02.03.1946
Sameinað þing: 30. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2150 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Haraldur Guðmundsson:

Ég skal ekki lengja umr. Ég fellst alveg á það, sem hæstv. fjmrh. sagði í síðustu ræðu sinni. Ég er honum sammála um, að lítil fyrirhyggja sé í því. Tel ég fljótráðið að gera þá breytingu, er hér um ræðir. Skilst mér á hæstv. ráðh., að þetta muni aðeins vera á pappírnum.

Ef ekki á að auka frjálsan innflutning á dollaravörum, gæti hugsazt, að ýmsum þætti hugtakið ekki nógu „eksakt“.

Ég hef séð listana yfir þær vörur, er gert var ráð fyrir, að gerðar yrðu frjálsar, og ég sá þar ýmsar, sem mér þóttu miður nauðsynlegar.

Meginhættan liggur ekki í auknum innflutningi á þeim vörum, er engin ekla er á, heldur þeirri afleiðingu, sem ég hygg, að yrði af útflutningi gjaldeyris til útlanda.

Það er áreiðanlega mjög hætt við því, eins og hv. þm. gat hér um og sannaði á undan mér, að menn leiti á að flytja út gjaldeyri til kaupa á vörum, því að erlendis er kaupmáttur hans meiri en hér. Í því liggur mikil hætta.