15.02.1946
Neðri deild: 68. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (752)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Á Alþingi 1944 var borin fram till. um gistihúsbyggingu. Þessi till. fékk í lok þingsins þá afgreiðslu, að málinu var vísað til ríkisstj. Skömmu síðar leitaði ríkisstj. til borgarstjóra og Eimskipafélags Íslands, hvort hugsanleg væri samvinna við þessa aðila um gistihúsbyggingu. Báðir þessir aðilar tóku vel í málið, og hefur af þeirra hálfu verið gert allt til að hrinda því í framkvæmd. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um nauðsyn þessa máls, því að öllum er ljóst, hversu mjög okkur vantar veglegt gistihús. Auk þess sem nú eru að hefjast flugferðir milli Austur- og Vesturheims, sem hafa í för með sér enn meiri nauðsyn þessa máls. Þá er og von til þess, að ferðamannastraumur aukist eða réttara sagt haldi áfram frá því, sem var fyrir stríð. Þá er í ráði hjá samgmrn. að bera fram till. um, að endurreist verði ferðaskrifstofa ríkisins. Allt þetta eykur mjög þörfina fyrir vandað gistihús hér í Reykjavík, því að eins og nú stendur, fá varla þeir menn húsnæði, sem mikilvægum erindum eru að gegna.

Það hafa verið gerðar bráðabirgða athuganir um stærð og kostnað á góðu gistihúsi. Þessar athuganir hafa sýnt, að það þarf milljónir og jafnvel milljónatugi til þessara framkvæmda. Það er því ekki á færi neins einstaklings að reisa slíkt fyrirtæki, það opinbera verður að vera meðaðili. Ekki er heldur trúlegt, að reksturinn geti staðið straum af stofnkostnaðinum.

Það er því ekki nema um tvær leiðir að ræða. Önnur er sú að draga fyrirtækið út á þá braut, að það verði arðberandi, en með því verður varla um fullkominn rekstur að ræða. Hin leiðin er að gera reksturinn sem fullkomnastan og til fyrirmyndar. Þessir þrír aðilar, sem um málið hafa fjallað, gera ekki ráð fyrir, að höfuðstóllinn kæmi beint aftur. Einstaklingar eru ekki spenntir fyrir slíku, því að ef um fyrirmyndar rekstur er að ræða, er lítil arðsvon, en aftur á móti er reynslan, að lélegur rekstur gefur mestan arð. Ég ætla ekki að leyna því, að viðræður hafa farið fram við einstaklinga um þessi mál, og sömuleiðis hefur verið athugað, hvort erlend félög eins og flugfélög vildu verða aðilar, og slíkt er ekki óhugsandi, þó að það sé hins vegar allt óákveðið enn.

Það hefur sem sé verið rætt um þetta mál. Það kom snemma fram í viðræðunum, að æskilegt væri að fá erlendan sérfræðing hingað til að athuga um tilhögun, og eins og málin standa nú, er ekki óhugsandi, að við gætum fengið einn frægasta hótelsérfræðing Bandaríkjanna hingað.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er svo árangurinn af öllum þeim viðræðum, sem fram hafa farið. Í frv. er gert ráð fyrir, að ríkisstj. sé heimilað að verja allt að 5 millj. kr. til þessara framkvæmda. Þá er farið fram á heimild til að framkvæma þetta í félagi við bæjarfélagið og Eimskipafélagið. Einnig er farið fram á breyt. á hlutafjárl., nr. 77/1921, því að eftir þeim mætti ríkissjóður ekki vera hluthafi. Loks er gert ráð fyrir heimild til að taka eignarnámi lóðir og hús, ef þurfa þykir, undir gistihúsið.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta frv. fleiri orðum. Það eru allir sammála um þörfina til úrbóta í þessu máli. Ég legg svo til, að frv. verði vísað til allshn.