05.03.1946
Neðri deild: 80. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Eysteinn Jónsson:

Ég vil taka það fram, að ég er ekki samþykkur þessu frv. En ég játa þörfina fyrir stórt gistihús, og má það teljast vanvirða og er undarlegt, að svo skuli vera ástatt í þessum málum sem raun ber vitni um, þegar litið er á það fjármagn, sem bæði einstaklingar og félög hafa umráð yfir hér. En ég viðurkenni ekki, að ríkissjóður veiti 5 millj. kr. til þessarar byggingar, eins og nú er ástatt í landinu. Mér finnst í fyrsta lagi, að rekstur gistihúsa eigi ekki að vera í höndum ríkisins, heldur í höndum einstaklinga eða bæjarfélaga, sem hefðu samvinnu við borgarana. — Ég vil benda mönnum á, að ef ríkið fer út á þá braut að leggja fé til gistihúsa á einum stað, þá munu koma fram kröfur sama efnis frá öðrum stöðum. Hollt er þess vegna að hafa í huga, að í upphafi skyldi endinn skoða. Hefði í upphafi átt að gæta forsjár í þessu máli í heild sinni og hugsa fyrir því, hversu fara kynni um þátttöku og fjáröflun . . . . .

Þriðja ástæðan er sú, að öllum má vera ljóst, að ríkissjóður er nú raunverulega að þrotum kominn, þar eð komnar eru fram hér á Alþ. till. um lántökuheimildir, er nema allt að 200 millj. kr., en auk þessa hafa komið fram stórkostlegar till. um ýmsar ríkisábyrgðir. Bendir allt þetta auðsjáanlega til þess, að einungis einhverjum verkefnum verði hægt að hrinda í framkvæmd, en ekki verði unnt að sinna nándar nærri öllu. Er því auðsjáanlegt, að hnitmiða verður, hverju liggi mest á, en láta hitt, er minna varðar, bíða. Ég segi því, þótt gistihúsbygging í Reykjavík sé mikilvæg, að ég er því algerlega andvígur, að teknar yrðu 5 millj. kr. úr ríkissjóði til þess að leggja í þá framkvæmd. Fjár er víða þörf annars staðar, og tel ég, að öðru liggi meir á að koma í framkvæmd en koma upp þessu hóteli. Það þarf heldur að leggja fé þetta til atvinnumála, svo sem nýbýlahverfanna. Mörg ár hefur staðið til að leggja í þau, en það hefur aldrei verið gert og fjárskorti hingað til borið við. Þetta er aðeins litið dæmi, en vitanlega mætti tína fleiri til.

Ríkið getur ekki útvegað fé til alls. Verður að velja úr eftir nauðsyn og getu. Ég ætla alls ekki að samþykkja, að þessar 5 millj. verði lagðar í gistihúsbyggingu í Reykjavík, þótt ég viðurkenni hins vegar, að þetta sé nauðsynjamál.

Ég hef svo ekki í huga að segja meira í málinu, en er á móti frv. og legg til, að það verði fellt. Í rauninni hefði ég átt að leggja fram rökstudda dagskrá, en hafði hana ekki tilbúna. Ég mun því greiða atkv. á móti frv.

Að endingu vil ég taka fram, að ég tel, að bærinn og einstaklingar í honum ásamt yfirvöldunum eigi að beita sér fyrir framgangi þessa hótelbyggingarmáls.