12.03.1946
Neðri deild: 85. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls hér í hv. d. upplýsti hæstv. samgmrh., að hann gerði ráð fyrir, að fenginn yrði amerískur sérfræðingur til þess að gera teikningar og annað, sem að byggingu þessa gistihúss lýtur. Ég skal ekki fara frekar út í það. En í því sambandi hefur hér á hæstv. Alþ. oftar en einu sinni verið minnzt á útvarpshöllina fyrirhuguðu. Og í tilefni af því vildi ég fá upplýsingar um það, hvort sannur sé sá orðrómur, sem gengið hefur um bæinn, að þær frumteikningar, sem búið sé að gera í Ameríku að þessari útvarpshöll, muni kosta um 45 þús. dollara og sé þó ekki nærri lokið. Og vissa mun vera fengin fyrir því, að reynt hefur verið að fá 45 þús. dollara yfirfærslu til Ameríku, til þess að greiða fyrir teikningu af þessu húsi. Ef nú eitthvað svipað ætti sér stað um teikningar af þessu væntanlega hóteli, þá renna a. m. k. á mig tvær grímur um það, hvort ekki muni vera hægt að fá þær eins góðar innan lands fyrir sama eða minna gjald en gefið er fyrir þær, þó að mikið sé í munni að fá þær frá Ameríku.

Í öðru lagi hef ég heyrt það frá umr. í hv. Ed., að sá hæstv. ráðh., sem flytur þetta frv., sem hér liggur fyrir, telji enga möguleika á því að samþ. svo kallaðan Austurveg, af því að enginn fólkskraftur sé í landinu til þess að vinna við þann veg, m. a. vegna þess, að menn fari á þá nýju togara, sem keyptir eru til landsins. Nú er ég ekki svo fróður, að ég geti gert samanburð á því, hve margir menn munu þurfa að vinna í Austurvegi, eftir þeim framlögum, sem til þess vegar hafa verið fyrirhuguð, og hve margir þurfi að vinna við þessa hótelbyggingu, ef það verður byggt. Það kann að koma eins út og þegar hæstv. forsrh. taldi, að til væri mannskapur á 30 togara, en enginn maður á þann 31. Nú er sá 31. kominn, og e. t. v. þarf hann þá að standa á þurru landi. Nú vil ég spyrja hæstv. samgmrh. um það, hvort það sé svo miklu meira vit í því fyrir þjóðina að byggja þetta hótel heldur en að framkvæma annað, að það eigi t. d. að sitja í fyrirrúmi um vinnukraft fyrir Austurvegi, sem ég held, að allir telji brýna nauðsyn á að framkvæma, — ekki bara fyrir erlenda menn, sem geta ekki verið nema á fínum hótelum og geta ekki verið á þeim hótelum, sem einstakir menn ætla að byggja hér á landi, — heldur fyrir all landsmenn. Mér er tjáð, að í hv. Ed. hafi það verið ein aðalröksemd þeirra manna tveggja, sem þar lögðust á móti Austurvegi, að ekki mætti festa verkafólk í Austurvegi. Og þá spyr ég: Er þá frekar til vinnuafl í landinu til þess að festa það í hótelbyggingu en til þess að gera nýjan veg, sem alþjóð þarf á að halda?

Ég spurði hér um daginn viðvíkjandi innflutningi byggingarefnis til landsins og benti á það, að ef þetta hótel bætist við allar aðrar opinberar byggingar, sem fyrirhugað er að byggja, þá teldi ég vafasamt, að byggingarefni yrði til í allt, sem hæstv. atvmrh. ætlar að láta bygga og allir eru sammála um, að þarf að byggja. Ég hef athugað þetta ofurlítið síðan. Það munu, fyrir utan hótel þetta, vera fyrirhugaðar byggingar af hinu opinbera, sem mun kosta hátt upp í 40 millj. kr. að reisa með núverandi verði. Menn greinir nú nokkuð á um það, hve mikill hluti af byggingarkostnaðinum sé kostnaður við efniskaup. Fyrir verðbólguna var talið, að efnið væri helmingur og stundum 40% af byggingarkostnaðinum. Nú telja menn, að efnið kosti miklum mun minna en vinnan og jafnvel að hlutföllin hafi snúizt við. Við höfum í þessu efni sérstöðu, samanborið við önnur lönd, þar sem talið er, að efniskostnaður við byggingar hjá okkur muni vera 30–40% af öllum byggingarkostnaðinum, en hitt sé vinna. Líklega þarf því aldrei minna en fyrir 10 millj. kr. sement í þær opinberu byggingar, sem búið er að veita fé til í fjárl. Nú spyr ég: Veitir þá af því sementi, sem eftir er þá af sementsinnflutningnum, miðað við það, sem von er á, í byggingar yfir mannfólkið í landinu? Gerir hæstv. samgmrh. sér von um, að það fáist það mikið af sementi flutt til landsins, að hægt verði að byggja miklu meira á næstunni eða á þessu ári en þær byggingar, sem búið er að gera ráð fyrir á fjárl. og ekki mun þurfa minna sement til en fyrir 8–10 millj. kr., ef þær verða byggðar, að óbreyttu sementsverði?

Ég hefði haldið, að allt hnigi í þessu efni að því sama. Í fyrsta lagi, að nóg verkefni væru til í landinu, sem væri miklu þarfara að vinna að en að byggja þetta hótel. Og úr því að viðurkennt er, að ekki megi taka vinnukraft frá framleiðslunni til þess að leggja veg, sem allir eru þó sammála um, að nauðsynlegt sé að leggja, þá álít ég, að það sé því síður ástæða til að taka vinnukraft frá framleiðslunni til þess að byggja hótel. Og úr því að allir eru sammála um, að það vanti íbúðir fyrir hið starfandi fólk í landinu, þá hygg ég, að í öðru lagi beri það þá líka að sama brunni, að menn eigi þá að láta sementið, sem við getum fengið flutt til landsins, til þess að byggja það, sem við ekki þurfum að byggja, ganga til þess að byggja yfir fólkið, sem nú býr í bröggum og ónothæfum íbúðum öðrum, en ekki í lúxushótel fyrir útlendinga.

Þess vegna tel ég, að þetta frv. eigi ekki að samþykkja.