12.04.1946
Efri deild: 105. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (742)

115. mál, tunnusmíði

Frsm. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Eins og þm. er kunnugt, er frv. þetta komið frá hv. Nd. og hefur í rauninni upphaflega verið dálítið öðruvísi en það er nú. Fjhn. Nd. hefur lagt til einróma, að frv. verði samþ., og þannig hafði það farið gegnum 2. umr. þar. En við 3. umr. var gerð lítils háttar breyt. viðvíkjandi stjórn verksmiðjanna, þannig að það ákvæði væri tekið upp, að síldarútvegsnefnd yrði falin stjórn þessara verksmiðja, þegar þær yrðu reistar. Nú hefur fjhn. þessarar hv. d. farið yfir og athugað frv., og allir nm., að undanteknum einum, sem ekki var á fundi, eða 4 nm. af 5 hafi orðið sammála um að leggja til, að því ákvæði yrði breytt og gr. orðuð eins og segir á þskj. 777, þannig að atvmrh. skipi þriggja manna stjórn fyrir verksmiðjurnar. — Það er ýmislegt, sem mælir með því að vera ekki að hlaða þessum störfum á síldarútvegsnefnd. Hún mun hafa mikið starf með höndum, sem sennilega mun fremur fara vaxandi með aukinni síldarsöltun, sem líklegt er, að verði nú á þessu ári. Þess vegna mun starf hennar nóg og ekki ástæða að ætla henni að sjá um rekstur þessara verksmiðja. Í öðru lagi má svo telja, að það sé dálítið hæpið að setja síldarútvegsnefnd í þá aðstöðu að vera bæði seljandi síldar og framleiðandi þeirra umbúða, sem síldin er látin í, vegna þess að það getur sett hana í vanda gagnvart þeim, sem hún þarf að skipta við.

Ég vil taka það fram aftur, að meiri hl. n. væntir þess fastlega, að hv. d. samþ. þessa breyt. Þó að hv. 1. þm. Eyf. hafi ekki skrifað undir nál., vegna þess að hann var ekki staddur á fundinum, hef ég ekki ástæðu til að ætla, að hann sé þessari breyt. mótfallinn.