11.04.1946
Neðri deild: 107. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

2. mál, eignarnám lóðarréttinda og mannvirkja á Siglufirði

Frsm. (Þórður Benediktsson) :

Frv. þetta var lagt fyrir Alþ. til staðfestingar á brbl. frá 31. maí s. l. En í nál. á þskj. 752 er villa, þannig að þar stendur 29. júní í staðinn fyrir 31. maí.

Ákvæði þessa frv. eru öll þau sömu og í brbl., eins og sjá má á þskj., og þess skal getið, að ákvæði þeirra eru þegar komin til framkvæmda. Þessi brbl. voru gefin út til þess að koma í veg fyrir stöðvun á þjóðþrifa framkvæmdum. Og þegar sýnt þótti, að samningar á kaupunum fengjust ekki, þótti ekki rétt að láta slíkt standa í vegi fyrir því, að þessi nýja síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði kæmist upp fyrir næstu síldarvertíð.

Enginn getur neitað því, að þessi útgáfa brbl. var mjög aðkallandi. Og enginn getur að vel athuguðu máli tekið meira tillit til eigingirni og stífni fárra einstaklinga en þjóðarhagsmuna og byggingar hinnar nýju síldarverksmiðju, sem stofnað var til af meiri röggsemi en tíðkazt hefur um slíkar framkvæmdir, og þetta er meira þjóðþrifastarf fyrir alþjóð og umheim, sem haldinn er bjargarskorti, heldur en svo, að smáatriði megi valda því, að hinar nýju síldarverksmiðjur á Siglufirði og á Skagaströnd kæmust ekki upp. Þær munu vera þær fullkomnustu af þessari gerð í Norðurálfu. Og ef síldin bregzt ekki í sumar, munu þær gefa þjóðarbúinu tugi millj. kr. tekjur og afköst þeirra bæta úr feitmetisskortinum í heiminum, en sá skortur er svo mikill og þörfin fyrir feitmeti svo aðkallandi, að viðbótarframlag þessarar verksmiðju gæti bjargað heilsu og lífi fjölda manns. Sannarlega var það þjóðþrifaverk að hrinda þessu í framkvæmd, eins og reynslan hefur sýnt. Verð síldarafurða er einnig svo hagstætt og afköst þessarar verksmiðju verða svo mikil, að vonandi getur hún greitt fljótlega niður hinn mikla kostnað við byggingu hennar.

Ég tel, að það sé ekki til of mikils ætlazt af hv. d., að hún viðurkenni vel og röggsamlega unnin verk byggingarstjórnar og hæstv. atvmrh. með því að afgr. þetta frv. fljótt og einróma og samþ. það.