07.03.1946
Neðri deild: 82. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mig langar til að fá upplýsingar um nokkur atriði, sem snerta þetta mál og eru þess eðlis, að þau gera mér a. m. k. óhægt um að greiða atkv. um þetta mál, fyrr en ég hef fengið þessar upplýsingar bæði frá hæstv. ríkisstj. og hv. allshn., sem vafalaust hafa athugað þessar hliðar málsins.

Í fyrsta lagi langar mig til að vita, hvað nýbyggingarráð og viðskiptaráð ætlazt til, að mikið verði flutt til landsins af byggingarefni á þessu ári. Við erum nýbúnir að samþykkja l., þar sem þessi tvö ráð í samráði við hæstv. ríkisstj. eiga að áætla innflutningsþörfina fyrir þessa vörutegund og veita leyfi samkv. því.

Þá hefur hæstv. viðskmrh. f. h. ríkisstj. lagt fram frv. um byggingar húsa og til þess að bæta úr húsnæðisleysi í kaupstöðum. Ég álít, að hann hafi gert sér ljóst, hvað það byggingarefni, sem viðskiptaráð úthlutar leyfum fyrir, hrekkur til þeirra framkvæmda til þess að bæta úr húsnæðisleysi í landinu og að efni til þessara framkvæmda hafi verið lagt til hliðar eða hann hafi gert ráðstafanir til þess að tryggja sér það, þegar þessi nýju hús verða byggð eftir hans frv.

Þá langar mig til að fá upplýsingar um það hjá hæstv. samgmrh., sem stendur að því frv., sem hér liggur fyrir, hve mörg almennings íbúðarhús væri hægt að byggja fyrir það byggingarefni, sem þarf í þessa hótelbyggingu, og hvað mikið sé afgangs af byggingarefni, sem nýbyggingarráð og viðskiptaráð ætlast til, að verði flutt inn í landið á þessu ári, þegar búið er að taka af því efni til allra þeirra bygginga, sem ríkið hefur veitt fé til og þörf er á. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. hafi athugað þetta allt svo og hv. allshn., áður en hún hefur mælt með frv. því, sem hér liggur fyrir.

Að lokum vil ég svo beina því til hæstv. forsrh., að við umr. hér í vetur, er einn stuðningsmaður hans bar fram brtt. um að flytja inn í landið fleiri skip en hæstv. forsrh. vildi vera láta, þá upplýsti hann, að ef það yrði gert, fengjust engir verkamenn eða sjómenn til þess að starfrækja þau skip. Var hæstv. forsrh. búinn að hugsa það þá, að það þyrfti fjölda manna til þess að byggja þetta hótel?

Ég þyrfti að fá upplýsingar um öll þessi atriði, áður en ég tek afstöðu til þess máls, sem hér liggur fyrir.