05.03.1946
Neðri deild: 80. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (763)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Þórður Benediktsson:

Herra forseti. Hv. frsm. láðist að geta þess, að minni hl. lagði nokkuð til málanna. En ég vil þá benda á, að á þskj. 501 stendur, að 2. landsk. leggi til, að frv. verði samþ. óbreytt. Annars tók hæstv. samgmrh. af mér ómakið að svara hv. 2. þm. S.-M. Ég get þó þess, að rökstuðningur hv. frsm. tókst ekki vel. Hann lét þess getið, að leita mætti heimildar, ef þörf krefði. Og hann sagði, að engin hætta væri í því fólgin, að teknar yrðu eignarnámi góðar og nytsamlegar byggingar, heldur yrði það öllu verra, ef þær væru teknar af einstaklingum. Það er einkennilegt, hve menn eru ákaflega viðkvæmir fyrir svona lagagr. um eignarnám, eins og þó hinn óskoraði eignarréttur á lóðum í bæjum hefur valdið miklum óþægindum og ógæfu, en jafnframt vaxandi tilhneigingu manna til að okra. Þetta veldur langtum meiri útþenslu bæjanna en annað, þar eð menn hafa ekki ráð á að kaupa lóðir í miðjum bæjunum. Slíkt ástand er ákaflega óheilbrigt. Óskoraður eignarréttur á jörð er og ekki þjóðhollur. Menn í bæjunum kunna að bíða, þar til er einhver lóð kemst í geipiverð.

Merkilegt er, hversu hv. 2. þm. S.-M. er orðinn skarpskyggn í seinni tíð. En hann virðist yfirleitt nokkuð svartsýnn á þetta, og er hann sá fyrsti, sem ég heyri mæla gegn því, er hér um ræðir. Álit mitt er, að við höfum raunverulega ekki ráð á öðru en að byggja þetta hótel fyrir hina nýju viðskiptavini vora. Við höfum ekki efni á að bíða með það, og kotungssjónarmiðin verða að víkja. Það er ekki kostnaður í raun og veru að byggja gott hús, heldur er þar í rauninni um aukin verðmæti að ræða.

Að því er snertir heimildina og nál. meiri hluta allshn., vil ég segja það, að ég tel sjálfsagt og réttast að fella þá brtt.

Ég vil og mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt.