07.03.1946
Neðri deild: 82. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Á síðasta fundi, þegar þetta mál var til umr., þá kom fram sú skoðun hjá hv. 2. þm. S.-M., að ríkissjóður ætti ekki að hafa nein afskipti af þessu máli. Og hann rökstuddi þetta álit sitt með því að segja, að ef ríkið gengi hér til samninga við einhverja aðila í Reykjavík til þess að hrinda málinu fram, þá ættu aðrir bæir úti um landið hliðstæðan rétt og hlytu að gera sömu kröfur til ríkisins og gerðar væru í Reykjavík í þessu efni. Ég vil leyfa mér að halda því fram og hef gert það áður, að aðstaðan í þessu efni hér í Reykjavík annars vegar og úti um landið hins vegar er gerólík. Og hótel það, sem talað er hér í þessu frv. um að byggja í Reykjavík, er með allt öðru sniði en hótel úti um landið mundu verða. Það yrði stærra og fullkomnara til þess að geta tekið á móti erlendum gestum, nánast hversu miklar kröfur sem þeir gera. Slíkar kröfur er ekki um að ræða úti um landið.

Þá minntist hv. 2. þm. S.-M. á það, að möguleikar til þess að byggja þetta hótel hér í Reykjavík væru aðrir og meiri en annars staðar, án íhlutunar ríkisins. Þetta getur verið rétt. En það réttlætir ekki, að ríkið dragi sig út úr málinu vegna þess aðalsjónarmiðs, að það er ekki trygging fyrir því, að þetta hótel verði byggt og rekið eins og ríkinu sæmir, nema ríkið sé þar aðili og leggi fram nokkurt fé og hafi áhrif á fyrirkomulag þess og rekstur. Hv. 2. þm. S.-M. sagði, að ríkisstj. hefði verið of fljót á sér til þess að lofa framlagi til þessarar byggingar. Ríkisstj. hefur ekki lofað slíku framlagi, heldur er að leita heimildar til þess að láta þetta framlag í té. Ríkisstj. hefur lofað því aðeins að leggja málið fyrir Alþ. og leita heimildar þess til að framkvæma þetta verk. — Hv. 2. þm. S.-M. sagði, að í öllum löndum, þar sem hann vissi, væru þessar stofnanir ekki styrkþurfar. Það kann vel að vera. En hér hagar að mörgu leyti öðruvísi til en annars staðar, og eftir fenginni reynslu eru ekki líkur til, að þetta sé svo arðvænlegt fyrirtæki, að einstaklingar færu út í það, eins og til er ætlazt hér í þessu frv., að gert verði. Og að lokum hafði þessi sami hv. þm. þá röksemd fram að færa í málinu, að nú væru svo margar framkvæmdir fyrirhugaðar, að það yrði að velja og hafna um það, hvað framkvæma skyldi af því, sem fyrirhugað væri að gera, en það gæti ekki allt orðið framkvæmt á næstunni eins og til væri ætlazt. Og mér skildist hann líta svo á, að þessi framkvæmd kæmi ekki í fyrstu röð, og þess vegna bæri að snúa sér að öðrum verkefnum, sem hann tilgreindi nánar. Ég skal nú ekki mikið deila við þennan hv. þm. um þetta. En ég vil aðeins benda á, að frumskilyrði fyrir því, að hægt sé að sinna hér móttöku ferðamanna í landinu, er að gott hótel verði reist. Þannig að um leið og við gæfum upp þessa hugmynd um hótelbyggingu á næstunni, þá værum við búnir að gefa upp um leið að mjög verulegu leyti þá von okkar, að við getum haft — a. m. k. í nánustu framtíð — nokkra atvinnu, sem heitið geti, af fyrirgreiðslu erlendra ferðamanna. Þetta tvennt er svo nátengt, að það verður ekki sundur slitið. Ég hefði haldið, að það væri bráðnauðsynlegt, að út í þetta verk væri farið, og það sem allra fyrst, bæði af þessum ástæðum og öðrum. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að svara öðru í ræðu þessa hv. þm. Þetta voru aðalatriðin. Og ég tel þau ekki svo þung á metunum, að þau eigi að ráða úrslitum í málinu.

Þá langar mig til enn á ný að minnast á brtt. hv. allshn. á þskj. 500, sem er um það, að 5. gr. frv., um eignarnámsheimildina, falli niður. Ég hafði búizt við því, að hv. frsm. n. gæfi mér þá skýringu, sem ég bað hann um, á því, hvernig útlitið væri með framgang málsins, ef brtt. væri samþ. Því að eins og ég lýsti yfir síðast, hef ég ekkert á móti því, að brtt. verði samþ., ef það hindrar ekki framkvæmd málsins. En samþykkt þessarar brtt. getur orðið til þess, að framkvæmd málsins tefjist um ófyrirsjáanlegan tíma. Einn af þeim stöðum, sem koma til greina fyrir þetta gistihús, er þannig í sveit settur, að það verður ekki hjá því komizt að taka eignarnámi nokkrar lóðir og húseignir, ef hann væri notaður fyrir þetta gistihús. Svo að ef húsið ætti að reisa, en eignarnámsheimildin væri ekki fyrir hendi og samningar tækjust ekki við eigendur hentugra lóða og mannvirkja á þeim, þá yrði ekki hægt að hafast neitt að í málinu um ófyrirsjáanlegan tíma, eða þangað til heimild væri fyrir hendi til þess að ganga til eignarnáms á lóðunum. Nú segi ég ekkert um, hvort þessi staður yrði valinn eða einhver annar til gistihúsbyggingarinnar, um það liggur ekkert fyrir. En ef hann verður valinn, liggur þetta mál fyrir eins og ég hef lýst. Og það tel ég mikinn skaða fyrir málið, ef það þarf að tefjast af þeim sökum, sem ég hef drepið á, ef brtt. væri samþ. Ef n. sér hins vegar einhver önnur úrræði til þess að afgreiða málið, þannig að framgangur þess væri tryggður án eignarnámsheimildar, væri mér kært að vita, hvaða leið það væri. Því að eignarnám í þessu efni út af fyrir sig er mér ekkert keppikefli, heldur hitt, að skortur heimildar til eignarnáms verði ekki til þess að tefja málið.