05.03.1946
Neðri deild: 80. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Um þetta mál, sem hér liggur fyrir, vildi ég lýsa afstöðu minni, og sérstaklega fylgi mínu við þá brtt., sem komið hefur fram við 5. gr., frv., um eignarnámsheimildina í frv., að hún falli niður. — Það kom mér ekki alveg á óvart, að hv. 2. landsk. (ÞB) lét þau orð falla í sambandi við eignarréttinn, sem hann áðan gerði. En það er víst, að það fjöreggið, sem a. m. k. löggjafarþingið og við, hin litla íslenzka þjóð, ættum að gæta vel að, er verndun eignarréttarins. Ekki fjölmennari þjóð en við Íslendingar ætti eiginlega að geta lifað á þann hátt, að þar væri eins og ein fjölskylda, þó að viðhorfið sé ekki þannig í okkar þjóðfélagi, því miður. En menn óska, að svo mætti vera. En eignarrétturinn mun samt jafnan verða talinn eitthvað það dýrmætasta og helgasta, sem þjóðfélagið er reist á. Og það að ætla að skerða hann er ákaflega hættulegt, því að manneðlið er þannig, að sumir eru fullir öfundar í annarra garð og vilja kannske misbrúka heimildir um skerðingu eignarréttarins. Þess vegna álít ég áríðandi, að löggjafarþingið fari mjög varlega á þeirri leið.

Hæstv. samgmrh. hefur skýrt þetta mál mjög vel, sérstaklega í framsöguræðu sinni hér, þegar málið fyrst var lagt fyrir d., og svo viðhorfið, eins og það væri nú í málinu.

Ég get ekki verið sammála hv. 2. þm. S.-M. um, að þetta mál sé eins þýðingarlítið og hann vill vera láta og að það eigi ekki að binda þetta mál eingöngu við Reykjavík. Ég álít, að hægt sé með góðu fyrirkomulagi einmitt á okkar landi að skapa tekjugrein — og hana alls ekki litla — með því að gera skilyrði fyrir aðkomumennina betri og þeim hentari en nú er hér hjá okkur, hvað gistingu snertir o. fl. Og vildi ég í sambandi við þetta gistihúsmál benda á það, að þegar það einasta gistihús, sem hér hefur eiginlega verið byggt eftir kröfum nútímans, Hótel Borg, var reist, þá var það einstakur maður, sem lagði allar sínar eigur í það. Og það sýndi sig, að örðugleikar urðu í sambandi við það gistihús, einmitt fyrir það opinbera. Þess vegna tel ég, að mikil trygging sé í því, að ríkisstj. stæði einmitt að byggingu góðs gistihúss. Við vitum, að viðskiptalífið er háð þeim fjötrum hér á okkar landi, að hvert ákvæðið rekur annað, bæði verðlagseftirlit og annað, og því er það mikil nauðsyn, að ríkisstj. sé einn aðilinn í þessu fyrirtæki, sem gert væri sem tilraun til þess að fá úr því skorið, hvort það sé framkvæmanlegt að hæna hingað ferðamenn. Ég hef haft kynni af þó nokkrum útlendingum. Og flestir þeirra leggja höfuðáherzlu á það að heimsækja höfuðstaðinn og sjá, hvar þær höfuðstöðvar eru, sem standa að þessu þjóðfélagi. En svo ber svo vel í veiði, að hér einmitt í nágrenni Reykjavíkur eru þeir glæsilegustu og eftirsóknarverðustu staðir, svo sem bæði Hekla og Geysir, tiltölulega skammt frá, sem útlendir ferðamenn óska fyrst af öllu að sjá, og ekki er langt héðan að fara til þess að sjá blómlegar sveitir, bæði í Borgarfirði og fyrir austan fjall.

Ég álít rétt, að þessi tilraun sé gerð af því opinbera með gistihúsbyggingu og rekstur, af því m. a. að ég álít, að með því sé gerð tilraun til þess að dreifa á fleiri herðar að standa undir gjaldgetu okkar að því er snertir að hafa til erlendan gjaldeyri en verið hefur. Við höfum nú af okkar framleiðslu útflutningsvörur eingöngu frá landbúnaði og sjávarútvegi. Og ég harma mjög, hve við höfum verið skammsýnir og glámskyggnir Íslendingar, að hafa ekki lagt miklu meiri áherzlu á farmennsku og að koma okkur upp skipaflota miklu fyrr en raun hefur á orðið. Ef við hefðum stundað meira farmennsku, þá hefðum við þeim mun meiri möguleika til þess að afla erlends gjaldeyris. Og ef við nú gætum á hinn bóginn aukið ferðamannastrauminn hingað til landsins, þá væri það einn liður í því að afla erlends gjaldeyris til þess að standa undir innflutningsverzluninni. — Hins vegar verð ég að taka undir það með hv. 2. þm. S.-M., að ég hefði miklu fremur kosið, að einstaklingar hefðu tekið þetta fyrirtæki að sér og leitt það fram á þann hátt, sem við höfum hér hugsað okkar, að það opinbera verði látið gera. En það eru þeir örðugleikar í sambandi við slíka framkvæmd, eins og ég hef greint, sem mundi yfirleitt ekki vera talið fært að yfirstíga fyrir nokkurt einstaklingsfyrirtæki öðruvísi en í samráði við ríkisstjórnina.

Það hefur komið fram í þessum umr. áður, að ríkið rekur umfangsmikla atvinnugrein, áfengisverzlun. Og það mundi koma fljótt á daginn, ef ríkissjóður stæði að byggingu og rekstri gistihúss, að ekki væri stætt á því, að hótelið nyti ekki einhvers af sölu þeirrar vöru. En fjöldi manna, sem sótt hefur um söluleyfi á áfengi, hefur ekki fengið það. Svona má á marga lund bera hin ýmsu atriði saman, til þess að sýna, hver mismunur er á örðugleikum og aðstöðu allri annars vegar fyrir einstaklinga og hinsvegar fyrir ríkið um að reka slíkt gistihús. Og mér skilst, að vel gæti komið til mála, á sínum tíma, að bæjarfélagið og einstaklingar rækju þetta gistihús að sumu leyti.

Ég vildi hafa lýst því yfir, að ég hefði borið fram brtt. eins og þá, sem meiri hl. hv. allshn. ber fram, ef sú brtt. hefði ekki annars komið fram.