12.03.1946
Neðri deild: 85. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Ég var í þeim minni hl. allshn., sem vildi samþ. frv. þetta, sem hér liggur fyrir, óbreytt. Ég er í raun og veru sömu skoðunar um þetta enn þá, eins og ég var í n., að eðlilegt væri, að frv. væri samþ. óbreytt. Sjálfur var ég hvorki hræddur þá né heldur nú við 5. gr. frv. Enda hefur hæstv. samgmrh. bent á það, að þessi gr. á sér mörg fordæmi í íslenzkri löggjöf og að það muni ekki vera nein hætta á því, þegar það er það opinbera, sem á hér hlut að máli, eins og sjálft ríkið, og væntanlega líka höfuðstaður ríkisins og eitt af þeim stærstu félögum, sem hér eru á landinu, Eimskipafélag Íslands, sem er líka að nokkru leyti ríkisfyrirtæki, að þessir aðilar muni á nokkurn hátt misnota þá heimild, sem veitt væri um eignarnám með 5. gr. frv. Ég hefði því fyrir mitt leyti verið algerlega óhræddur við að láta frv. ganga óbreytt í gegn og verða að l. Hinsvegar get ég líka samþ. þá brtt., sem hæstv. samgmrh. hefur nú borið fram, sem er viðauki við 5. gr. frv. efnislega, þar sem því er slegið föstu, sem í raun og veru hefði mátt ganga út frá sem sjálfsögðum hlut, sem er grundvöllur undir frv., að þeir aðilar, sem stæðu að byggingu þessa væntanlega hótels, væru um það sammála að beita eignarnámsheimildinni. Ég vildi þess vegna vænta þess, að þeirri einkennilegu hræðslu eða varhygð, sem komið hefur fram í umr. hjá sumum hv. þm. í sambandi við þessa eignarnámsheimild, ætti að vera rutt úr vegi með þessari brtt. hæstv. samgmrh.

Ég vil líka undirstrika það, sem hæstv. samgmrh. sagði, að hér er verið að gera ráðstafanir til þess, að hægt verði að einhverju leyti að leggja grundvöll að því að stunda nýjan atvinnurekstur á Íslandi, sem er bundinn við komu erlendra ferðamanna hingað til landsins. Frá náttúrunnar hendi höfum við hér á landi svo margt, sem auga útlendingsins girnist að sjá, ef aðeins væri hægt að koma því þannig fyrir að veita þeim útlendingum, sem til landsins koma, þann aðbúnað, sem þeir telja sér nauðsynlegan til þess að geta heimsótt landið, og það er síður en svo, að ferðamannastraumur og sá gjaldeyrisauki, sem stendur í sambandi við hann, sé hættulegur litlu landi. Við höfum séð, hvernig frændur vorir Norðmenn hafa hænt til sín stórkostlegan ferðamannastraum frá löndum víða um heim, og var þetta þýðingarmikill liður í þjóðarbúskap þeirra, áður en þeir voru herteknir. Sama má segja um mörg önnur lítil ríki, t. d. Sviss. Ég álít því, að hér sé verið að gera mjög þýðingarmikla tilraun af hæstv. ríkisstj. með því að reyna að beina framtaki hins opinbera, ríkis og höfuðstaðarins í samvinnu við Eimskipafélag Íslands h/f, að því að koma hér upp myndarlegu gistihúsi, sem gæti orðið til þess, þegar tímarnir verða aftur eðlilegir, að hingað beindist á næstunni verulegur ferðamannastraumur. Ég álít það byggt á misskilningi eða öðru verra að reyna að bregða fæti fyrir þetta mál, og vil ég mega vænta þess, að þeir, sem eru hræddir við ákvæði 5. gr. frv., geti nú sefað sinn ugg með brtt. hæstv. samgmrh., samþ. hana og eftir það greitt frv. brautargengi, en hinir aðrir, sem álíta það stefna í öfuga átt að koma upp myndarlegu gistihúsi í höfuðborg íslenzka lýðveldisins, þeir þjóna að sjálfsögðu sinni skoðun og greiða atkv. gegn þessu máli. Ég er sannfærður um, að þeim verður ekki snúið með neinum rökræðum hér í hv. d., en ég vildi þó láta þessi orð falla, af því að ég á sæti í allshn. Fyrir mitt leyti er ég ásáttur hv. 2. landsk. um það, að engin ástæða er til að fella niður 5. gr. frv., en er hins vegar fús til að samþ. brtt. hæstv. samgmrh., ef vera mætti með því, að menn yrðu óhræddari við að samþ. frv. þannig. En það tel ég merkilegt spor í nýsköpunarátt til þess að mæta þeim tímum, sem sérhvert sjálfstætt ríki verður að geta mætt nú á næstunni, og það er að geta tekið á móti erlendum ferðamönnum, bæði þeim, sem koma í skemmtanaskyni, og hinum, sem koma í atvinnuerindum, þannig að þeir útlendingar, sem sækja heim höfuðstað hins íslenzka lýðveldis, geti ekki borið okkur þá sögu, að hér sé varla um að ræða ríki, sem geti borið fullveldisheitið með rentu.