25.02.1946
Neðri deild: 74. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

115. mál, tunnusmíði

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Þetta frv. var á sínum tíma til athugunar hjá fjhn. þessarar d., og hefur meiri hl. n. skilað um það áliti á þskj. 334 þann 12. des. Ég, sem á sæti í þeirri n., hef hins vegar ekki skilað neinu áliti um málið, en vil fara um það nokkrum orðum. Mér hafði nú skilizt, að málið mundi verða tekið til athugunar aftur af fjhn., en af því hefur ekki orðið. Mun ég því leggja hér fram brtt. við frv., sem ég verð að afhenda hæstv. forseta skrifl., þar sem ekki hefur unnizt tími til að fá þær prentaðar, og vænti ég þess, að hann leiti afbrigða fyrir þessu brtt.

Þetta frv. er um heimild handa ríkisstj. til að reisa og reka tvær tunnuverksmiðjur, aðra á Akureyri og hina á Siglufirði, ef rannsókn leiðir í ljós, að tunnusmíði hér á landi sé samkeppnisfær við erlenda tunnusmíði um verð og gæði. Þá er einnig í frv. gert ráð fyrir heimild fyrir ríkisstj. til þess að kaupa eða taka á leigu þær tunnuverksmiðjur, sem til eru í þessum kaupstöðum. — Ég tel, að það sé rétt að stefna að því, að tunnur verði smíðaðar hér á landi, ef sá iðnaður getur orðið samkeppnisfær við erlenda framleiðslu. Hitt getur meir verið álitamál, hvort ástæða sé til eða hagkvæmast, að ríkið hafi með þennan rekstur að gera. Þessi iðnaður getur, eins og margur annar rekstur, verið rekinn af einstaklingum. Einnig getur komið til álita, hvort heppilegt sé, að þessi iðnaður sé rekinn af bæjarfélögum, og getur það eins komið til mála, að minni hyggju, að hafa það þannig eins og að ríkið taki þennan rekstur að sér, ef á annað borð þykir heppilegra, að það opinbera hafi með þetta að gera en einstaklingsfyrirtæki. En ég mun ekki mæla á móti því, að ríkisstj. fái þessa heimild, ef hv. d. vill fallast á að gera nokkrar breyt. á þessu frv.

Í brtt. mín er um að fella niður 4. gr. frv., en samkv. þeirri gr. er ríkisstj. heimilað að taka eignarnámi lóðir, hús og önnur mannvirki vegna tunnuverksmiðjanna. Ég tel ekki rétt að samþykkja svona víðtæka eignarnámsheimild handa ríkisstjórninni. Ekki liggur neitt fyrir um það, að það sé heldur þörf á því að taka eignarnámi lóðir, hús eða önnur mannvirki fyrir þessar tunnuverksmiðjur, þó að þær verði reistar. Og ég tel sjálfsagt, að það verði reynt að ná þessum eignum á annan hátt, með frjálsum samningum, áður en eignarnám komi til greina. Og ef það sýnir sig, að ekki sé hægt að ná þessum nauðsynlegu eignum með frjálsum samningum, þá getur hæstv. ríkisstj. vitanlega síðar farið fram á að fá heimild til eignarnáms, og ætti það þá að vera bundið við vissar ákveðnar eignir, en ekki svo víðtæk heimild sem hér er gert ráð fyrir, þar sem eftir henni er hægt að taka eignarnámi hvaða eignir sem um er að ræða af þessu tagi á viðkomandi stöðum. Ég legg því til, að þessi gr. frv. verði felld niður.

Í 6. gr. frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nánari ákvæði um rekstur og stjórn tunnuverksmiðjanna svo og um annað, er þurfa þykir, skulu sett með reglugerð.“ — Ég tel eðlilegra, að í 1. séu ákvæði um stjórn verksmiðjanna, hvernig henni skuli fyrir komið. Getur þá vitanlega komið til greina að setja yfir þetta sérstaka stjórn, sem Alþ. kýs. En ég vil leggja til, að síldarútvegsnefnd verði falið að annast stjórn og rekstur tunnuverksmiðjanna. Mér virðist, að það geti vel farið saman við önnur verkefni, sem þessi n. hefur með höndum, og að það sé á þennan hátt hægt að komast hjá því að velja þarna sérstaka n. til þess að fara með rekstur tunnuverksmiðjanna. Ég vil því leyfa mér að leggja til, að 6. gr. frv. verði orðuð um og verði þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Síldarútvegsnefnd annast stjórn og rekstur tunnuverksmiðja ríkisins og ræður starfsmenn þeirra.“ En með því að það getur álitizt nauðsynlegt að setja einhver nánari fyrirmæli um framkvæmd laganna með reglugerð, þá legg ég til, að á eftir þeirri gr. komi ný gr. um það efni, svo hljóðandi: „Nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara skulu, ef þurfa þykir, sett með reglugerð.“ — Yrði þá, ef brtt. mínar yrðu samþ., greinatala frv. óbreytt, þar sem ný gr. kæmi í stað þeirrar, sem ég vil láta fella niður úr frv.

Mér hefur borizt til eyrna nýlega, að nú í s. l. viku hafi verið haldið uppboð á Siglufirði og að þar hafi verið seldar eignir tunnuverksmiðju, sem þar var, og að hæstv. ríkisstj. hafi fyrir hönd ríkisins látið kaupa þessar eignir. Nú þætti mér fróðlegt að heyra frá hæstv. atvmrh. eða hæstv. fjmrh., hvort þessi fregn sé rétt, hvort ríkið hafi þegar keypt þessar eignir, og þá fyrir hvaða verð.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um málið, en vil afhenda hæstv. forseta brtt. mínar.