11.03.1946
Neðri deild: 84. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Það er nú í rauninni óþarfi að taka þetta aftur til umr. hér. En hv. þm. sagði það sama og hv. 2. þm. Eyf. hefur sagt hér áður um eignarnámsheimildina, að svona víðtæk heimild væri fordæmalaus. En það er fjarri því, að svo sé. Tilsvarandi heimildir eru í vegal., hafnarl. o. fl. Hins vegar hefði ég mjög óskað eftir því að geta nefnt hér einhverja ákveðna lóð, en það er bara því miður ekki hægt á þessu stigi málsins, hvaða lóð verður fyrir valinu.

Ég legg út af fyrir sig ekkert upp úr því, hvort þessi eignarnámsheimild verður samþ. eða ekki, ef það tefur ekki framgang málsins. Ef það veldur töfum á málinu, þykir mér verr af stað farið en heima setið. En það er alveg bráðnauðsynlegt að hraða málinu sem mest má verða, svo að hægt verði að byrja framkvæmdir þegar á þessu sumri. Þess vegna býst ég við, að ef þetta verður afgr. eins og meiri hl. hv. n. leggur til, þá verði ekki annars úrkosta en að bíða til næsta þings og bera fram frv. um heimild til eignarnáms þá, ef um eignarnám þarf að vera að ræða.

Ég vil svo lofa því fyrir mitt leyti, að að svo miklu leyti, sem til mín kemur, þá verði ekki gripið til þessarar eignarnámsheimildar þó veitt verði, nema öll ríkisstj. og hinir aðilarnir, sem hér er gert ráð fyrir, að taki þátt í þessari gistihúsbyggingu, sem eru Reykjavíkurbær og Eimskipafélag Íslands, séu sammála um það. Og ég er tilbúinn til alls samkomulags um málið, ef hægt væri að klæða þessa gr. í þann búning, sem hægt væri að fá samkomulag um. Ég er fús til alls samkomulags á þeim grundvelli, sem ekki verður til tafar málinu. Ef hv. frsm. n. telur, að það geti orðið samkomulag um þetta, teldi ég heppilegast, að hæstv. forseti vildi fresta málinu um einn dag, ef hv. frsm. n. teldi það hafa einhverja þýðingu.