15.02.1946
Neðri deild: 68. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Gísli Sveinsson:

Ég ætla ekki að endurtaka ummæli mín frá því áðan. Það er sjálfsagt að viðurkenna, að hæstv. ráðh. tekur mjög skynsamlega á málinu og ræðir þetta til og frá og játar að sjálfsögðu, að hér geti fleira komið til, og efast ég ekki um, að hann vilji verða til þess að taka þátt í athugunum um þetta áfram. En til þess er nú leikurinn gerður, þegar um svona stórt atriði er að ræða, að það sé vel athugað af hálfu Alþ., sem hér á að ráða þingmálum til lykta, og þá ekki síður af hálfu þeirrar n., sem Alþ. felur að hafa mest um það mál að gera. Ég hef ekki sannfærzt um það, þó að við séum sammála um, að eitthvað þurfi að gera í gistihúsmálunum, að hér sé um almenningsþörf að ræða, og hæstv. ráðh. vék yfir á þá sveif, að með því að byggja slíkt lúxushús, sem tæki við erlendum auðkýfingum, þá mundi losna um á öðrum stöðum. Því miður er það svo, að þessi bygging verður alls ekki til almenningsþarfa, þó að þetta hangi svo hvað á öðru. Hins vegar getur verið erfitt að gera þarna upp á milli, að þarna sé um að ræða nokkuð það, sem frambærilegt er nema fyrir þá, sem vilja borga hvað sem er. Hinu er heldur ekki að leyna, að jafnhliða þessu verður að fara fram athugun á því, hvað hægt sé að gera fyrir almenning, karla og konur, í þessu efni, sem eiga skyld erindi bæði hér og annars staðar um landið, og má minnast á það, að út um allt landið er þessi almenningur ekki aðeins komandi hingað til Reykjavíkur, heldur er hann á ferð sinna erinda víða út um allt land og getur þá ekki búið í þessu mikla húsi, og slíkt fólk þarf sannarlega aðhlynningar. Hæstv. ráðh. veit, að það er mikill skortur gistihúsa um landið gervallt og einnig fyrir Reykjavík. Sannleikurinn er sá, að erfitt er að fá inni, svo að sé með nokkrum sóma, bæði hér í Reykjavík og úti um landið, og það má ekki undir höfuð leggjast að sinna þessu af hálfu þess opinbera. En það verður að vera svo um þetta búið, að það fari vel úr hendi og grípi ekki fram fyrir hendurnar á einstaklingum, sem þetta vildu gera. En þetta er nú allt til athugunar, og hæstv. ráðh. tekur því rólega og skynsamlega, eins og honum er lagið í flestum tilfellum. Sú þingn., sem fær málið til meðferðar, fjallar nú um það, og ætti hún þá sérstaklega að athuga 5. gr., um eignarnámsheimildina. Almennt er það svo, að skrifstofustjórar o. fl. semja ekki ákvæði út í bláinn, og það veit ráðh. frá sinni fyrstu tíð, heldur eftir því, er ráðh. óskar. Í þessu tilfelli er athugandi, hvort stjórnarlögin heimili þetta, og vil ég í því sambandi vísa til 67. gr. þeirra. Það hefur ætíð þótt alvarlegt, hvort áræða ætti að setja slík ákvæði. Þetta er einn af þeim varnöglum, sem settir hafa verið til tryggingar í því þjóðskipulagi, sem við búum við, þar sem allt á að vera geirneglt, og því má ekki gera sér leik að því að eyðileggja þennan varnagla. Það þarf því að athuga, hvort slíkt sem þetta er tilhlýðilegt.