið neitað um upplýsingar, þvert á móti var henni lofað, að þær skyldu látnar í té. Hins vegar mun hæstv. atvmrh. hafa óskað eftir því, að stjórn síldarverksmiðjanna, sem þarna er aðili, léti þessar upplýsingar í té, en ég geri ráð fyrir, að það sé meira undandráttur en annað, sem veldur því, að upplýsingarnar komu ekki. Ég geri ráð fyrir, að það geti ekki verið neitt til fyrirstöðu því, að stjórn síldarverksmiðjanna léti n. upplýsingar í té, hvað hefur verið gert til að ná samkomulagi, en ég geri ráð fyrir, að hún hafi ekki talið það svo sérstaklega þýðingarmikið fyrir afgreiðslu málsins. Sem sagt, allshn. óskaði eftir upplýsingum frá hæstv. atvmrh., og hann lofaði n. því, að hún skyldi fá þær, en á því varð dráttur, og allshn. sá sér ekki fært að bíða lengur, því að eins og þskj. ber með sér, þá er þetta eitt af fyrstu málunum, sem lagt var fyrir þingið, og hefur því orðið, eins og getið er um í nál., mjög mikill dráttur á málinu, og n. vill ekki láta það liggja lengur hjá sér.