15.03.1946
Efri deild: 85. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

115. mál, tunnusmíði

Atvmrh. (Áki Jakobsson) :

Út af því atriði í ræðu hv. þm. Barð., þar sem hann spyr, hvort álitsgerð liggi fyrir um reksturinn, skal ég benda á það, að 1. gr. veitir heimild til að reisa og starfrækja verksmiðju, og 2. gr. kveður svo á, að ríkisstj. sé heimilt að taka á leigu þær verksmiðjur, sem nú eru á Akureyri og Siglufirði. Þess vegna er 2. gr. miðuð við þær ráðstafanir, sem gera verður þegar í stað. Á Siglufirði liggur fyrir að reisa nýja tunnuverksmiðju, en mikið má nota úr þeirri gömlu. Á Akureyri þarf og að fara fram gagnger breyting, t. d. verður að reisa þar stórt lagerhús; endurnýja þarf og flestar vélarnar. Það er nú verið að vinna að þessari álitsgerð af Haraldi Loftssyni, sem hefur reynslu í þessum málum frá Vestmannaeyjum.

Annað atriðið var um útsvars- og skattafríðindin. Ég hafði hugsað mér þessi fríðindi miðuð við það, að verksmiðjurnar yrðu starfræktar að vetrinum, jafnvel þótt halli yrði. Þannig hefur það verið marga undanfarna vetur á Akureyri, að tunnuverksmiðjan hefur verið rekin til þess að halda uppi atvinnu, og þannig tel ég, að það ætti að vera í framtíðinni. Því fer og fjarri, að óskir séu uppi frá bæjarstjórnunum á Akureyri og Siglufirði um að leggja skatta á þessi fyrirtæki. Ég minnist ekki að hafa nokkurn tíma heyrt óskir um það, meðan ég var bæjarstjóri á Siglufirði, að leggja ætti skatt á þetta fyrirtæki.

Þá spurði hv. þm., hvort hér væri átt við tréeða stáltunnur. Þegar ég gæti að, er víst hvergi ákvæði um þetta í frv., en þó mun það leiða af ákvæðum 4. gr., þar sem talað er um síldartunnur, að átt er við trétunnur. Eftir því sem mér hefur skilizt, er stáltunnugerð allt öðruvísi framleiðsla, enda ekki markaður fyrir stáltunnur, fyrr en þá að lýsisherzlustöðin er komin, og kann að vera, að vert væri að athuga það í sambandi við hana. Annars er mér sagt, að þá framleiðslu verði að reka í svo stórum stíl, að hæpið sé, að hún yrði hagkvæm fyrir okkur. Til trétunnugerðar þarf hins vegar tiltölulega lítinn vélakost, þar sem mikið er handunnið og stofnkostnaður þar af leiðandi ekki eins mikill. Hér er sem sagt átt við trétunnur, en ekki stáltunnur, þótt það sé ekki beint fram tekið.