13.03.1946
Neðri deild: 86. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. Eins og fram kom við 1. umr. þessa máls, var uppi nokkur kurr út af hinu óvenjulega ákvæði í 5. gr. frv., að nú skyldi hverfa að því, sem ekki á sér nokkurt fordæmi eða stað í l., en það er hin ótakmarkaða eignarnámsheimild. Þegar hv. allshn. fjallaði um málið, kom og fram, að hún gat ekki fallizt á 5. gr. eins og hún var. En það, sem farið er fram á, er, að hér í þessum bæ megi taka lóðir og hús, þar sem henta þykir, til að reisa þar gistihús. — Nú hefur fleira fram komið í þessu máli, sem hv. n. virðist ekki hafa athugað, en það er, hvort hér er ekki verið að reisa hús, svo stór og vel búin, að nægja mættu öllu fyrirmönnum. Ég spurði um þetta við 2. umr. málsins, og hét þá formaður n. að athuga þetta.

Þá verð ég að lýsa undrun minni yfir meðferð hv. allshn. á þessu máli. Raunar má þykja skiljanlegt, að óhægt sé að standast kröfur hæstv. ráðh. í þessu máli og að þeir, sem styðja vilja stj., leiti vegar að verða að vilja hæstv. ráðh. Áður hafði hér fram komið brtt. frá hæstv. ráðh., sem var fullkomlega út í hött. Þessi brtt., sem nú liggur fyrir, er uppsuða úr þeirri till. og er á þá lund, að eignarnámsheimildin er bundin við ákveðinn stað. Nú þótt hér sé um einsdæmi að ræða að veita slíka heimild, þá munu sumir kunna að segja, að gott sé, að borgararnir finni, hversu tryggir þeir eru gagnvart valdhöfunum. En nú hefur þessu til viðbótar hv. frsm. n. heitið því fyrir hönd n. að mæla með eignarnámsheimild hvar sem vera skal, ef þessi tiltekni staður verður ekki valinn. Hér er vitanlega um alls kostar óvenjulega og óhæfilega aðferð að ræða, að ein þingnefnd geti fyrirfram heitið fylgi sínu við nokkurt mál. Þrátt fyrir allt þetta er þessi brtt. þó bót frá því, sem var, og án þeirrar viðbótar, sem hv. frsm. gerði, er hún ekki verri en við mátti búast.

En eftir er þó þetta, sem er grundvöllurinn undir því öllu saman, að hér sé almennings heill til staðar, og það er vitanlegt, að það er Alþ., sem verður að skera úr því í hvert sinn. Og hæpið finnst mér, að gefa það fordæmi, að þetta sé almenningsheill í þessu tilfelli, þrátt fyrir það, að margt má færa því til sérlegra málsbóta að ráðast í þetta. En þá er þetta eftir: Er ekki hægt að snúa því upp í það, að hver og einn, sem vill byggja hótel fyrir útlenda eða innlenda, hann geti fengið eignarnámsheimild á lóð undir bygginguna? Það er enginn eðlismunur, á því, hvort ríkisstj. sem slík stendur að þessu eða einstakur aðili vill framkvæma þessa almenningsheill, en þykist ekki geta það nema með því að fá aðstoð löggjafans til þess að taka annarra eign, því að það er hreinn misskilningur, að stjórnlögin séu fyrir ríkið. Stjórnlögin eru fyrir borgarana, þeim til verndar, en ekki fyrir ríkið, þar sem um vernd er að ræða. Ríkið er þar ekki rétthærri aðili, þegar metið er, hvort almenningsheill er fyrir hendi.

Þetta allt vildi ég benda á. Að öðru leyti mun ég láta málið afskiptalaust, en þessi atriði eru og verða þung á metunum, ef þau verða gerð að l. og framkvæmd.