13.03.1946
Neðri deild: 86. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Það hefur verið minnzt á það í þessum umr. og mjög á loft haldið, að með byggingu nýtízku gistihúss væri verið að leggja undirstöðu að nýjum og þýðingarmiklum atvinnuvegi landsmanna og mætti því líta á slíka byggingarframkvæmd sem lið í nýsköpuninni. En ég vil benda á, að ef þetta á að verða undirstaða að nýjum atvinnuvegi, þyrfti einnig að koma því til leiðar, að hæfileg gistihús rísi víðar upp og ekki síður í sveitum en við sjó. Það er líka rétt, sem fram hefur komið í þessum umr., að þetta er matsatriði, hvort hér sé svo brýn nauðsyn á ferðinni, að að þessu eigi að vinda bráðan bug nú þegar, eða hvort ekki séu aðrar þarfir, sem enn brýnni nauðsyn sé að leysa. Ég fer ekki meira út í það. Þetta verður að sjálfsögðu metið af hæstv. ríkisstj., þó að hún fái þá heimild, sem hér á að lögfesta.

En það er í tilefni af hinum mjög svo furðulega eltingaleik, sem meiri hl. allshn. hefur háð við 5. gr. frv., sem ég hef kvatt mér hljóðs. Samkv. 5. gr. á að gefa stj. heimild til að taka eignarnámi lóðir, hús og önnur mannvirki eftir því, sem hún telur þörf, undir þetta fyrirhugaða gistihús. Í mínum augum er þetta sjálfsögð og eðlileg heimild. Ég skal ekki elta ólarnar við hv. 10. landsk. eða aðra, sem hafa á því aðrar skoðanir prinsipielt, ef ég má nota það útlenda orð. Ég vil sérstaklega benda á, að nú er svo komið, að allshn. leggur til, að heimildin til eignarnáms verði miðuð við ákveðinn stað, sem sé það svæði, sem takmarkast af Skothúsvegi, Tjarnargötu og Reykjavíkurtjörn, og meira en það, hv. frsm. n. segir, að n. vilji stuðla að því, að sams konar heimild fáist fyrir aðra staði, ef það telst hentugra að reisa þessa byggingu annars staðar. Hvað er þá hér á ferðinni? Raunverulega ekkert annað en það, að n. lýsir yfir, að hún treysti ekki hæstv. stj. til þess að velja stað fyrir þessa byggingu, svo að við hæfi sé. Mér virðist, að það eitt, sem n. fer fram á, sé að fá að segja sitt orð um, hvaða staður sé valinn, hversu stórt land sé valið og hversu miklar eignir séu keyptar. Í tilefni af þessu vil ég benda á, að þessi n. hefur nú komið auga á ákveðinn stað, sem ég hef áður nefnt. Það er rétt, þetta er glæsilegur staður, vel í sveit settur, og ég hygg, að hann muni uppfylla mjög margar þær kröfur, sem gera ber til slíks staðar. En hinu má þó ekki gleyma í þessu sambandi, að á þessum stað stendur nú eitt af sjúkrahúsum bæjarins, og bæinn og landið vantar nú stórkostlega sjúkrahús. Á Þessum sama stað stendur eitt af barnahælum bæjarins, og bæinn vantar barnahæli í mjög stórum stíl. Á þessum sama stað eru allt að tvö íbúðarhús og auk þess stórt gamalt íshús, sem nú er frystihús, sem er að vísu bygging, sem þarf að hverfa af þessum stað hið allra fyrsta. Við getum því sagt, að það sé síður en svo vandkvæðalaust að taka þennan stað. Það er síður en svo vandkvæðalaust að ætla að útrýma einu af sjúkrahúsum bæjarins, þótt lítið sé, og einu stærsta barnaheimili bæjarins. Ég verð að lýsa því yfir, að ég tel ekki líkur til, að hæstv. ríkisstj. mundi fara fram á að fá stað innan bæjar fyrir gistihús, sem af hlytust meiri vandkvæði fyrir borgina en þessum. (PZ: Ríkisstj: hefur bent á þennan stað). Það er rétt, sem einn þann, er kæmi til greina, en úr því að n. fellst á að mæla með eignarnámsheimild fyrir þann stað, sem er svona miklum annmörkum búinn, þá finnst mér, að hún gæti eins fallizt á að gefa enn þá víðari heimild, sem í gr. felst.

Ég mun svo ekki orðlengja um þetta miklu meira. Ég vil aðeins benda á þessa staðreynd og lýsi yfir, að ég mun greiða atkv. gegn þeim brtt., sem hafa komið fram við 5. gr. Ég álít hana góða og eðlilega eins og hún er og treysti hæstv. stj. til þess að misnota hana á engan hátt.