07.03.1946
Neðri deild: 82. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hefði ekki tekið hér aftur til máls nema sökum þess, að fram hafa komið fyrirspurnir bæði frá hv. 2. þm. N.-M. og hv. 10. landsk. Í sambandi við það, sem sá síðarnefndi sagði, þá er það sjálfsagt atriði, sem allshn. hefur ef til vill ástæðu til að rannsaka betur, um hitt getur verið skoðanamunur, hvort ríkið eða bærinn og Eimskipafélagið eigi í þessu tilfelli að hætta við slíka hótelbyggingu vegna þess, að aðrir hafi hugsað sér að setja á stofn annað fyrirtæki, sem gangi í sömu átt. Ég verð að segja það fyrir mitt leyti, að það samrýmist bezt mínum skoðunum, að ríkið fari ekki inn á atvinnurekstur, ef fyrir eru einstaklingar, sem vilja taka hann að sér í sömu eða svipaðri mynd. Ég get upplýst það, að enginn af þeim mönnum, sem að sögn ætla að ráðast í hótelbyggingu við Aðalstræti, hefur snúið sér til mín eða n. með slíkt, sem hér um ræðir, þannig að þeir hafa ekki gefið allshn. neitt tilefni til þess að setja rannsókn af stað í þessum efnum, sem ætti þó að liggja þeim nær, vegna þess að þeir hljóta að vita, að þetta mál er til meðferðar hjá allshn. Hins vegar get ég að sjálfsögðu rætt við meðnm. mína um, að n. taki þetta til athugunar, úr því að þetta er komið hér inn í umr.

Að því er fyrirspurn hv. 2. þm. N.-M. snertir, hvort n. hafi athugað, hve mikið af byggingarefni eigi að flytja til landsins á þessu ári, og í öðru lagi, hvort n. hafi athugað, hversu mörg íbúðarhús væri hægt að byggja úr því efni, sem færi í þetta gistihús, þá get ég upplýst það, að þessi atriði hefur allshn. ekki athugað, og ég verð að telja, að slíkt sé algerlega utan við hlutverk hennar í þessu tilliti, því að hér er aðeins um að ræða heimild fyrir ríkisstj. fyrir byggingu gistihúss.