12.03.1946
Neðri deild: 85. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég sé nú mjög greinilega, að það er alvara hjá Framsfl. að reyna að setja fótinn fyrir þetta frv. Hv. 2. þm. S.-M. gerði tilraun til þess við 2. umr., og nú hefur hv. 2. þm. N.-M. gert slíkt hið sama, og skal ég ekki fara langt út í hans ræðu. Hún var meira af vilja en mætti flutt og langt og óhöndulega seilzt til raka í henni. Hv. 2. þm. N.-M. spurði, hvað kostað hefðu teikningar að útvarpshöll, sem á að byggja hér í Reykjavík. Ég veit það ekki. Það hefur aldrei komið til minna kasta kostnaður við þá teikningu, og mér er ókunnugt um, hvað hefur samizt um að greiða fyrir hana. Hitt veit ég, að þeir tveir sérfræðingar, sem samið hefur verið um, að kæmu hingað til þess að gera teikningu að hótelbyggingu, hafa verið ráðnir þannig til fararinnar, að þeir fái 500 dollara hvor og ferðakostnað, ef úr samningum verður ekki um, að þeir teikni þessa byggingu. Hins vegar ef úr verkinu verður og þeir teikna bygginguna, verður samið sérstaklega við þá. Þessir 500 dollarar eru rúmlega 3.000 kr., sem samið er að greiða hvorum manni auk ferðakostnaðar. En vitaskuld koma þar mjög mikið aðrar tölur til greina, ef þeim verður falið verkið.

Um hitt, hvað beri að gera og hvað beri ógert að láta á þessum tímum, skal ég ekki rökræða við hv. 2. þm. N.-M. Hann var að reyna að hafa eftir mér ummæli út af Austurvegi við umr. í hv. Ed. í gær og fór mjög skakkt með. Hann hafði það eftir mér, að ég hefði álitið, að ekkert fólk væri til til þess að vinna í veginum. En ég hafði alls ekki þau orð. Ég dró í efa, að hægt væri að vinna að þeim vegi með þeim hraða, sem frv. um það mál gerir ráð fyrir. Því að ef á að vinna með þeim hraða að því verki, sem frv. gerir ráð fyrir, þá þarf til þess 200–400 menn á ári, og ég efaðist um, að sá mannfjöldi væri fyrir hendi aflögu frá framleiðslustörfum, sem nauðsynlega þarf að vinna.

Það er rétt, að það má. lengi deila um það, í hvaða röð eigi að framkvæma þessi eða hin mannvirki. En ég held, að því verði slegið föstu, að þessi hótelbygging sé líkleg til að verða fyrsta undirstaða undir nýjum atvinnuvegi á Íslandi, sem geti ekki þrifizt á Íslandi, nema þetta hótel verði byggt. Og að setja fótinn fyrir þetta mál er að reyna að eyðileggja þann atvinnuveg um óákveðinn tíma. Það þýðir ekki að bjóða útlendingum hingað nema með því móti að hafa húsakynni til þess að bjóða þeim í, sem þeir vilja nota. Það þýðir ekkert að bjóða þeim lélegan aðbúnað eða lélegri en þeir vilja sætta sig við. Hitt væri þá betra, að þeir kæmu hingað alls ekki, heldur en að við fengjum orð fyrir kotungshátt fyrir að geta ekki tekið á móti þeim að þeirra óskum. Það er og vitað, að þau gistihús, sem til eru í landinu, eru yfirfull þegar af innlendum mönnum, af því að gistihúsin í landinu fullnægja ekki þörfinni. — Allt ber þetta því að sama brunni. Því aðeins getum við hugsað okkur að taka upp greiðasölu til erlendra ferðamanna á Íslandi, að eitthvað sé gert til þess að bæta úr gistihúsaskortinum. Og þetta frv. fer í, þá átt. Vitanlega er ekki hægt að nota þann mannafla til annars á meðan, sem að því starfar að byggja þetta hús. En um það má alltaf teygja lopann, um hvaða verkefni sem er að ræða. Og ég hygg, að vandfundið muni vera það verkefni hér á landi, sem ekki megi segja um, að e. t. v. sé meiri ástæða frá einhverju sjónarmiði til að vinna að öðru í þann svipinn. En ég tel þessa gistihúsbyggingu eitt af þeim málum, sem bráðnauðsynlegt sé og aðkallandi að leysa á næstunni, og að ríkisstj. beri að fara út í þessar framkvæmdir á þann hátt, að það verði ekki til þess að standa fyrir öðru, sem við nánari athugun gæti talizt nauðsynlegt eða nauðsynlegra. Það get ég gengið inn á. En ég geri ekki heldur ráð fyrir, að málið verði rekið á þann hátt, að það verði látið ganga fyrir öðru, sem talizt geti nauðsynlegra. Ég sem sagt tel, að þessar aðfinnslur hv. 2. þm, N.-M, séu fram komnar meir af vilja en mætti og meir til þess að reyna að setja fótinn fyrir þetta mál en að það, sem hann tók fram, séu bein rök gegn framgangi þessa máls.