07.03.1946
Neðri deild: 82. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég þakka hv. 2. þm. Eyf. fyrir það, að hann hefur fyrir sitt leyti orðið við þeim tilmælum mínum að taka brtt. hv. meiri hl. allshn. aftur til 3. umr., svo að hægt verði að reyna til þrautar, hvort ekki næst skynsamlegt samkomulag um þetta mál á milli umr. — Annars skal ég ekki fara langt út í að deila við hann um skilning á ákvæðum stjskr. um eignarnámsheimildir, því að meira og minna heimspekilegar bollaleggingar um þá hluti færa okkur sjálfsagt tæplega nær hvor öðrum í þessu máli. Þó get ég ekki stillt mig um að minnast á það, að sá hv. þm. sagði, að hann vissi ekki til þess, að hér á Alþ. hefði verið samþ. heimild til eignarnáms, nema fyrirfram væri vitað, hvaða hluti ætti að taka eignarnámi, og helzt ekki áður en reynd hefði verið til þrautar samningaleiðin. (GÞ: Almennt). Svo bætti hann síðar við, að hér væru til vegalög og hafnarlög, þar sem eignarnámsheimildir væru veittar, án þess til væri tekið, hvaða eignir taka ætti eða þyrfti eignarnámi. Og hann hefði getað bætt við l. um skipulag bæja og fleiri l., þar sem heimilað er eignarnám á ótilteknum eignum, þ. e. ótilgreindum í l., og án þess að þeir, sem samþ. l., vissu fyrirfram, hvaða eignir mundu koma til með að verða teknar eignarnámi eftir þeim ákvæðum, og því síður, að samkomulagsumleitanir hafi farið fram um eignirnar. — Þetta er sem sagt ákvæði, sem oft hefur verið samþ. hér á hæstv. Alþ., svo að ég býst við, að hv. 2. þm. Eyf. kannist við það, sérstaklega sem lögfræðingur, að það eru mörg lagaákvæði til um heimildir til eignarnáms, án þess að til séu teknar í l. vissar eignir. Ég held þess vegna, að þetta ákvæði 5. gr., frv. um eignarnámsheimildina sé alveg hliðstætt því, sem er í öðrum l., bæði vegal., hafnarl., skipulagsl. og öðrum l., þar sem eignarnám er heimilað, ef þörf krefur. En vitaskuld eru ekki slíkar heimildir notaðar, ef frjálst samkomulag næst um kaup á eignunum. — Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta atriði málsins mikið, úr því að samkomulag hefur orðið um það að fresta atkvgr. um brtt. hv. meiri hl. allshn. til 3. umr. Og ég vil vænta þess, að eitthvert samkomulag náist við hv. meiri hl. allshn. um þetta atriði, svo að málinu verði ekki stefnt í neina tvísýnu út af þessu atriði. Því að mér skilst, að hv. allshn. sé það áhugamál, ekki síður en ríkisstj., að þetta hótel verði byggt, en ekki verði settur neinn Þrándur í Götu um þetta byggingarmál með því að útiloka fyrirfram möguleika, sem gæti kannske orðið til þess að tefja málið. Þess vegna vonast ég til þess, að samkomulag geti orðið við hv. allshn. um þetta.