11.04.1946
Neðri deild: 107. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

2. mál, eignarnám lóðarréttinda og mannvirkja á Siglufirði

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara. Þetta frv. er komið frá hv. Ed. og mun hafa legið allmargar vikur til afgreiðslu þar hjá hv. allshn. þeirrar d. Og eftir því, sem segir í nál, hv. allshn. Ed., þá stafar þessi dráttur af því, að ekki fengust upplýsingar um það eða skýringar á því hjá hæstv. atvmrh., þrátt fyrir marggefin loforð, hvers vegna hefðu verið gefin út brbl. um eignarnám á fasteignum, bæði húsum og lóðum, á Siglufirði án þess að reynt hefði verið að komast að nokkru samkomulagi um kaup á þessum eignum við eigendurna. Og það er þess vegna ekki rétt hjá hv. frsm., að það hafi verið einhver samningstregða, sem hafi verið á ferðinni hjá eigendum þessara eigna, sem varð þess valdandi, að þessi leið var farin. Ég veit ekki betur en að þeir hafi ekkert verið um það spurðir. Brbl. voru gefin út og þau framkvæmd alveg án þess að tillit væri tekið til eigenda fasteignanna eða leitað til þeirra um kaup á fasteignunum með frjálsum vilja til þess að byggja á síldarverksmiðjur ríkisins. Og það er einmitt þess vegna, sem hæstv. atvmrh. hefur tregðazt við að gefa yfirlýsingu um það, hvers vegna þetta var framkvæmt þannig. Það má segja, að það þýði nú ekki um það að tala, vegna þess að búið er að framkvæma eignarnámið og einnig farið að byggja á þessum lóðum, en það er ekki farið að meta þessar fasteignir, sem teknar hafa verið. — Nú hafði ég minn fyrirvara vegna þess, að ég hafði þá skoðun, að Alþ., eigi ekki að gefa út slík eignarnámsl., án þess að gera ýtrustu tilraun til þess að ná frjálsum samningum við þá, sem ráða yfir fasteignunum.

Ég vil, til þess að spara tíma, geta þess, að um næsta mál á dagskránni, sem er frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. að taka á leigu geymsluhús tunnuverksmiðju Siglufjarðar, stendur alveg eins á. Ég skrifaði undir það nál. með fyrirvara af sömu ástæðum. Og ég fyrir mitt leyti mundi vilja vita þá aðferð, þegar gefin eru út brbl. án samþykkis Alþ. um það að taka eignir manna og láta þá ekki vita um það og láta þá svo bera kostnaðinn af málinu, vegna þess að þeir verða að hafa lögfræðinga til þess að hjálpa sér til að ná samningum um virðingu eignanna, og það verða þeir sjálfir að borga.